..::Skipreika::..
Jæja þá er lönduninni lokið og við aftur farnir að berjast um fisktittina með frekar döprum árangri, en það þíðir víst lítið að velta sér upp úr því.
Páskahrotan hlýtur að vera handan við hornið þótt okkur finnist hún vera frekar sein á ferðinni þetta árið.

Í þessu löndunarstússi er tuðran mikið notuð til að ferja menn og varning milli skipanna og til og frá landi, þótt ég kalli þetta tuðru þá er það ekki svo að þetta séu einhver uppblásin manndrápsfley eins og víða tíðkast, nei þetta eru ansi flottir léttbátar ekki ósvipaðir því sem margar björgunarsveitir eru með heima, 80-150hp mótor stýri sæti GPS AIS og allur pakkinn, þykir heimamönnum hér um slóðir mikil upphefð að fá að ferðast um í þessum fleyjum.

Fljótlega eftir að við komum inn á leguna var þörf á þjónustu tuðrunnar til þess að sækja herinn, ég ákvað að fara sjálfur enda nóg að gera hjá öllum öðrum.
Bátnum var slakað í sjóinn og ég ætlaði að æða af stað en það klikkaði bara eitthvað í mótornum og hann vildi ekki starta. Það var ekkert annað í stöðunni en að hífa bátinn aftur um borð og leggja hann inn á sjúkrahús vélstjóranna.
Heineste var líka í löndun og nú var leitað á náðir þeirra með bát til að ferja hermennina til okkar, það var auðsótt mál og þeir voru fljótir að bregðast og leistu þetta vandamál fyrir okkur á svipstundu.

Við nánari athugun á mótornum á bátnum okkar kom í ljós að startarinn var pikkfastur, en með vöðvadrifinna vélstjóra og brúsa af Þórólfsúða (WD40) við hendina losnaði um startarann og taldi yfirsmyrjarinn að þetta myndi duga til gangsetningar um ókomna framtíð.
En til að fyrirbyggja allt væl væri samt væri vissara að panta nýjan svona upp á öryggið.
Strax næsta dag var komið verkefni fyrir bátinn og í einskærri góðmennsku minni bauðst ég til að taka verkefnið að mér, verkefnið var fólgið í því að sækja þrjá Indónesa yfir í Reinu sem er annað af þjónustuskipunum okkar.
Bátnum var slakað niður og yfirsmyrjarinn hafði engu logið um að þetta startara vandamál væri komið í lag, mótorinn datt í gang og malaði sem aldrei fyrr.
Ég brunaði eftir Indónesunum og gekk sú ferð stórslysalaust þrátt fyrir bölvaðan skæling, þegar því verkefni var lokið var tuðran hífuð upp á síðuna og höfð þar reiðubúin fyrir næsta verkefni sem var fyrirséð að yrði fljótlega.
Um hálfsjöleitið var svo komið að næsta verkefni sem ég tók að mér eins og sönnum heiðursmanni sæmir, ekki ástæða til að fara að rífa menn úr löndun fyrir smá skreppitúr til Nouakchott, við lágum 3.5sml utan við höfnina og það var enn leiðindaskælingur fyrir svona lítinn bát, ég ákvað að fara einn vegna fjölda farþega á bakaleiðinni, þeir yrðu fjórir og lestaðir farangri.
Segir nú ekki frekar af ferðum mínum fyrr en að ég á eftir sirka eina mílu í hafnargarðinn, allt í einu kemur ægilegur smellur úr mótorshelvítinu klikk klakk klikk klakk og allt steindó.
Ég hugsaði með mér andskotinn nú hef ég fengið í skrúfuna og fór að tjakka mótorinn upp, þegar skrúfan kom úr sjó þá var ekkert í henni en nú var mótorinn farin að skila smurolíunni niður í bátinn, var bara eins og hann hefði fengið flóðmigu, það voru ekki mikil geimvísindi í því að helvítið hefði farið í mask.

Þar sem ég var með talstöð með mér þá gat ég kallað yfir í skipið mitt og gert þeim grein fyrir ástandinu, báturinn var vélarvana á reki rétt utan við höfnina, yfirsmyrjaranum gat ég tilkynnt að ef hann ætlaði að panta nýjan startara þá væri örugglega betra að hafa mótor áfastan á honum. Ég taldi að Þólólfsúði mætti sín lítils gegn þeirri bilun sem nú hefði riðið yfir.

Aftur þurfti að kalla út hjálp frá Heineste, var mér fljótlega tilkynnt að hjálp væri á leiðinni.
En þetta leit hreint ekki vel út, ég rak hratt til suðurs og það var bara helv... bræla fyrir svona lítinn bát, það var stutt í myrkur og auðvelt að tína svona horni í myrkrinu.
En það var svo sem ekki mikið annað að gera en að bíða, ég fann 1.5 liter af drykkjarvatni og svo var ég með 90kg af fiski sem ég ætlaði að færa hafnarstjóranum í Betlehem, ég ætti því ekki að þurfa að svelta.
Miðað við rek og vindátt þá sýndist mér að ég myndi reka upp í fjöru einhvertímann um nóttina, það var því ekkert annað að gera en bíða rólegur og vona að vindáttin breyttist ekki.

Ég reyndi nokkrum sinnum að veifa í báta heimamanna sem voru á landleið en þeir tóku ekki eftir mér.
Eftir dágóða bið sá ég til ferða Heinestemanna og náði að kalla þá upp í stöðinni, þeir sáu mig og tóku stefnuna á mig, mikið agalega var ég fegin.
Dráttartóg var klárt og þeir voru fljótir að hengja mig aftaní, rescue 911 sögðu þeir þegar þeir mættu ;);).
Nú var kúrsinn settur til hafnar í Nouakchott, þar tókum við farþegana og farangur um borð og svo vorum við dregnir út aftur.
Það var bölvaður skakstur og ferðin sóttist frekar seint í svarta myrkri og kaldaskít, en þetta hafðist allt á endanum og vorum við mikið fegnir að komast um borð aftur.
Báturinn var hífður á sinn stað og ákveðið að kíkja á mótorinn í björtu daginn eftir.

Þegar við fórum að huga að mótornum kom í ljós að það hafði brotnað stimpilstöng og hún hafði brotið sig út úr blokkinni nánast hringinn, það var bara silendirinn sem hélt mótornum saman og mátti horfa í gegn um mótorinn.
Ég var sennilega heppin að brotin úr honum þeyttust ekki í bakið á mér þegar hann fór í mask, það hefði nú verið til að toppa vitleysuna hehe;).
Læt þetta bull duga í bili.
Megi Guð og gæfan vera ykkur innan handar á reki ykkar um lífsins ólgu sjó.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Mikið gaman að lesa þetta en ábyggilega ekki gaman að lenda í því .knús úr Kríulandi
Nafnlaus sagði…
ja hérna Hörður, þetta hefur nú ekki verið spennandi og ég get ekki ímyndað mér hvað fer um huga manns þegar svona bjátar á. Það er gott að þetta fór nú allt saman vel og það er spurning þegar þú sýnir þína góðmennsku og bíður þig fram í verkin að taka eins og einn með þér því gaman er að hafa félagsskap með í för.
kveðjur úr Karlsrauðatorgi 26 :)

Vinsælar færslur af þessu bloggi