Það er ekki hægt að segja annað en að ég hafi svindlað á ykkur undanfarið ;), en ég nennti bara ekki að blogga, enda eins og tussa breidd á klett eftir allt bullið í kring um þessa löndunarvitleysu og aðrar bilanir..
Löndunarruglið fór alveg úr böndunum enduðu leikar þannig að ég varð að láta áhöfnina landa því að löndunargengið sagði að það væri of mikil freon mettun í lestinni. Það var engin helv freonmettun í lestinni en eftir því sem að okkur finnst líklegast þá var allt notað til þess að þurfa ekki að landa, við vorum með 30kg poka og vigtuðu sumir þeirra upp í 40kg, það eru allir aðrir komnir niður í 18kg poka og þeir voru ekki hrifnir af þessu, en við vorum að klára upp gamlar byrgðir af pokum og förum svo í 18kg eins og aðrir. Vonandi verður það til þess að við losnum við löndunarvesen í framtíðinni.
Það var svo búið að landa klukkan níu á mánudagsmorgun og voru mínir menn slæptir og þreyttir þegar þeir fóru í koju, en þeir stóðu sig eins og hetjur í lönduninni.
Svo var verið að vinna á öllum öðrum vígstöðvum. Og klukkan 20:30 á mánudagskvöld þurfti ég að draga Jón upp úr vélarúminu,þá var kallin búin að vera að basla í þessu í tólf tíma og mér fannst komið nóg í bili.
Við fórum svo á frumskóga Jim og fengum okkur ærlega að éta eins og sönnum víkingum sæmir. Seinnipartinn á mánudag mætti sá sem ætlar að sjá um vinnslustjórastöðuna næsta túr og Hannes kom svo seinnipartinn á þriðjudag.
Eftir því sem mér sýnist á framvindunni í viðgerðarsögunni þá verður vonandi hægt að sleppa dollunni á föstudagskvöld.
Lee er búin að vera eins og útspýtt hundskinn um allar jarðir að redda því sem hægt er að redda, í fyrradag fór hann með mig í verslunarleiðangur og keyptum við sjónvarp og video/dvd í sameignina í skipstjóraklefanum, svo að það er þá einhver aðstaða til afþreyingar hjá okkur ;).
Ekki varð nein breyting á ræsingunni í morgun “STÓRT VANDAMÁL KOMIÐ UPP” jesús ætlar þessu aldrei að linna ;). Nýr freonleki fundin í lestinni, og þar er einhver freonlögn í döðlum inni í einangruninni. Dagurinn í dag fór í að plokka einangrun burt og leita leiða til lausna, þegar verst lét mættu þrír þungbúnir verkstæðismenn og sögðu í einum kór “BIG PROBLEM” það var komið upp í sex daga viðgerð og himinháar upphæðir nefndar í því sambandi, maður varð að anda með nefinu og svo var farið yfir stöðuna og allir möguleikar á viðgerð skoðaðir.
Og ef að allt fer á besta veg þá eigum við möguleika á að þetta klárist á morgun 6-11-14 knok knok, en það er kannski óþarfa bjartsýni.
Við athugun á byssuspilinu kom i ljós að það er líka í döðlum og ekki er til neitt í þetta rusl lengur ;(, látum það þá druslast einn túr enn, varla verður það verra ;).
Það fjölgaði aldeilis í höfninni í dag , Eyborg Sonar og Arnarborg komu allir inn og Merike er væntanleg á morgun, þetta er eins og tómatsósan “Fyrst kemur ekkert og svo kemur allt” ,).
Það gæti farið svo að ég þyrfti að færa Eyborgina á morgun en það er óráðið enn.
En það er nóg af kunningjum sem maður á hérna í augnablikinu, mest ölláhöfnin sem var með mér á Cape Ice er á Eyborginni og svo eru strákarnir á Sonar flestir þeir sömu og voru þegar ég var með hann svo að það voru mörg kunnugleg andlit hérna á höfninni í morgun.
Jæja læt þessi skrif duga í bili.
Vonast til að Guð og gæfan fylgi ykkur.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi