..::Ég ætlaði ekki að gera þetta!::..
Nú er megnið af snjónum farið og þessi líka fína færðin í Dalvíkurbyggð ;). Við vorum með næturgest í nótt en Bjarki Fannar gisti hjá okkur síðustu nótt, þeir frændur snéru á mig og voru báðir sofnaðir í minni holu þegar ég ætlaði að skríða uppí, en það gerði ekki mikið til því að mér tókst að finna mér rúmstæði til að kúra í.

Í morgun keyrði ég svo grislingunum í skólann, Guðnýu í vinnuna og brunaði svo inn á Akureyri í þessari líka frábæru haustblíðunni eins og þær verða bestar.
Á Akureyri hitti ég aðeins Hemma netagerðarséní en eftir það kíkti ég í morgunkaffi í bakaríinu við brúna þar sem ég maulaði nýbakað sötraði kókómjólk og las nýprentað málgagn sjálfstæðismanna.
Klukkan var ekki orðin ellefu þegar morgunkaffinu(drekkutímanum) lauk og enn drjúg klukkustund í að bleikaGrísnum(Bónus) þóknaðist að opna sig fyrir almenningi. Einhvernvegin varð ég að eyða tímanum svo að ég keyrði upp í Kjarnaskóg og labbaði þar einn hring í skóginum, einstaklega hressandi og góður labbitúr.
Og nú var tími til komin að heimsækja bleikaGrísinn, ég var með þessi fáu atriði sem kaupa átti uppáskrifuð á miða frá frúnni, bara svona eins og að fara með lyfseðil í apótek nema að ég þurfti sjálfur að taka það til sem á miðanum stóð.
Það var þannig að þegar mamma sendi mig í búð í gamla daga, þá tókst mér alltaf að gleyma einu atriði af uppáskrifaðabúðarlyfseðlinum, það skipti ekki máli hvort atriðin voru 3 eða 20 alltaf vantaði eitthvað, þetta hefur örugglega valdið móður minni ómældri gleði, en sjálfsagt verið spennandi að vita hvað vantaði næst ;).
Jæja þegar ég var búin að viða að mér öllu af seðlinum þá burðaði ég því í bílinn henti miðanum ;) og brunaði heim.

Restin af deginum var svo með svipuðu sniði og aðrir dagar, þangað til eftir kvöldmat en þá fór ég á heilsubótargöngu með Guðnýu og Jónínu, það var enn logn en alveg rosalega þétt þoka, maður sá ekki á sér nefbroddinn fyrir þokunni, en einhvernvegin rötuðum við hringinn og heim aftur.

Skruppum svo aðeins í kaffi til Brynju, þar rak ég augun í að skenkurinn hennar var að bogna undan farginu sem í honum var, ég fékk Gumma svila til að kíkja á þetta með mér en hann var þarna staddur. Eftir nákvæma skoðun okkar, var ljóst að gripurinn hafði gefið sig á límingunum. Nú átti að ýta gripnum upp að veggnum og salta málið til seinni tíma, ekki tókst betur til hjá okkur en að einn fóturinn lyppaðist undan hel.... skenknum sem með það sama hallaði undir flatt og sturtaði af sér einhverjum slatta af styttum og glerdóti :(. Gott að við Gummi vorum báðir í þessu hehe, en mér tókst að líma það sem brotnaði með últragóðu lími sem Brynja átti í fórum sínum. Það var náttúrulega ekki annað hægt en að skammast svo í að líma fótinn undir hirsluna og reyna að lappa upp á lasleikann með því að líma það sem hafði gefið sig undan farginu.
Þegar við vorum búnir að líma og laga þá skammaðist ég heim, svona áður en eitthvað annað brotnaði hehe.

Talandi um Stöð2, hvað er eiginlega að gerast? Ekkert nema auglýsingar og aftur auglýsingar! Þeim væri nær að segja, næst verða sýndar slitrur af þættinum blabla milli auglýsinga. Ég get skilið þetta með Skjá1 sem rekin er á auglýsingartekjum, en Stöð2 er ekki gefins, langt frá því og hundfúlt að megnið af efninu sé sýnt í slitrum. Gat bara ekki orða bundist og varð að skyrpa þessu frá mér..

En læt þetta nægja í bili.

Bið þann sem öllu ræður að vaka yfir ykkur, hvar sem þið eruð.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi