..::Tregt::..
Það er illa tregt hjá okkur þennan daginn, ekkert virðist vera í boði nema eitursmátt rusl sem engin vill kaupa, eða fiska nema Norðmenn.
En það er víst fátt annað til ráða en að bíta á jaxlinn og vona að þetta skáni, annars sé ég nú ekki hvernig framtíð rækjuveiða á Flæmska verður ef Norðmenn halda uppteknum hætti við smárækjuna, þetta eru svo hrikalega afkastamikil skip, þeir hafa verið að vippa upp 35-40tonnum af smárækju á dag þegar best lætur.
Já það eru ansi margir rækjueinstaklingar í þessum tölum, sjálfsagt hefur þessi mikla sókn Norðmanna í smárækjuna slæm áhrif á framtíð þessara veiða hérna.
Eftir því sem Gróa á leiti hermir þá láta Norðmenn sér ekki nægja það svæði sem opið er á hattinum. Heldur liggja þeir inni í hólfinu sem lokað er á þeim forsendum að vermda smárækjuna.
En það þarf ekki að kvarta yfir veðrinu það er blíða upp á hvern dag og hitinn fullmikill, en það styttist óðfluga í að haustið láti til sín taka.
Kokkurinn er alltaf orðið með rækjusalat eins og mig grunaði. Í dag brasaði hann Amerískar pönnukökur ala Hannes ,). En Hannes verslaði þetta í landi og það stóð alltaf til að brasa þetta eitthver kvöldið en ekki fannst tími í verkið svo kokkurinn var settur í málið. Kokkurinn bölvaði að vísu yfir uppskriftinni sem var á pakkanum, sagðist ekki skilja ensku, en karl klóraði sig út úr þessu og var þetta ljómandi fínt hjá honum ;).
Í gær gafst ég upp á skegginu og fékk lánaðan skeggsnyrti skipsins og heflaði framan úr mér frumskóginn, ég var komin á þá skoðun að þetta væri ekki tími til hársöfnunar í andliti, enda hitinn í hámarki hérna á slóðinni og þessu fylgdu full miklar aukaverkanir að mínu mati ;):
Það berst alltaf eitthvað nýtt á bleyðuna þegar hlýi sjórinn kemur, hafa menn verið að sjá tunglfiska og skjaldbökur, en það hefur lítið borið á túnfisk þetta árið en oft hefur verið mikið af honum á þessum tíma.
Steinríkur flaggari átti 46ára afmæli í gær og var hann að mestu heimavið á afmælisdaginn, ekki held ég að hann hafi fengið neina pakka en við reyndum flestir að óska honum til hamingju með daginn ;). Ég ætlaði svo að gleðja hann í gærkvöldi og sagði að nú væri hann líklega hálfnaður lífsgönguna, ekki vildi hann nú vera sammála mér í því og sagðist ekki vilja verða nema 20-25árum eldri. Hann ætlar sér ekki að verða farlama gamalmenni á framfæri fjölskyldunnar. Jamm það er misjöfn lífsýn fólks kannski sem betur fer.
Ég lifi enn í þeirri trú að ljósið komi einhver tíman til mín, og bíð orðið spenntur eftir þeim degi þegar ljósgeislinn hittir mig beint ofan í höfuðið ;).
Þangað til verður maður að paufast áfram í rökkrinu með vonina og trúna í farteskinu.

Ég óska þess af öllu mínu hjarta að Guð og gæfan fylgi ykkur um vandrataða stíga lífsins og hann leiði ykkur á vit hamingju og gæfu.
Hugsið fallega um náungan og reynið að fremsta megni að koma fram við aðra eins og þið viljið að þeir komi fram við ykkur.

<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi