Eitthvad út í buskann...

fimmtudagur, janúar 05, 2017
 
London Heathrow

Sit á London Heathrow og bíð eftir næsta flugi BA800 til Keflavíkur á leið minni frá Walvis Bay til Dalvíkur. 
Fletti lauslega yfir fréttirnar, sé að Íslendingar eru á fullri ferð inn í framtíðina með kolabrennslu.
Já og svo var verið að misnota einhverja hesta kynferðislega, eins og þessar vesalings skepnur hafi ekki verið misnotaðar nóg fyrir.

föstudagur, ágúst 26, 2011
 
..::Spurning::..
Það hefur alvarlega verið að banka upp hjá mér undanfarið hvort ég ætti kannski að fara að blogga aftur, en með því að fresta því aftur og aftur og hugsa um eitthvað annað, þá hefur mér tekist þokkalega að bægja þessum hugsunum frá ;).
þriðjudagur, apríl 21, 2009
 
..::Skipreika::..
Jæja þá er lönduninni lokið og við aftur farnir að berjast um fisktittina með frekar döprum árangri, en það þíðir víst lítið að velta sér upp úr því.
Páskahrotan hlýtur að vera handan við hornið þótt okkur finnist hún vera frekar sein á ferðinni þetta árið.

Í þessu löndunarstússi er tuðran mikið notuð til að ferja menn og varning milli skipanna og til og frá landi, þótt ég kalli þetta tuðru þá er það ekki svo að þetta séu einhver uppblásin manndrápsfley eins og víða tíðkast, nei þetta eru ansi flottir léttbátar ekki ósvipaðir því sem margar björgunarsveitir eru með heima, 80-150hp mótor stýri sæti GPS AIS og allur pakkinn, þykir heimamönnum hér um slóðir mikil upphefð að fá að ferðast um í þessum fleyjum.

Fljótlega eftir að við komum inn á leguna var þörf á þjónustu tuðrunnar til þess að sækja herinn, ég ákvað að fara sjálfur enda nóg að gera hjá öllum öðrum.
Bátnum var slakað í sjóinn og ég ætlaði að æða af stað en það klikkaði bara eitthvað í mótornum og hann vildi ekki starta. Það var ekkert annað í stöðunni en að hífa bátinn aftur um borð og leggja hann inn á sjúkrahús vélstjóranna.
Heineste var líka í löndun og nú var leitað á náðir þeirra með bát til að ferja hermennina til okkar, það var auðsótt mál og þeir voru fljótir að bregðast og leistu þetta vandamál fyrir okkur á svipstundu.

Við nánari athugun á mótornum á bátnum okkar kom í ljós að startarinn var pikkfastur, en með vöðvadrifinna vélstjóra og brúsa af Þórólfsúða (WD40) við hendina losnaði um startarann og taldi yfirsmyrjarinn að þetta myndi duga til gangsetningar um ókomna framtíð.
En til að fyrirbyggja allt væl væri samt væri vissara að panta nýjan svona upp á öryggið.
Strax næsta dag var komið verkefni fyrir bátinn og í einskærri góðmennsku minni bauðst ég til að taka verkefnið að mér, verkefnið var fólgið í því að sækja þrjá Indónesa yfir í Reinu sem er annað af þjónustuskipunum okkar.
Bátnum var slakað niður og yfirsmyrjarinn hafði engu logið um að þetta startara vandamál væri komið í lag, mótorinn datt í gang og malaði sem aldrei fyrr.
Ég brunaði eftir Indónesunum og gekk sú ferð stórslysalaust þrátt fyrir bölvaðan skæling, þegar því verkefni var lokið var tuðran hífuð upp á síðuna og höfð þar reiðubúin fyrir næsta verkefni sem var fyrirséð að yrði fljótlega.
Um hálfsjöleitið var svo komið að næsta verkefni sem ég tók að mér eins og sönnum heiðursmanni sæmir, ekki ástæða til að fara að rífa menn úr löndun fyrir smá skreppitúr til Nouakchott, við lágum 3.5sml utan við höfnina og það var enn leiðindaskælingur fyrir svona lítinn bát, ég ákvað að fara einn vegna fjölda farþega á bakaleiðinni, þeir yrðu fjórir og lestaðir farangri.
Segir nú ekki frekar af ferðum mínum fyrr en að ég á eftir sirka eina mílu í hafnargarðinn, allt í einu kemur ægilegur smellur úr mótorshelvítinu klikk klakk klikk klakk og allt steindó.
Ég hugsaði með mér andskotinn nú hef ég fengið í skrúfuna og fór að tjakka mótorinn upp, þegar skrúfan kom úr sjó þá var ekkert í henni en nú var mótorinn farin að skila smurolíunni niður í bátinn, var bara eins og hann hefði fengið flóðmigu, það voru ekki mikil geimvísindi í því að helvítið hefði farið í mask.

Þar sem ég var með talstöð með mér þá gat ég kallað yfir í skipið mitt og gert þeim grein fyrir ástandinu, báturinn var vélarvana á reki rétt utan við höfnina, yfirsmyrjaranum gat ég tilkynnt að ef hann ætlaði að panta nýjan startara þá væri örugglega betra að hafa mótor áfastan á honum. Ég taldi að Þólólfsúði mætti sín lítils gegn þeirri bilun sem nú hefði riðið yfir.

Aftur þurfti að kalla út hjálp frá Heineste, var mér fljótlega tilkynnt að hjálp væri á leiðinni.
En þetta leit hreint ekki vel út, ég rak hratt til suðurs og það var bara helv... bræla fyrir svona lítinn bát, það var stutt í myrkur og auðvelt að tína svona horni í myrkrinu.
En það var svo sem ekki mikið annað að gera en að bíða, ég fann 1.5 liter af drykkjarvatni og svo var ég með 90kg af fiski sem ég ætlaði að færa hafnarstjóranum í Betlehem, ég ætti því ekki að þurfa að svelta.
Miðað við rek og vindátt þá sýndist mér að ég myndi reka upp í fjöru einhvertímann um nóttina, það var því ekkert annað að gera en bíða rólegur og vona að vindáttin breyttist ekki.

Ég reyndi nokkrum sinnum að veifa í báta heimamanna sem voru á landleið en þeir tóku ekki eftir mér.
Eftir dágóða bið sá ég til ferða Heinestemanna og náði að kalla þá upp í stöðinni, þeir sáu mig og tóku stefnuna á mig, mikið agalega var ég fegin.
Dráttartóg var klárt og þeir voru fljótir að hengja mig aftaní, rescue 911 sögðu þeir þegar þeir mættu ;);).
Nú var kúrsinn settur til hafnar í Nouakchott, þar tókum við farþegana og farangur um borð og svo vorum við dregnir út aftur.
Það var bölvaður skakstur og ferðin sóttist frekar seint í svarta myrkri og kaldaskít, en þetta hafðist allt á endanum og vorum við mikið fegnir að komast um borð aftur.
Báturinn var hífður á sinn stað og ákveðið að kíkja á mótorinn í björtu daginn eftir.

Þegar við fórum að huga að mótornum kom í ljós að það hafði brotnað stimpilstöng og hún hafði brotið sig út úr blokkinni nánast hringinn, það var bara silendirinn sem hélt mótornum saman og mátti horfa í gegn um mótorinn.
Ég var sennilega heppin að brotin úr honum þeyttust ekki í bakið á mér þegar hann fór í mask, það hefði nú verið til að toppa vitleysuna hehe;).
Læt þetta bull duga í bili.
Megi Guð og gæfan vera ykkur innan handar á reki ykkar um lífsins ólgu sjó.
miðvikudagur, apríl 15, 2009
 
..::Brostu þetta er ekki eins slæmt og þú heldur!::..

Lengi hef ég ætlað að skrifa eitthvað inn á þetta blogg en einhvernvegin lendir það alltaf aftast í forgangsröðinni.
Ég átti ansi gott frí heima, að vísu var fríið nokkuð þéttsetið af uppákomum, fyrst voru það fundarhöld hjá fyrirtækinu og svo fóru tvær vikur í endurnýjun á ýmisskonar réttindaskírteinum.
Fríið var búið áður en ég vissi af og var ég komin um borð aftur um borð 1apríl.
Þessi hálfi mánuður sem ég hef verið um borð hefur verið í rólegri kantinum, fiskiríið hefur verið dapurt en við trúum að síðbúin páskahrota sé handan við hornið.

Annars er ekki mikið annað að segja.


Læt þetta duga í dag.

Bið Guð og gæfuna að vaka yfir ykkur..........
sunnudagur, janúar 25, 2009
 

..::Með krókinn í rassgatinu og tro....::..
Stundum gæti maður haldið að það hefði verið lögð á okkur álög en sennilega er þetta nú bara venjuleg óheppni sem flestir upplifa einhvertímann á þessari jarðkúlu.

lífið er ekki alltaf dans á rósum og enginn sagði að þetta yrði auðvelt, stundum fer ógæfuhjólið á svo mikinn snúning að maður heldur að það muni bara ekki stoppa aftur.

Einhvern vegin tókst okkur að hitta fram hjá stóru torfunni í fyrrinótt og vorum við frekar aftarlega í röðinni þann daginn sem og dagana á undan, ljósi punkturinn er kannski sá að ef maður er aftastur þá er enginn í rassgatinu á ...... ;);).

Í gærkvöldi vorum við félagarnir að snúa þegar eitthvað slitnaði í trolldruslunni og hún kýldist ofan í botninn, það var ekkert annað að gera en að hysja draslið upp og rúlla tægjunum inn, toppvængurinn hafði slitnað frá efrigrandaranum og trolldræsan og belgurinn flettist aftur undir poka, shit happens og ekkert annað að gera en sleikja sárin slá nýju trolli undir og halda áfram að reyna, þar með var vaktin mín búin og ég skammaðist í koju með skottið á milli lappanna.

Þegar ég vaknaði í morgun var svo verið að hífa, eitthvað samt athugavert við það því þeir voru nýbúnir að kasta.

Ég leit aftur á dekk sá ég að Gummi trollmaster var komin út og var að hnýta utan um einhverjar druslur sem voru að koma inn, það var bara ramminn og höfuðlínusónarinn sem kom upp í þetta skiptið, hitt var farið :(, þetta leit ekki ósvipað út og mannlýsing sem ég heyrði fyrir mörgum árum „ekkert nema kjafturinn eyrun og ramminn í kring um rassgatið!“.

Verslings stýrimaðurinn minn var að kasta trollinu sem slegið var undi seint í gærkvöldi, þetta var fyrsta hol með þessu trolli og varð líka það síðasta, hann náði ekki að klára að slaka áður en það lak í sundur, hálft trollið belgur og poki urðu eftir á botninum.

Það þíddi lítið að vera fjasa yfir þessu og ekkert annað í stöðunni en að drífa slæðuna út og reyna að slæða draslið upp. Strákarnir voru fljótir að græja slæðuna og ég fljótlega komin með krókinn í rassgatið í orðsins fyllstu merkingu.
Okkur gekk vel að slæða, vorum heppnir og settum í þetta í annarri tilraun. Gummi og hans menn voru nokkuð snöggir að spóla belg og poka inn á dekk og fljótlega gátum við kastað aftur.

Já það er stundum bras á þessu og það þykja ekki merkileg tíðindi þótt það fari eitt og eitt troll í þessum barning.

Fleira var það ekki núna.
Bið þann sem öllu ræður að senda okkur fullan skammt af lukku og hamingju.
föstudagur, janúar 23, 2009
 
..::Eins og það hafi gerst í gær::..
Nú er litli guttinn minn orðin 16 ára og daman 20 ára, mér finnst það svo stutt síðan þau fæddust. Mér finnst líka stutt síðan ég var að spá í hvar ég yrði að gera árið 2000, og stutt síðan ég fermdist hehe.
Já það er ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram og minningarnar halda áfram að hlaðast inn á harða diskinn, sumt fennir fljótt og örugglega yfir á meðan annað stendur upp úr skaflinum, oftast eru það skemmtileg og skondin atvik sem lifa í minningunni á meðan það leiðinlega hverfur á vit gleymskunnar.

Það væri örugglega þess virði að setjast niður einhvertímann og skrifa eitthvað af þessum minningum niður, en sumt þolir illa dagsins ljós og fær því að hvíla um sinn í sínu dái, annað þolir betur opinberun ;).

Þegar ég var unglingur var ekki svo mikið verið að hugsa um að hafa ofan af fyrir krökkunum, það var engin félagsmiðstöð og lítið sem ekkert gert að hálfu bæjar eða skólayfirvalda.
En við urðum að hafa eitthvað fyrir stafni því engar voru tölvurnar og ekki nema ein sjónvarpsrás.
Við héngum í sjoppunum þangað til okkur var hent út fyrir læti og þá var litið um húsaskjól fyrir krakkaskrílinn.
Það var þó í bænum skólabygging sem hafði verið ótal ár í byggingu og virtist ekkert á leiðinni að klárast, hálfgert steinsteypu musteri engum til gagns en nýttist ágætlega sem afdrep þegar okkur var úthýst úr sjoppunum. Þarna réðum við okkur sjálf og engin að skipta sér af því þótt við værum að flækjast þarna. Ekki man ég eftir því að það hafi verið nein stór vandræði þótt við hefðum nýtt þetta húsnæði sem leiksvæði, svona fyrir utan einn og einn hengilás sem óvart datt í sundur og mynd af brjóstgóðri konu sem ég sprautaði óvart á vegg með tectil brúsa sem einhverra hluta vegna var við höndina. Kiddi smíðakennari dró mig löngu seinna á eyranu inn að málverkinu og benti mér á að nú væri búið að mála vegginn fimm sinnum og sú brjóstgóða birtist alltaf aftur, það var til einskins að þræta, framlag mitt í myndlist til skólans opinberaðist aftur og aftur og Kiddi kunni greinilega ekki að meta þessa síendurteknu list ;).

Ég held að það sé gróflega vanmetið hversu mikils virði það er að hlúa að börnum og unglingum og útbúa einhverja aðstöðu og afdrep þar sem þau geta rasað út, það eru ekki allir krakkar sem hafa gaman af fótbolta eða skíðum, en myndu fegin vilja gera eitthvað annað.
Það er ótrúlega mikið af alls kyns jaðarsporti sem víðast hvar fær engan hljómgrunn nema fyrir bæjarstjórnarkosningar, þá vantar ekki kjaftavaðalinn og stóryrðin en svo gerist bara ekki neitt.
Svo er fólk steinhissa á að það brotni ein og ein rúða, það bölsóttast yfir ólátagemlingunum og er löngu búið að gleyma því að það sjálft hafi einu sinni verið barn sem kannski braut eina rúðu bara af því að það hafði ekkert fyrir stafni ;).

Og þá er komið að nútíðinni.
Við lukum við löndun 21 og fórum í framhaldinu í umbúða og vistatöku.
Reyna beið okkar á legunni og eftir múringu við hana var hafist handa við að hífa góssið yfir, því var ekki lokið fyrr en 0045 utc en þá dugguðum við af stað til veiða, klukkan þrjú var trollinu rúllað út og leit út fyrir að allt yrði í lukkunnar velstandi, en trolldræsan var varla komin út þegar höfuðmótorinn neitaði að taka þátt í að draga ferlíkið á eftir sér og upphófst þá löng og ströng þrautaganga í að mæða trolldræsuna um borð aftur, það hafðist klukkan 0600.
Höfuðmótorinn var settur í læsta hliðarlegu næstu tvær stundir á meðan sérfræðingar héðan og þaðan úr veröldinni reyndu að finna út hvað olli vandræðunum. Í ljós kom að það var farið prentbretti/kort í stjórnbúnaði aðalvélarinnar sem olli því að hún hélt að hún væri að ofgera sér og þyrfti nauðsynlega að taka því rólega um sinn. Vélagengið krukkaði eitthvað í þetta dót og svo var reynt aftur, nú gekk örlítið betur þótt ekki væri um full afköst að ræða.
Við náðum að dröslast með þetta svona eitt hol, Það var því ekkert að vanbúnaði að reyna aftur.
Nú var líka orðið ljóst að hvergi var hægt að fá þetta kort í nágrenninu, kortið er bara til í Norge og gæti verið komið til Íslands/Palmas á næsta mánudag.
Eftir 3 tíma tog ákvað vélin að nú væri komin tími á smá pásu og skellti sér samstundis í hvíldarstöðu, sló skrúfuskurðinn niður í 20% áfram sem dugði okkur til að halda 1sml toghraða.
Þetta var greinilega ekki að ganga upp svo það var ekki annað í stöðunni en kúpla neyðarkeyrslunni inn, en þá er fína Wartsilla kortakerfið óvirkt og framdrifi skipsins stjórnað með tveim tökkum. Þannig verður þetta keyrt þangað til Gyðingar norðursins verða búnir að senda okkur annað kort.

Læt þetta bull nægja í bili.
Vona að heillardísirnar verði með okkur öllum í baslinu....
mánudagur, janúar 19, 2009
 
..::Þegar ég tók Svenna til altaris:::.
Þá styttist í enn eina löndunina í Nouakchott, en í dag er síðast veiðidagurinn í þessari ferð.
Svo kemur löndun með öllum sínum plúsum og mínusum, oftast eru plúsarnir fleiri en mínusarnir en svo snýst þetta stundum við og maður verður þáttakandi í einhverjum harmleik þar sem fáfræði græðgi og spilling ræður ferðinni.
En þetta er allt partur af programmet og ekkert við því að segja, annað en að reyna að brosa gegn um tárin og vona það besta.

Maður hugsar oft til þeirra dásemdaaga sem maður heyrir af þegar skipin lönduðu á miðunum, engin her og ekkert vesen, bara plug and play!
Var virkilega allt svona gott í gamla daga?
Nema kannski að þá var allt í svarthvítu :):).
Annars held ég að manshugurinn eigi sinn þátt í að fegra fortíðina full mikið, ég er t.d alltaf að heyra sögur af því hvernig þetta var hérna einu sinni, alltaf mok veiði og skipin í vandræðum vegna aflans, samt segja tölurnar að veiðin hafi stigmagnast og aldrei verið meiri en á síðasta ári.
Já fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.

En þá að máli málanna:
Árið 2010 verða liðin 30 ár frá því að ég og bekkjarsystkin mín fermdumst í Guðhúsinu á Eskifirði, Davíð prestur framkvæmdi þá aðgerð og held ég að það hafi tekist bærilega þrátt fyrir allt og allt.
Það er nú farið að fenna yfir flest sem þessu tengdist í mínum huga þótt enn sitji nokkur skondin atvik eftir.
T.d er mér það minnisstætt þegar fermingarfræðslan fór fram, við áttum að leika einhvern helgileik og flestir krakkarnir voru komnir í sín hlutverk, ég og Svenni Guggu vorum tilbúnir inni í skrúðhúsinu og áttum að mig minnir að leika einhverja hirðingja.
Eitthvað tafðist uppstillingin hjá Davíð svo ég fór að skoða hvað hans há-æruverðugheit geymdi annað í skrúðhúsinu en hempuna, jú viti menn þarna geymdi hann messuvín í kassavís sem var alls ekki svo slæmt á bragðið, þar sem biðin var lengri en þolinmæði mín þá notuðum við tímann og tókum hvorn annan til altaris nokkrum sinnum félagarnir, svo kom kallið og við settum tappann í og stauluðumst fram eins og nýhreinsaðir hundar belgfullir af blóði Krists ;).
Á fermingar ári mínu var það var í tísku að vera í Cowboy stígvélum og enginn maður með mönnum nema vera í þessháttar skófatnaði, mamma hafði pantað á mig fermingarfötin upp úr Quell og passaði þetta allt sæmilega nema stígvélin þau voru full þröng þótt ég hafi varla staðið fram úr hnefa á þessum árum, kannski hefur mælingin eitthvað mislukkast hjá múttu eða ég stækkað meira en ráð var gert fyrir, hvað sem því líður þá fermdist ég í stígvélunum þótt þau væru of lítil, ég held barasta að við höfum allir fermst á stígvélum strákarnir.
Einn okkar tók þó öðrum fram í glæsileik er hann stautaði upp að altarinu með aðra buxnaskálmina gyrta ofaní stígvélið og hina utanyfir.

Mér finnst einhvernvegin komin tími til að við komum saman bekkjarsystkinin úr árgang 1967 á Eskifirði og gerum okkur dagamun, rifjum upp gömul prakarastrik og tengjum löngu slitin bönd.

Læt þetta mas duga í bili.
Bið þann sem öllu ræður og stjórnar að vera okkur innanhandar í hringiðu lífsins.
fimmtudagur, janúar 15, 2009
 
..::Þetta fer alltaf einhvernvegin::..
Víraslagurinn mikli tók enda eins og allt annað, á tímabilum sá maður ekki fram úr brasinu en einhvernvegin var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram, það voru ekki margir kostir í stöðunni, skera vírinn af stb spilinu og skipta vírnum af bb spilinu niður á bæði spilin, það var slæmur kostur því við hefðum ekki haft nægan vír fyrir annað eitthvað grunnslóðaskak.
Plan-B, ef allt færi á versta veg var að taka togvírana úr Geysi áður en hann færi í slipp á Las Palmas, það var rúmlega sólarhringsbið. Plús sigling , múring tími við töku á vírnum og sigling á miðin aftur.
það var því aldrei neitt annað í stöðunni en að halda áfram að hnoðast í þessu basli og gefast ekki upp, það nagaði mig mest allan tíman að ég væri kannski að gera tóma vitleysu, kannski væri þetta ekki hægt og þá væri ég búin að sóa dýrmætum tíma í tómt bull.
Strákarnir stóðu sig eins og hetjur í þessu og það verður aldrei sagt að þetta hafi verið auðvelt, en þetta hafðist fyrir rest. Við þurftum að klippa 250m innan úr vírnum til að ná þessum flækjum og heildar verktíminn endaði í 44klst.
20manns að berjast í þessu vakt eftir vakt, þeir voru þreyttir blessaðir englarnir þegar þetta var búið. Hjá mér tók þetta aðallega á taugarnar en það var ekki neitt annað í stöðunni en að halda áfram með nagandi óttann á bakinu :).

Eftir víraslaginn náðum við tveim veiðadögum fyrir Rússamannaskipti í Nouakchott , það gekk þokkalega að fiska þann tíma, svo var farið í mannaskiptin.
Mannaskiptin gengu fljótt og vel fyrir sig og ég hélt í einfeldni minni að nú væru allir mínir erfiðleikar að baki og ekkert nema brakandi vellukkan framundan, ef ég hafði haldið það þá voru það illa smíðaðar skýjaborgir í mínum hugarheimi og þær hrundu eins og spilaborg.

Eins og kerlingin orðaði þetta svo vel “ Adam var ekki lengi í París ;)“.
Nú var það næsta brekka og hún var ef eitthvað mun torfærari en vírabrekkan.
Það var sama hvar við reyndum annað hvort vorum við of seinir hittum ekki í fiskinn eða veiðarfærin flæktust saman og fóru óklár út.
Ég vissi ekki orðið mitt rjúkandi ráð og sá enga lausn, ofan á allt þá virðist sem annað trollið hafi hætt að fiska þegar skipt var um belg á því og það tók mig of langan tíma að átta mig á því meini.

Fiskiríið hefur verðir með eindæmum erfitt við að eiga, þetta hefur verið á smá blettum á stærð við tíeyring þar sem allir ætla að ná sama fiskinum, það endar auðvitað ekki með öðru en mætingum, erfiðleikum en ekki fiskirí, nánast vonlaust að komast þangað sem maður vill fara og oft á tíðum tóm vitleysa.

Á tímabili sá ég ekkert annað en svartnætti en sem betur fer stóð það stutt yfir og ég náði mér upp úr mesta volæðinu, þá fór aðeins að birta til í sálartetrinu og svo fór þetta að lagast ;).
Kannski ekki algott en skárra, það verður víst að taka þessa túra líka hversu vont sem það er nú er, maður verður að sætta sig við að sumu getur maður ekki breitt.

Að öðru leiti er ég bara skítsæmilegur, órakaður þrátt fyrir vinsamleg tilmæli einhverra um hvort ekki væri ráð að prufa að raka sig bara til að sjá hvort við hrykkjum ekki í stuð!
Svarið er einfalt, þótt það rigni eldi og brennisteini þá raka ég mig ekki í þessu úthaldi ;).

Mynd dagsins er af Siriusi, Guðbjartur Ásgeirsson stórskipstjóri á Beta1 tók myndina fyrir nokkrum dögum þegar við mættumst.

Bið svo Guð og alla hans fylgissveina að leiðbeina ykkur í lífsins ólgu sjó.
Og munið að þegar hlutirnir eru orðnir svo slæmir að þeir geta varla orðið verri, þá geta þeir ekkert annað en batnað ;);).
laugardagur, janúar 03, 2009
 
..::Nú þyrfti flækjubókina::..
Þá er gamla árið fokið út í buskann og enn eitt árið byrjað, ég segi eins og kerlingargarmurinn sem spurð var á síðustu metrunum hvort þetta hefði ekki verið lengi að líða, „ekki það sem liðið er“ og það er akkúrat þannig. Mér finnst eins og ég hafi komið um borð í gær en samt er ég búin að vera mánuð um borð. Gamlársdag Áramótunum og Nýársdag eyddum við í löndun svo það fór lítið fyrir hátíðarhöldum hjá okkur, ekki gat ég séð að Geitahirðarnir í Nouakchott hefðu verið að bruðla með peninga í flugeldakaup því þar kom ekki svo mikið sem púff þaðan. Við áttum aftur á móti stóran skammt af neyðarflugeldum og blysum en þegar á hólminn kom þá hafði ég ekki kjark til að puðra því upp, ég var að vísu búin að spyrja herinn hvort það væri í lagi og fá jákvætt svar, en svo varð einhvern vegin ekkert úr því, það bara sofnaði.
En ég get ekki sagt að nýja árið fagni okkur þótt þessi löndun hafi gengið stórslysalaust fyrir sig.
Í morgun ákvað stb togspilið að nú væri það búið að vera nógu lengi stopp, það laumast til að slaka svolítið í rólegheitunum fyrst engin sæi til, þegar menn svo loksins tóku eftir því hvað var í gangi var allt komið í eina heljarinnar flækju. Já það er ekki beint spennandi verkefni að vera með 2000m af 36mm stálmergsvír í einni eilífðarflækju, ég verð að játa að mér féllust algjörlega hendur þegar ég var kallaður á vettvang þessara leiðu atburða , en þetta er verkefni sem við erum að reyna að leysa og satt best að segja gengur það frekar stirðlega ennþá, þetta er ótrúleg vinna og ekki sú einfaldasta.
Við vonumst samt til að einhvertímann í framtíðinni ráðum náum við að greiða úr þessari flækju og sólin skíni aftur beint í trýnið á okkur.


Bið Guð almáttugan að leiða ykkur eftir krákustígum lífsins, þeir eru vandrataðir og hálir þessa síðustu og verstu daga, betra er að vera í fylgd kunnugra.

Söfn

01/26/2003 - 02/02/2003   02/02/2003 - 02/09/2003   02/09/2003 - 02/16/2003   02/16/2003 - 02/23/2003   02/23/2003 - 03/02/2003   03/02/2003 - 03/09/2003   03/09/2003 - 03/16/2003   03/16/2003 - 03/23/2003   03/23/2003 - 03/30/2003   03/30/2003 - 04/06/2003   04/06/2003 - 04/13/2003   04/13/2003 - 04/20/2003   04/20/2003 - 04/27/2003   04/27/2003 - 05/04/2003   05/04/2003 - 05/11/2003   05/11/2003 - 05/18/2003   05/18/2003 - 05/25/2003   06/08/2003 - 06/15/2003   06/15/2003 - 06/22/2003   06/22/2003 - 06/29/2003   06/29/2003 - 07/06/2003   07/06/2003 - 07/13/2003   07/13/2003 - 07/20/2003   07/20/2003 - 07/27/2003   07/27/2003 - 08/03/2003   08/03/2003 - 08/10/2003   08/10/2003 - 08/17/2003   08/17/2003 - 08/24/2003   08/24/2003 - 08/31/2003   08/31/2003 - 09/07/2003   09/07/2003 - 09/14/2003   09/14/2003 - 09/21/2003   09/21/2003 - 09/28/2003   09/28/2003 - 10/05/2003   10/12/2003 - 10/19/2003   10/19/2003 - 10/26/2003   10/26/2003 - 11/02/2003   11/02/2003 - 11/09/2003   11/09/2003 - 11/16/2003   11/16/2003 - 11/23/2003   11/23/2003 - 11/30/2003   11/30/2003 - 12/07/2003   12/07/2003 - 12/14/2003   12/14/2003 - 12/21/2003   12/21/2003 - 12/28/2003   12/28/2003 - 01/04/2004   01/04/2004 - 01/11/2004   01/11/2004 - 01/18/2004   01/18/2004 - 01/25/2004   01/25/2004 - 02/01/2004   02/01/2004 - 02/08/2004   02/08/2004 - 02/15/2004   02/15/2004 - 02/22/2004   02/22/2004 - 02/29/2004   02/29/2004 - 03/07/2004   03/07/2004 - 03/14/2004   03/14/2004 - 03/21/2004   03/21/2004 - 03/28/2004   03/28/2004 - 04/04/2004   04/04/2004 - 04/11/2004   04/11/2004 - 04/18/2004   04/18/2004 - 04/25/2004   04/25/2004 - 05/02/2004   05/02/2004 - 05/09/2004   05/09/2004 - 05/16/2004   05/16/2004 - 05/23/2004   05/23/2004 - 05/30/2004   05/30/2004 - 06/06/2004   06/06/2004 - 06/13/2004   06/13/2004 - 06/20/2004   06/27/2004 - 07/04/2004   07/04/2004 - 07/11/2004   07/11/2004 - 07/18/2004   07/18/2004 - 07/25/2004   07/25/2004 - 08/01/2004   08/01/2004 - 08/08/2004   08/08/2004 - 08/15/2004   08/15/2004 - 08/22/2004   08/22/2004 - 08/29/2004   08/29/2004 - 09/05/2004   09/05/2004 - 09/12/2004   09/12/2004 - 09/19/2004   09/19/2004 - 09/26/2004   09/26/2004 - 10/03/2004   10/03/2004 - 10/10/2004   10/10/2004 - 10/17/2004   10/31/2004 - 11/07/2004   11/21/2004 - 11/28/2004   12/05/2004 - 12/12/2004   12/12/2004 - 12/19/2004   12/19/2004 - 12/26/2004   12/26/2004 - 01/02/2005   01/02/2005 - 01/09/2005   03/13/2005 - 03/20/2005   04/03/2005 - 04/10/2005   07/03/2005 - 07/10/2005   07/10/2005 - 07/17/2005   07/17/2005 - 07/24/2005   07/24/2005 - 07/31/2005   08/07/2005 - 08/14/2005   08/14/2005 - 08/21/2005   10/02/2005 - 10/09/2005   10/09/2005 - 10/16/2005   10/16/2005 - 10/23/2005   10/23/2005 - 10/30/2005   10/30/2005 - 11/06/2005   11/06/2005 - 11/13/2005   11/13/2005 - 11/20/2005   11/20/2005 - 11/27/2005   11/27/2005 - 12/04/2005   12/11/2005 - 12/18/2005   12/18/2005 - 12/25/2005   12/25/2005 - 01/01/2006   01/01/2006 - 01/08/2006   01/08/2006 - 01/15/2006   01/15/2006 - 01/22/2006   01/22/2006 - 01/29/2006   04/16/2006 - 04/23/2006   04/30/2006 - 05/07/2006   05/07/2006 - 05/14/2006   05/14/2006 - 05/21/2006   05/21/2006 - 05/28/2006   07/23/2006 - 07/30/2006   07/30/2006 - 08/06/2006   08/06/2006 - 08/13/2006   08/13/2006 - 08/20/2006   08/20/2006 - 08/27/2006   08/27/2006 - 09/03/2006   12/03/2006 - 12/10/2006   12/10/2006 - 12/17/2006   12/17/2006 - 12/24/2006   12/24/2006 - 12/31/2006   12/31/2006 - 01/07/2007   01/07/2007 - 01/14/2007   01/14/2007 - 01/21/2007   01/21/2007 - 01/28/2007   01/28/2007 - 02/04/2007   02/04/2007 - 02/11/2007   02/11/2007 - 02/18/2007   02/18/2007 - 02/25/2007   02/25/2007 - 03/04/2007   03/04/2007 - 03/11/2007   03/11/2007 - 03/18/2007   03/25/2007 - 04/01/2007   04/01/2007 - 04/08/2007   04/08/2007 - 04/15/2007   04/15/2007 - 04/22/2007   04/22/2007 - 04/29/2007   04/29/2007 - 05/06/2007   05/06/2007 - 05/13/2007   05/13/2007 - 05/20/2007   05/20/2007 - 05/27/2007   06/03/2007 - 06/10/2007   06/24/2007 - 07/01/2007   07/01/2007 - 07/08/2007   07/22/2007 - 07/29/2007   07/29/2007 - 08/05/2007   08/12/2007 - 08/19/2007   08/26/2007 - 09/02/2007   09/02/2007 - 09/09/2007   10/28/2007 - 11/04/2007   11/04/2007 - 11/11/2007   11/11/2007 - 11/18/2007   11/18/2007 - 11/25/2007   11/25/2007 - 12/02/2007   12/09/2007 - 12/16/2007   12/16/2007 - 12/23/2007   12/23/2007 - 12/30/2007   01/06/2008 - 01/13/2008   01/13/2008 - 01/20/2008   02/03/2008 - 02/10/2008   02/10/2008 - 02/17/2008   02/17/2008 - 02/24/2008   02/24/2008 - 03/02/2008   03/02/2008 - 03/09/2008   03/09/2008 - 03/16/2008   03/16/2008 - 03/23/2008   03/23/2008 - 03/30/2008   03/30/2008 - 04/06/2008   04/13/2008 - 04/20/2008   04/20/2008 - 04/27/2008   04/27/2008 - 05/04/2008   05/04/2008 - 05/11/2008   05/11/2008 - 05/18/2008   05/25/2008 - 06/01/2008   06/01/2008 - 06/08/2008   06/08/2008 - 06/15/2008   06/15/2008 - 06/22/2008   06/22/2008 - 06/29/2008   06/29/2008 - 07/06/2008   07/06/2008 - 07/13/2008   07/13/2008 - 07/20/2008   07/20/2008 - 07/27/2008   09/07/2008 - 09/14/2008   09/28/2008 - 10/05/2008   10/05/2008 - 10/12/2008   10/12/2008 - 10/19/2008   10/19/2008 - 10/26/2008   10/26/2008 - 11/02/2008   11/02/2008 - 11/09/2008   11/16/2008 - 11/23/2008   11/23/2008 - 11/30/2008   11/30/2008 - 12/07/2008   12/14/2008 - 12/21/2008   12/21/2008 - 12/28/2008   12/28/2008 - 01/04/2009   01/11/2009 - 01/18/2009   01/18/2009 - 01/25/2009   01/25/2009 - 02/01/2009   04/12/2009 - 04/19/2009   04/19/2009 - 04/26/2009   08/21/2011 - 08/28/2011   01/01/2017 - 01/08/2017  

This page is powered by Blogger. Isn't yours?