..::Ég fer í fríið ;)::..
Höfum legið hérna inni á legunni rembst við að landa, það er best að fara ekki mörgum orðum um það verk, en það er morgunljóst að hér falla engin Afríkumet í löndunarhraða :).

En veðrið hefur verið eins og best er á kosið, brakandi blíða með logni og tilheyrandi skemmtilegheitum, ég notaði tækifærið og smellti léttbátnum út, svo flengdist ég á honum fram og aftur um spegilsléttan hafflötinn dágóða stund.

Skrapp aðeins yfir í Geysi sem var hérna inni að landa fiskiméli, aumingja Júlíus var ekki mikið fyrir kött að sjá og greinilegt að hann hafði ekki átt sjö dagana sæla, mér fanst eins og ræfillinn væri bara að drepast en þeir vilja meina að stólpípurnar hafi gert honum gott og hann sé allur að braggast, hann er líka komin í einhverja lyfjameðferð svo það er ennþá von.
Eftir Geysisheimsóknina brunaði ég heim á leið en stoppaði örstutta stund hjá Máritönskum fiskimönnum sem voru að draga net hérna á legunni, tæknin var ekki að flækjast fyrir þeim blessuðum, allt dregið á höndum og netadruslurnar samansúrraðar eins og tógspotti fullar af skít og drullu, ekki öfundaði blessaða englana af því að hreinsa og greiða þessar netadruslur, en þeir brostu bara og sýndu mér nokkra kuðunga og sæbjúgu sem þvælst höfðu í netin, já það þurfti ekki meira til að gleðja þessa menn.

Í kvöld eigum við svo von á flokk manna í næturgistingu, nokkrir af þeim sem eru að fara í frí með okkur og ætla að gista hjá okkur í nótt.
Við förum inn til Nouadhibou í fyrramálið og fljúgum þaðan upp til Las Palmas, fríið er að bresta á ;).

Mynd dagsins tók ég í dag, er hún af stefni á skipi sem keyrt var niður hérna á legunni á síðasta ári, skipið hét Navigator og var búið að liggja hérna lengi allt í niðurníðslu, það voru fimm menn um borð og björguðust þeir allir.

Læt þetta duga í bili, og bið Guð og gæfuna að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niðurkomin.........

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi