..::Verður ekki bara að virkja?::..
Vaknaði klukkan þrjú í nótt, og var allur að drepast, beinverkir hausverkur og allur pakkinn, sprangaði fram í eldhús og bruddi í mig einhverjar verkjatöflur svo aftur í bælið.
Ekki vildi svefninn þýðast mig og svo var ég með þvílíkt nefrennsli að það hefði mátt sleppa Kárahnjúkavirkjun og bjarga eyjabökkum hehe, það hefði verið nóg að tengja túrbínurnar beint á nasirnar á mér, ég hef fulla trú á að Alcoa hefði getað sett af stað geimferðaáætlun því orkan sem hefði orðið til hefði nægt til að skjóta fína álverinu við Sómastaði út í geim. En það var hvorki virkjað né sett af stað geimferðaáætlun austur á fjörðum, ég varð bara að taka á móti flóðbylgjunni með eldhúspappír, og djö.. getur þetta verið pirrandi, ég gafst fljótlega upp og druslaðist á lappir.
Það var ekki margt að gera í stöðunni svo að ég settist við tölvuna og fór að brasa eitthvað, milli þess sem ég reyndi að taka á móti mestu holskeflunum. Ég var að brasa við að gera hreyfimyndir sem ég setti svo á síðuna, það var jú komin tími á uppfærslu á myndunum enda var þetta búið að vera eins frá því sautjánhundruð og súrkál.
Frúin reif sig svo á fætur fyrir alar aldir þvílíkt duglega, skúra skrúbba og bóna og það var allur pakkinn tekinn, forstofan tæmt gólf og veggir þrifnir, svo var stofan tekin.
Mér var farið að líða eins og viðundri, nuddaðist ég um sjúgandi upp í nefið engum til gagns, komin í flíspeysu og peysu yfir sem Helga prjónaði á mig fyrir mörgum árum, og svo ullarsokka, ég var kannski meira eins og skreppur seyðakarl frekar en viðundur.
Svona þvældist ég fyrir frúnni fram á miðjan dag, en þá læddist ég inn í herbergið hennar Hjördísar og sveif inn í draumalandið dulitla stund. Þegar ég vaknaði aftur þá var frúin að BAKA, ég veit ekki hvar hún fær alla þessa orku??, maður hlýtur að vera svakalega vel giftur hehe, en það er ekki að sjá að það sé gagnkvæmt, ómagi á framfæri konunnar.
En hvað sem því líður þá trúi ég ekki öðru en að það rætist úr mínum málum fljótlega, maður verður jú að trúa því að maður fljóti áfram :).

Og það er orðið hrikalega langt síðan ég hef sett inn einhverja brandara en það dettur alltaf inn einn og einn, Jón vinur minn sendi mér einn í gær sem mig langar að deila með ykkur, hér kemur hann:

Bimba vaknaði um miðja nótt og áttaði sig á því að eiginmaðurinn var ekki í rúminu. Hún smeygði sér í náttkjólinn og fór niður. Sat þá ekki maðurinn við eldhúsborðið og húkti yfir ísköldum kaffibolla.
Hann virtist annars hugar og starði tómeygður á vegginn.
Bimba sá hann þurrka tár af kinnunum og súpa á kaffinu.
- "Hvað er að ástin mín?
Af hverju siturðu hér einn um miðja nótt, spurði hún.
Addi leit upp og sagði:
"Manstu þegar við vorum að hittast á laun fyrir 20 árum, aðeins 16 ára gömul.
" - "Já, ég man vel eftir því," sagði Bimba. -
"Manstu þegar pabbi þinn kom að okkur þar sem við vorum að elskast í aftursætinu í bílnum mínum?" -
"Já, ég man líka vel eftir því." -
"Manstu þegar pabbi þinn dró upp byssuna, beindi henni að höfðinu á mér og sagði:
Annað hvort giftistu dóttur minni eða verður næstu 20 árin í fangelsi." –
"Já, ég man vel eftir þessu elskan mín," sagði Bimba og settist við hlið eiginmannsins.

Hann þurrkaði tár af hvörmunum og sagði: "Veistu... ég hefði losnað út í dag!"

Hér er ein af hreyfimyndunum sem ég var að leika mér að úrbúa :):)(Click)

Læt þetta duga í bili, og munið að það er alltaf ljósglæta einhverstaðar....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi