..::Loðberjaklipping::..
Oft eru það smáu atriðin í lífinu sem gefa því lit, atriði sem við gefum ekki gaum og leifum okkur ekki að sjá skondnu hliðarnar á.
En eins og einn vinur minn orðar það þá hefur hver sérstakur maður sína sérstöku siði og misjafnt hvernig við sjáum lífið, sumir eru svarthvítir á meðan aðrir eru í lit ;).

Loksins í nótt lauk þessari löndun sem við erum búnir að vera að pjakka í, að vísu erum við ekki bara búnir að landa því við dældum líka um borð einni miljón lírum af svartagulli.

Í dag var það svo Yaiza "ex Sjóli", hún kom með umbúðir og vistir handa okkur og vorum við að basla við það fram á kvöld.

Meðan við vorum að basla með Yaizu fékk ég þá frábæru hugdettu að skella mér í Jólaklippingu, þriðji stýrimaður klippti mig um daginn og það var svona assgoti fínt hjá honum, einhverjir myndu kalla svona klippingu loðberjaklippingu “kivi” en ég kalla þetta bara snoðun.
En hvað um það ég talaði við þriðja stýrimann og spurði hann hvort hann væri til í að snoða mig aftur? Ekki málið og dró hann fram þessar líka fínu rafmagnsklippur sem annar stýrimaður kom færandi hendi með handa okkur.
Eitthvað var minnið farið að svíkja okkur og mundum við ekki hvaða kambur var á græjunni síðast þegar ég var snoðaður (kambarnir ákvarða hárlengdina) en þetta var ekki mjög flókið og bara þrír möguleikar, ég valdi miðjukambinn 2mm og trúði því að við hefðum notað hann síðast þegar ég fékk svona hármeðferð.
Svo var svifið í verkið með trukki og dýfu og áður en varði var þessu lokið, ég orðin um höfuðið eins og nýtínt loðber.
Þegar þessu verki var rétt lokið kom annar stýrimaður upp í brú, ég notaði tækifærið og spurði hann hvar hann hefði fengið þessar fínu klippur sem hann var nú búin að arfleiða skipið af?

Nú ég átti hund sem ég notaði þessar klippur á sagði kappinn, en ég notaði þær bara einu sinni á hundinn, eftir það hafa þær bara verið notaðar á fólk sagði hann hinn ánægðasti.
Þetta bjargaði deginum hjá mér, þvílík snilld, þegar betur var að gáð stóð á kassanum sem græjan var í “Electric animal clipper”.

Þessi skemmtilegi endir á klippingunni setti lit á daginn hjá mér ;).
Eftir klippingu smellti ég mér í sturtu til að skola af mér hárbroddunum sem höfðu stráðst yfir mig eins og englaryk af himnum.
Þar komst ég í tæri við spegil og á því augnabliki áttaði ég mig á því að ég hafði valið vitlausan kamb, 2mm voru alveg í það styðsta og það var nánast ekkert hár eftir á hausnum á mér hehe.

En ég er komin með jólaklippinguna og svona dillandi ánægður með hana.

Að öðru leiti er ekki mikið að frétta héðan.

Bið þann sem öllu ræður og stjórnar að benda ykkur á ljósu punktana í lífinu, og færa ykkur ómælt magn af hamingju gleði og kærleika ........

Ummæli

Nafnlaus sagði…
'Oska eftir mynd af loðberinu.knús M

Vinsælar færslur af þessu bloggi