Færslur

Sýnir færslur frá mars 23, 2003
Drullubræla það er orð dagsins, en það er búið að vera kolvitlaust veður hjá okkur í allan dag 20-27m/s frá því í morgun, það er helst núna um kvöldmatarleitið sem eitthvað er farið að dúra á þetta. Ekki vildi ég vera kokkur á svona veltikollu, það hlýtur að vera hrikalega slítandi að reina að halda öllu í skorðum í eldhúsinu og elda mat í svona velting. Við höfum lítið gert annað en að halda okkur í dag, með kjafti og klóm ;). Það var ansi blautt á frænda á dekkinu í dag, en hann stendur sig eins og hetja þarna úti með þeim félögum og kvartar lítið. Það er búið að vera bölvað ísböggl á skipunum sem hafa verið að koma úr landi og fara út frá Nufy, svo ég reikna með að við pjökkum af stað aðfarnótt mánudags og gefum okkur góðan tíma í þetta ferðalag, ekki veitir víst af tímanum, svo verður líklega einhver vestanfíla í nefið á dollunni ef kortið gengur eftir. En það hlýtur að styttast í vorið og góða veðrið. Þetta verður allt og sumt í dag. Guð veri með ykkur.
Ofurvélstjórinn okkar muldi kyndararæfilinn af stað í gærkvöldi, ekki veit ég hvaða galdraþulur hann hefur farið með yfir kyndingunni því að það voru allir búnir að dæma hana úr leik. Við komum á hattinn í morgun, og köstuðum rétt hjá skipunum kl 05:00 í morgun, en ekki átti það að liggja fyrir okkur að hitta í rækju í dag, því að þegar ég kom upp í morgun vorum við komnir langt norður fyrir skipin, og tók okkur allan daginn að draga til þeirra aftur. Á meðan við vorum að gaufast til þeirra þá voru þeir að mokfiska ;(. En svona er þetta bara og ekkert við þessu að gera. Það er ekki hátt á manni risið eftir þennan daginn, en það verður að taka þessa daga líka eins og kerlingin sagði. Á morgun spáir svo einverjum kalda á okkur svo að það verður sjálfsagt einhver skælingur á þessu á morgun. Læt þetta nægja í dag. Gangið á Guðsvegum................................
Ís, þoka og blíðviðri þannig mætti þessi dagurinn okkur á Erlunni, við erum enn á Nafo svæði 3L en ætlum að færa okkur yfir á Flæmska í kvöld. Það er búið að vera reytingur í dag og gær svo að brúnin er aðeins léttari á mannskapnum. Það var tekin ákvörðun um að fresta landtöku okkar á Nýfundnalandi um tvo daga, svo við verðum ekki inni fyrr en á miðvikudag, þetta ver eitthvað út af varahlutasendingum frá Íslandi en þeir berast víst ekki fyrr en á fimmtudag. Þetta breytti litlu fyrir okkur, gefur okkur bara aðeins meiri tíma til að reina að ná önglinum úr borunni á mér. Miðstöðvarketilinn sagði upp störfum í gærkvöldi og tortímdi brennaranum svo illa að ég efast um að kraftaverkavélstjórinn okkar nái lífi í kyndinguna aftur ;(, en það þíðir nú lítið að væla yfir því og ekkert annað að gera en að taka fram kuldagallan og vera í honum ;), ég sé að þetta er miklu betra, maður var alltaf að drepast ofan í klofið á sér ef maður kíkti út þegar trollið var tekið, en eftir að maður fór að ve...
Komum á nýja svæðið rétt fyrir hádegi í morgun, veðrið var og er alveg yndislegt blankalogn og það má spegla sig í haffletinum. Það er á svona dögum sem það mætti skilja hvers vegna menn leggja það á sig að gerast sjómenn, en því miður eru ekki allir dagar á sjónum svona, en einhverra hluta vegna þá er maður alltaf fljótur að gleyma brælunum og brasinu, og þegar horft er um öxl þá sér maður aðallega gott veður og gott fiskirí, hitt er ekki svo merkilegt að það borgi sig að vera eiða geymsluplássi á harða disknum undir það ;). Það er íshrafl rétt vestan við okkur og það gerir það að verkum að hafflöturinn er mun sléttari en búast hefði mátt við fleiri hundruð mílur úti í hafi. Það var viðtal við einhvern speking frá Kanadísku strandgæslunni áðan í útvarpinu, og sagði hann að núna væri mesti ís sem verið hefði við Nýfundnaland undanfarin 15-20 ár. En það er ekki verra austan á Nýfundnalandi en undanfarin ár, þetta liggur aðallega í miklum ís vestan og norðan við. Við megum samt eiga v...
Logn blíða og hæð yfir þúfunni, og eftir veðurkortinu þá ætti það að haldast fram yfir miðnætti á morgun en lengra nær spáin ekki ;). Gærdagurinn var skásti dagurinn síðan við komum á hattinn en það bilaði ekkert stórt í gær og við gátum varið að veiðum allan síðasta sólarhring. Ekki skemmdi það að veiðin var ágæt á okkar mælikvarða. Aftur á móti hefur veiðin í dag verið lök en veðrið því betra. Í kvöld ætlum við svo að sigla yfir á annað svæði og reina að taka kvótann sem við eigum þar, ef við gerum það ekki þá lokast hann inni í þrjá mánuði, en það svæði lokast 31mars og er lokað í þrjá mánuði. Andvari hefur verið að skrattast hérna með okkur í austurkantinum, og get ég ekki séð annað en að það sé þó nokkuð af rækju á ferðinni hérna á hattinum það okkur vantar bara almennilegt skip til að geta tekið á þessu af einhverju viti ;). Við erum bara eins og léttabátur innan um öll þessi stóru skip, en það eru 4 svona lítil skip á hattinum núna Andvari, Erla, Eyborg og Sonar en hitt eru ...
Eitthvað heilsaði þessi dagurinn okkur vel, en aldrei þessu vant þá var blíðuveður í morgun og sól þegar leið á daginn. Við erum að basla í austurkanti með Andvara og er veiðin svona la la. Höfðingjarnir á Andvara lánuðu okkur gamla höfuðlínustykkið sitt svo að núna erum við ekki blindir á trollinu lengur ;). Maður þorir varla að minnast á það nema voða lágt, “en það hefur ekkert bilað hjá okkur í dag ;)”. En ég vona að þetta snúist ekki í höndunum á okkur og endi í einhverju basli. Maður veit eiginlega ekki hvernig maður á að sér að vera maður er svo vanur orðin baslinu og vandræðunum, en vonandi erum við farnir að uppskera eftir allt erfiðið ;). Annars hafa það allir gott, rafvirkinn sat frammi í borðsal áðan og spjallaði svo að hann er að hressast. En mikið rosalega er hann samt druslulegur karlanginn hann var nú ekki á barnskónum fyrir en núna lítur hann út fyrir að vera tuttugu árum eldri. Við fengum uppgefin löndunarstaðin í dag og er það Bay Roberts, við vorum að vona að ...
Loksins komst Hannes yfir í Arnarborgu en hann yfirgaf okkur í gærkvöldi og er hans sárt saknað, hann var á fullu í rafmagnsviðgerðum fram á síðustu stundu. Þegar Hannes var farin þá hífðum við trollið en þegar lengjan var rétt komin inn þurfti að drepa á vélinni og urðum við að tuttla belginn inn á auto dælunni. Vélstjórarnir voru svo að brasa í vélinni í alla nótt, og komst trollið ekki aftur í sjóinn fyrr en níu í morgun. Það var þokkalegt veður í morgun og kom Borgin með einn áhafnarmeðlim handa okkur úr landi og sótti pakka sem við komum með fyrir þá frá Íslandi. Fljótlega eftir að sá nýi kom fór að hvessa , um kaffileitið hífðum við svo trollið og þá flaut bölvaður pokinn upp og var aflinn nánast ekkert nema smákarfi arrg. En við því var litið að gera og eftir smá kipp var kastað aftur, enn hvessti og um fimmleitið var veðurhæðin komin upp í 25 m/s og vaxandi sjór. Já þetta ætlar ekki að verða endasleppt með veðrið, við höfum ekki náð einum heilum degi með góðu veðri síðan við ...