..::Komin heim aftur::..
Það er orðin stund síðan ég bloggaði síðast, en þá var ég á leið suður og gerði ráð fyrir því að fara á sjó í framhaldinu, ég mætti í vinnu á mánudagsmorgun.
Vikan fór svo í bið sem endaði með því að ákveðið var að ég hundskaðist heim aftur í enn meiri bið.
Ég átti flug á föstudeginum en það var hólmaraheppni yfir þeim degi og var allt flug fellt niður vegna veðurs, hvað annað hehe. Ég fór til Haddó og dvaldi þar í góðu yfirlæti, það var gaman að sjá hvað litli frændi hafði stækkað og var orðin mannalegur :). Mamma og Pabbi áttu svo leið í bæinn, Haddó dúðaði litla krílið upp og við fórum með foreldrum okkar niður í Þorstein Bergmann sem er skranbúð ofan við slippinn.
Mamma og pabbi voru að koma úr Garðinum á sumardekkjunum og sagði pabbi að það væri MARAUTT!. Þetta slapp nú allt saman en við systkinin stóðum á bremsunum í aftursætinu megnið af leiðinni skelfingu lostin hehe.
Eftir skranbúðarferðina fórum við heim í Stangarholtið, þá var búið að aflýsa öllu flugi þann daginn svo litla systir sat uppi með mig. Þar úðaði ég í mig kjúklingabitum og frönskum í kvöldmatnum eins og mér væri borgað fyrir það, ég var jú búin að vera á takmörkuðu Rússafæði alla vikuna og frelsinu fegin.
Thelma stóra systir og Sandra komu til að passa litla frænda og MIG.
Haddó og Gunni voru að fara með Pabba og Mömmu á einhverja leiksýningu um kvöldið, en áður en þau fóru var þetta eins og lítil fjölskylduhátíð þar sem við vorum öll saman systkinin og foreldrarnir, það gerist nú ekki oft.
Kvöldið var rólegt og Haukur svaf ein og engill allt kvöldið, það þurfti að ræsa hann þegar þau komu heim ;).
Ég gisti svo í Stangarholtinu, en var vaknaður upp úr átta á laugardagsmorguninn, þá var textavarpið tendrað og í ljós kom að það var athugun klukkan 11:10, meiri bið. Aftur var svo frestað til 14 og mér var ekkert farið að lítast á þetta með flugið.
Á endanum var svo byrjað að fljúga, og eins og Íslendingum sæmir þá var vertíðarstemming yfir fluginu, þrjár vélar til Akureyrar með korters millibili og þetta var drifið af. Guðný beið á vellinum og við renndum beina leið út á Dalvík, þar vantaði lítið upp á að það væri ófært í bænum, en það var fínt að sleppa heim.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi