21 Nóvember.
Komum í höfn klukkan 06:00, landað klukkan 9 og var búið að ísa og ganga frá klukkan 13:00, þá beið bíll á bryggjunni sem skutlaði okkur á Akureyri.
Nú verður tekið 48klst frí og fá karlarnir að blása fram á þriðjudagseftirmiðdag.

20 nóvember.
Verið að snudda á svipuðu, ásamt Sjöfn, Svaninum , Klakknum og Víði, rjátl veiði.
Seint í kvöld var trollið hysjað inn og haldið til Raufarhafnar.

19 nóvember.
Verið á svipuðu í nótt, drullubræla en smá rjátl, Sjöfn er komin hérna til okkar.
Í dag þegar við vorum að taka trollið flæktist leiðarinn á grandaraspilinu og klipptist í sundur, það tók dulitla stund að redda því en allt kom þetta með kalda vatninu.

18 nóvember
Verið á Rifsbankanum, norðan norðvestan skítabræla og lítið fiskirí.

17 nóvember.
Komin kaldafíla í nótt svo við renndum okkur inn á Rauf og hentum þessum fáu körum upp sem komin voru.
Aftur út á hádegi og haldið norður á Rifsbanka.
Kastað norðaustan við Kjölsen í kvöld og dregið norður.

16 nóvember.
Hásetinn frá Fáskrúðsfirði kom með fiskbílnum klukkan 02:00 og var þá sleppt og haldið út á Rifsbanka.
Smá basl með pokann á nýja trollinu fyrsta holið en því var reddað snarlega :).
Einnig var skverin í trollinu full mikill svo við lengdum grandarana og virtist það vinna betur við þá breytingu.

15 nóvember.
Fórum í nýja trollið i morgun og komum því á lengjuna og gerðum klárt.
Tókum kost og biðum svo eftir olíusíum og mannskap fram á kvöld.
Kipptum trollinu um borð rétt fyrir miðnætti.

14 nóvember.
Landað þessu fáu kvikindum eftir hádegi í skítaveðri og ofankomu, tekin olía ís og kör en ákveðið að bíða með nýja trollið til fyrramáls.

13 nóvember.
Rólegt á Digranesflakinu, tókum tvö höl og kipptum svo áfram norður, kastað norð austur úr Langanesi og tekin tvö höl, lélegt fiskirí.
Druslan tekin inn og haldið til Raufarhafnar, komum þar í höfn klukkan 22:00.

12 nóvember.
Komnir suður í Norðfjarðardýpi, en kl 05 í morgun var komin norðvestan ruddabræla og trollið tekið inn. Eftir veðurspá morgunsins var ákveðið að malla af stað norður á bóginn.
Eftir kvöldmat fór að lægja og köstuðum við sunnan í Digranesflaki.

11 nóvember.
Verið norðan í tangarflaki í nótt, frekar rólegt hjá okkur, sennilega er þetta barbí dót há okkur full létt fyrir þessa togaraslóð.
Hrúguðum öllum keðjuafgöngum sem til voru um borð á lengjuna seinnipartinn.
Það skánaði aðeins fiskiríið við þyngdina .

10 nóvember.
Verið í skápnum í nótt, veiði döpur, um hádegi var aftur komin bræla nú suðaustan og trollið var tekið inn og beðið átekta.
Um miðjan dag linti látunum aðeins svo við kipptum út á Tangarflak og köstuðum þar um kvöldið.

9 nóvember.
Ferkar rólegt í hallinu í nótt og drógum við bara áfram norðaustur, yfir Litladýpi og út á Gerpisflak, alltaf frekar rólegt yfir veiðinni.
Um hádegi var komin norðvestan bræla og var trollið tekið inn og damlað af stað í átt að landi, það ferðalag tók allan daginn, um kvöldið þegar við náðum inn í mynni Seyðisfjarðar datt veðrið niður, við kipptum þá norður á Gletting og köstuðum það í 6sml hólfinu.

8 nóvember.
Lítill afli við höfðann í nótt, svo druslan var hysjuð upp á rassgatið og haldið áfram austur. Mikið hringt í allar áttir út af reglugerð um smáfiskiskiljuna, ekki virðast allit vera með þá reglugerð á hreinu með hvort síðubátarnir megi vera með leggglugga á pokanum, flestir nota þann útbúnað í stað skilju en þegar maður biður um eitthvað skjalfest þá verður fátt um svör og vísar hver á annan. En í ráðuneytinu og hjá gæslunni er þetta skýrt, legggluggareglugerðin sem veitti síðubátunum undanþágu fyrir notkun skiljunnar er löngu fallin úr gildi.
Fyrir hádegi hringdi svo gæslan og sagði að það yrði gefin út ný undanþága fljótlega, og það gekk eftir um hádegi spýtti Navtexið út úr sér nýrri reglugerð :), við Jobbi fórum þá í að rífa skiljuna undan og útbúa leggglugga á pokann, það varð allt að vera eftir bókinni og tók smá tíma að mæla allt út og skera til áður en fíneríið fór í.
Köstuðum austur í Hvalbakshalli seint í kvöld.

7 nóvember.
Úlala hellings veltingur á okkur í nótt og hægur gangur á þessu, en hægði er leið á daginn.
Köstuðum í kvöld við Ingólfshöfða, hér eru nokkrir 26metra bátar en þeir mega fara ofar en við eða upp á 3sml.
Veður ágætt í kvöld en lítið útlit á vinning í fiskilottóinu.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi