10. jan. 2004


..::Ekki orð um það meir::..

Um miðjan dag í gær var orðið spænuvitlaust veður, druslan hvíldi sig inni á dekki til klukkan tvö í dag en þá var orðið slarkfært. Og þar fauk einn sólarhringurinn frá veiðum í viðbót, þetta ætlar að verða ansi ódrjúg veiðiferð, en það þarf ekki að fjölyrða meir um það.

Kokkræfillinn stóð í ströngu í gærkvöldi en hinir ýmsu hlutir fengu vængi og flugu stefnulaust um borðsalinn og eldhúsið, yfirleitt enduðu þessar flugferðir með brotlendingu viðkomandi hlutar. Það sem var úr brothættum efnum þoldi yfirleitt ekki árekstra við veggi eða gólf, það fór í mask og innihaldið slettist á vígvöllinn. Þar blönduðust saman sultutau sykur sojasósa tómatsósa krydd glermulningur djús mjólk ostur egg og hver veit hvað. Kokkræfillinn átti í fullu fangi við að halda aftur af þeim búnaði sem sveikst um að fá loftferðarleyfi og geystist um flugumferðarsvæði kokksins í trássi við þau flugumferðarlög sem hann setti. En á endanum náði hann stjórn á hlutunum og situr nú sem kóngur í flugumferðarríki sínu sæll og ánægður yfir þeim árangri að vera búin að koma skikki á hlutina.

Við hinir héldum okkur fjarri vígvellinum og reyndum að bíta okkur fasta í næsta fasta hlut og vera þar.

Svo mörg voru þau orð.

Guð almáttugur vermdi ykkur öll frá villu saurlífi og ljótum hugsunum. Munið eftir bænunum ykkar og þeim sem minna mega sín.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi