5 desember.
Guðný var að baka jólakökur þegar ég drattaðist fram úr í morgun svo að maður mætti beint í veisluna hehe, annars tók ég daginn með stóískri ró og lét ekkert setja mig úr þessu hæglætisjafnvægi sem mig einkenndi í dag..............

4 desember.
Byrjaði daginn í heilun í Bjarmanum en svo var það föndurdagurinn í skólanum, þar föndruðum við Guðný lítinn engil og tókst mér að klúðra á honum andlitinu, ekki einu sinni ekki tvisvar heldur þrisvar, og verður að segjast að enn ber þessi ræfilsengill þess merki að mér var falið að festa á hann andlit.

3 desember.
Var að stússa í bátnum í dag ásamt Snæbirni og vélstjóranum, höfuðlínustykkið mætti úr viðgerðinni og einnig var unnið í blökkinni.
Haddó sótti mig eftir hádegið og skutlaði mér í búð þar sem ég fjárfesti í flísasög, svo fengum við systkinin okkur að borða áður en ég fór aftur um borð.
Ómar Júlla kom svo um borð og skutlaði mér út á Reykjvíkurflugvöll, ég fer í fríið!!!
Fyrir norðan tók ég svo súbbann hans kalla á vellinum og brunaði heim á honum, Óli var pikkaður upp á vistinni og svo var lagt í hann.

2 desember.
Komum í höfn í Reykjavík klukkan 11:00 og var drifið í að henda aflanum upp og kara, síðan var fært á miðbakkann. Helgi kom og sótti höfuðlínustykkið og menn komu til að lagfæra nótablökkina sem við notum til að hífa rússann á.
Gamla kassatrollinu var slegið undan og það hífað upp á bryggju ásamt smáfiskiskyljunni.
Strákarnir fóru svo allir heim seinnipartinn, en það er búið að gefa út frí fram á sunnudag.
Lallaði til Haddó og Gunna í kvöld og fékk að flatmaga aðeins í baðkarinu þeirra ;).

1 desember.
Legið í aðgerð í nótt, klukkan 07:00 var búið að fylla í allar dollur og þá var sett á fulla ferð áleiðis til Reykjavíkur.
Blíðuveður í dag og ágætið leiði en með kvöldinu fór að hvessa af suðaustri.

30 nóvember.
Ekki var þessi kippurinn ferð til fjár, hér hefur aldrei skitið fiskur, kipptum aftur út í dag og köstuðum þar í kvöld, ágætis nudd í Ufsa frekar stuttum.
Um miðnættið hífðum við ágætishol sem leit út fyrir að duga til að fylla í dósina.

29 nóvember.
Kastað í Reykjafjarðarál í nótt og dregið út kantinn, rólegt yfir veiðinni en rétt tegund, þessi sem slapp úr höndum skrattans um árið :).
Seinnipartinn vorum við að skrattast úti á Hornbanka og var þokkalegt rag en leiðinda bræla og erfitt að eiga við þetta.
Kipptum upp í Reykjafjarðarál í kvöld.

28 nóvember.
Byrjuðum að landa klukkan 08:00, á fyrsta kari vildi ekki betur til en að ég fékk karakrókana á svífandi sveiflu í höfuðið, og var ekki með hjálm, nokkrar litlar kúlur og ein STÓR prýddu ennið á mér eftir það, en ég slapp nokkuð vel.
Búnir að landa kara og ísa klukkan 12:30 og þá sleppti ég strákunum í sund og gaf út brottför klukkan 17:00.
Á slaginu 17:00 var sleppt og stefnan sett norður í Reykjafjarðarál.

27 nóvember.
Settum í síðustu dollurnar í nótt og héldum svo inn til Raufarhafnar, komum í höfn klukkan 09:15, en það var stoppað stutt, plan A var úti og nú var plan B komið í gagnið, það var löndun á Dalvík. Sleppt klukkan 10:00 og haldið til Dalvíkur, komum í höfn á Dalvík klukkan 21:30.
Skrapp á árshátíð með frúnni í kvöld.

26 nóvember.
Ágætisveður og þokkalegasti slítingur á svipuðu í dag, nú vantar lítið í holuna og vonandi fæst það næstu nótt.

25 nóvember.
Verið að snudda frá Kjölsen og norður á Rifsbanka, slítingsafli.
Styttum tvöföldu grandarana í dag og er ég ekki frá því að nú virki þetta ögn betur.

24 nóvember.
02:00 mínus landfestar og haldið út frá nafla alheimsins, norðaustan drullubræla og braut saman í innsiglingunni sem var all fráhrindandi þegar út í hana var komið en ekkert annað hægt að gera en láta sig vaða með trukki og dífu.
Damlað upp í veður og vind í alla nótt, notaði ég tímann til að strauja gömlu tölvuna mína og setja upp á hana Windows 98.
Um 09:00 fór svo veðrið að lagast og var dræsan látin fara um hádegisbil.
Ekki var höfuðlínustykkið neitt betra við nýyfirfarinn hólkinn en Helgi Inga var með nokkuð líklega sjúkdómsgreiningu eftir lýsingu á vandamálinu, en því miður þarf það að komast í hendur einhvers tækjaviðgerðarmanns til lagfæringar, en einhvervegin var farið að áður en þessi stykki komu og við verðum bara að lifa með þessu.
Frekar rólegt yfir veiðinni.

23 nóvember.
Byrjaði daginn á að skutla grislingnum í skólann en fór svo til tannlæknis sem lagaði jaxlinn sem brotnaði í viðureigninni við harðfiskinn sem ég útbjó mér.
Dagurinn fór svo í allaveganna stúss, um fimm keyrði svo frúin mig inn á Akureyrarflugvöll, þar var skólabílinn á Þórshöfn mættur til að keyra okkur til Raufarhafnar. Ferðin austur á Rauf gekk slysalaust en svo hált var á leiðinni að menn sögðu fátt, smá stopp á Húsavík þar sem Íslenska PULSAN fékk veglega athygli og sporðrenndum við félagarnir nokkrum eintökum :), um 21:30 vorum við svo mættir á Raufarhöfn og var farið í að gera skútuna klára til brottfarar.
Eitthvert smá bras var á vélagenginu svo að strákarnir notuðu tíman í að laga pokann á trollinu.

22 nóvember.
Legið í vellystingum heimavið :), tók batteríshólkinn úr Kaijo höfuðlínustykkinu og veitti honum þá alúð og aðhlynningu sem hann þarfnaðist. Þurfti ég að viða að mér efni í Húsasmiðjunni, einnig var lóðbyssan hituð og notuð í þessu aðhlynningarverkefni, á eftir var hólkurinn eins góður og hann gat orðið :).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi