
..::Ég fer í fríið ;)::.. Höfum legið hérna inni á legunni rembst við að landa, það er best að fara ekki mörgum orðum um það verk, en það er morgunljóst að hér falla engin Afríkumet í löndunarhraða :). En veðrið hefur verið eins og best er á kosið, brakandi blíða með logni og tilheyrandi skemmtilegheitum, ég notaði tækifærið og smellti léttbátnum út, svo flengdist ég á honum fram og aftur um spegilsléttan hafflötinn dágóða stund. Skrapp aðeins yfir í Geysi sem var hérna inni að landa fiskiméli, aumingja Júlíus var ekki mikið fyrir kött að sjá og greinilegt að hann hafði ekki átt sjö dagana sæla, mér fanst eins og ræfillinn væri bara að drepast en þeir vilja meina að stólpípurnar hafi gert honum gott og hann sé allur að braggast, hann er líka komin í einhverja lyfjameðferð svo það er ennþá von. Eftir Geysisheimsóknina brunaði ég heim á leið en stoppaði örstutta stund hjá Máritönskum fiskimönnum sem voru að draga net hérna á legunni, tæknin var ekki að flækjast fyrir þeim blessuðum, allt...