..::Gengið á hafinu::..
Þetta er ósköp andlaust hérna hjá okkur á leiðinni niðurúr eins og einhver orðaði það.
Dekkenglarnir tóku veiðarfærið og gegnumlýstu það frá a-ö í dag, það ku vera í besta standi eftir yfirhalið svo ekki verður hægt að kenna því um ef illa gengur :).
Rækjuflokkunarmaskínurnar voru að renna saman en það er verið að leggja lokahönd á þann verkþátt í dag og ég tel að því sé lokið í þessum töluðu orðum.
Fátæklegar fréttir bárust mér af hattinum, Hrafn arftaki minn á Dollunni(Erlu) orðaði þetta svona í fréttaskeyti sem hann sendi mér í morgun "ekki er hægt að segja að við séum að kafna úr afla! Ef maður reinir að fá rækju sem telst undir 300stk/kg þá fær maður lítið".
Við mættum Atlas í gærkvöldi en Jói Gunn var á heimleið með bilað togspil, hann var ekkert frekar á bjartsýnisbrókunum en Hrafn, tjáði mér að hann hefði fengið algjört hnerriduft á norðausturhorni hattþúfunnar og orðið svo um að hann keyrði í fjórar klst til að komast sem lengst frá óþverranum áður en kastað var aftur :(, já það geislar ekki af þeim félögum bjartsýnin þessa dagana, enda kannski ekki von miðað við allt sem á undan hefur gengið hjá þeim.
Ég hef aftur á móti reint að leiða þetta svartsýnisraus hjá mér og eyði umframorkunni á nýja hlaupabrettinu sem útgerðin keypti í viðgerðarstoppinu, ca 4km á dag hafa legið það sem af er ferðinni, sjálfsagt þykir íþróttaálfunum þetta ekki merkilegt gönguafrek, en fyrir þá sem hreyfa sig takmarkað þá eru þetta jú spor í rétta átt. Maður getur starað á hafflötinn út um brúargluggana meðan maður arkar í sömu sporunum á beltinu, sjálfsagt eitthvað svipuð tilfinning og hjá Jesú þegar hann gafst upp á netunum um árið og arkaði í land ;) nema maður er sjálfsagt örlítið mæðulegri á brettinu :).
Jamm svona gengur þetta fyrir sig hjá okkur :).
Það er orðið langt síðan við höfum fengið eitthvað á skemmtilegurnar, en svo heppilega vildi til að í blaðapokanum frá foreldrum mínum leindist eitt brandarablað, það hefur að geima nokkra góða sem mér finnst tilvalið að leifa ykkur að njóta:
Skotinn var foxillur við gjaldkerann sem hafði gefið honum 10kr of lítið til baka og lét hann óspart heyra það.
"Já en um daginn, þá gaf ég þér 5kr of mikið til baka og þá sagðirðu ekki neitt," sagði gjaldkerinn sér til varnar.
"Maður getur fyrirgefið mistök einu sinni, en þegar þau fara að endurtaka sig.................................
Tveir Skotar voru á kvöldgöngu og komu að vatni. Þeir stönsuðu, horfðu út yfir vatnið um stund. Þá sagði annar:
-Hvernig skyldi nú svona vatn hafa myndast?
Hinn svaraði um hæl:
-Það hefur einhver tínt penníi og farið að grafa.
Hættur að pikka í dag.

Bið og vona að Guðs útvöldu englar fylgi ykkur hvert fótmál..

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi