..::Þetta fer alltaf einhvernvegin::..
Víraslagurinn mikli tók enda eins og allt annað, á tímabilum sá maður ekki fram úr brasinu en einhvernvegin var ekkert annað í stöðunni en að halda áfram, það voru ekki margir kostir í stöðunni, skera vírinn af stb spilinu og skipta vírnum af bb spilinu niður á bæði spilin, það var slæmur kostur því við hefðum ekki haft nægan vír fyrir annað eitthvað grunnslóðaskak.
Plan-B, ef allt færi á versta veg var að taka togvírana úr Geysi áður en hann færi í slipp á Las Palmas, það var rúmlega sólarhringsbið. Plús sigling , múring tími við töku á vírnum og sigling á miðin aftur.
það var því aldrei neitt annað í stöðunni en að halda áfram að hnoðast í þessu basli og gefast ekki upp, það nagaði mig mest allan tíman að ég væri kannski að gera tóma vitleysu, kannski væri þetta ekki hægt og þá væri ég búin að sóa dýrmætum tíma í tómt bull.
Strákarnir stóðu sig eins og hetjur í þessu og það verður aldrei sagt að þetta hafi verið auðvelt, en þetta hafðist fyrir rest. Við þurftum að klippa 250m innan úr vírnum til að ná þessum flækjum og heildar verktíminn endaði í 44klst.
20manns að berjast í þessu vakt eftir vakt, þeir voru þreyttir blessaðir englarnir þegar þetta var búið. Hjá mér tók þetta aðallega á taugarnar en það var ekki neitt annað í stöðunni en að halda áfram með nagandi óttann á bakinu :).

Eftir víraslaginn náðum við tveim veiðadögum fyrir Rússamannaskipti í Nouakchott , það gekk þokkalega að fiska þann tíma, svo var farið í mannaskiptin.
Mannaskiptin gengu fljótt og vel fyrir sig og ég hélt í einfeldni minni að nú væru allir mínir erfiðleikar að baki og ekkert nema brakandi vellukkan framundan, ef ég hafði haldið það þá voru það illa smíðaðar skýjaborgir í mínum hugarheimi og þær hrundu eins og spilaborg.

Eins og kerlingin orðaði þetta svo vel “ Adam var ekki lengi í París ;)“.
Nú var það næsta brekka og hún var ef eitthvað mun torfærari en vírabrekkan.
Það var sama hvar við reyndum annað hvort vorum við of seinir hittum ekki í fiskinn eða veiðarfærin flæktust saman og fóru óklár út.
Ég vissi ekki orðið mitt rjúkandi ráð og sá enga lausn, ofan á allt þá virðist sem annað trollið hafi hætt að fiska þegar skipt var um belg á því og það tók mig of langan tíma að átta mig á því meini.

Fiskiríið hefur verðir með eindæmum erfitt við að eiga, þetta hefur verið á smá blettum á stærð við tíeyring þar sem allir ætla að ná sama fiskinum, það endar auðvitað ekki með öðru en mætingum, erfiðleikum en ekki fiskirí, nánast vonlaust að komast þangað sem maður vill fara og oft á tíðum tóm vitleysa.

Á tímabili sá ég ekkert annað en svartnætti en sem betur fer stóð það stutt yfir og ég náði mér upp úr mesta volæðinu, þá fór aðeins að birta til í sálartetrinu og svo fór þetta að lagast ;).
Kannski ekki algott en skárra, það verður víst að taka þessa túra líka hversu vont sem það er nú er, maður verður að sætta sig við að sumu getur maður ekki breitt.

Að öðru leiti er ég bara skítsæmilegur, órakaður þrátt fyrir vinsamleg tilmæli einhverra um hvort ekki væri ráð að prufa að raka sig bara til að sjá hvort við hrykkjum ekki í stuð!
Svarið er einfalt, þótt það rigni eldi og brennisteini þá raka ég mig ekki í þessu úthaldi ;).

Mynd dagsins er af Siriusi, Guðbjartur Ásgeirsson stórskipstjóri á Beta1 tók myndina fyrir nokkrum dögum þegar við mættumst.

Bið svo Guð og alla hans fylgissveina að leiðbeina ykkur í lífsins ólgu sjó.
Og munið að þegar hlutirnir eru orðnir svo slæmir að þeir geta varla orðið verri, þá geta þeir ekkert annað en batnað ;);).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi