Komum á nýja svæðið rétt fyrir hádegi í morgun, veðrið var og er alveg yndislegt blankalogn og það má spegla sig í haffletinum. Það er á svona dögum sem það mætti skilja hvers vegna menn leggja það á sig að gerast sjómenn, en því miður eru ekki allir dagar á sjónum svona, en einhverra hluta vegna þá er maður alltaf fljótur að gleyma brælunum og brasinu, og þegar horft er um öxl þá sér maður aðallega gott veður og gott fiskirí, hitt er ekki svo merkilegt að það borgi sig að vera eiða geymsluplássi á harða disknum undir það ;).
Það er íshrafl rétt vestan við okkur og það gerir það að verkum að hafflöturinn er mun sléttari en búast hefði mátt við fleiri hundruð mílur úti í hafi.
Það var viðtal við einhvern speking frá Kanadísku strandgæslunni áðan í útvarpinu, og sagði hann að núna væri mesti ís sem verið hefði við Nýfundnaland undanfarin 15-20 ár. En það er ekki verra austan á Nýfundnalandi en undanfarin ár, þetta liggur aðallega í miklum ís vestan og norðan við. Við megum samt eiga von á einhverju pjakki á landleiðinni.
Veiðin í dag hefur verið í lagi, og það er líka fínasta veiði úti á hatti, flestir þar eru sjálfsagt fegnir góða veðrinu, enda er nánast búnar að vera sleitulausar brælur þar síðan um áramót.
Ekki veit ég hvernig veðrið verður á morgun því að ég hef sýnt vítavert kæruleysi og ekki tekið kort í dag en ég verð að bæta úr því á eftir.
Læt þetta nægja í dag.
Gangið á Guðs vegum.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi