Laugardagur 31.7.2004

..::Stillingaratriði::..
Jæja þá erum við Janis flaggari búnir að æfa okkur aðeins með flottroll :), köstuðum klukkan fjögur í nótt og hífðum klukkan tíu, það var búið að vera eitthvað ástand á þessu hjá karlinum, trollið sat illa og vildi helst ekki vera í botni, gapti eins og þarstarungi sem bíður eftir æti án nokkurrar skýringar.
Við vorum búnir að ausa á þetta vír, komnir hundrað faðma fram yfir tvöfalt en alltaf var þetta eins og flugdreki og rétt tillti í botninn, humm hvað er eiginlega í gangi hugsaði ég og kippti dræsunni upp eftir stuttan drátt og fórum við Reynir vinnsla yfir trollið og hlerana en fundum ekkert að, helst að hlerarnir voru lítið dregnir. Gerðum smávægilega breytingu og skutum dræsunni í kolgrænt djúpið aftur, en allt var við sama, djö maður djö.
Mig grunaði að autotrollið væri að telja vitlaust út svo að ég gramsaði eftir bæklingnum, þegar hann var fundin fann ég þær stærðir sem áttu við í uppsetningu autotrollsins og fór yfir þær, eitthvað hafði þetta nú ruglast í stoppinu því þessar stillingar voru út úr kú og þurfti að leiðrétta þær áður en dótið fór að vinna eins og það átti að gera :). Sennilega hefur allt rafmagn farið af þessu dóti, einnig 24v sem eiga að halda stillingum inni og þá poppar þetta bara upp í orginal stillingum þegar rafmagnið kemur í fríinu.
En það er ekki mikið af rækjunni hérna núna, tjah nema þeirri smáu sem helst engin vill kaupa eða veiða, þó liggja tvö skip í þessu hrati, skipherrarnir þar eru nokkuð sælir með sig, magnið er jú í lagi en talningin úr mótökunni er vægast sagt ekki prenthæf.
Sem sagt, laugardagurinnn þessa verslunarmannahelgina líður án þynku eða ölvunaróláta hér um borð og allt í friði og spekt, en það vantaði lítið upp á að maður væri komin með hausverk af öllum þessum trollpælingum í dag, en þegar meinið fannst birti yfir manni og maður sá ljósið aftur :):).
Það er fínasta veður á okkur og 18°C hiti, og enn náum við fm útsendingum frá klakanum sem mér finnst að ætti að vera nánast ómögulegt, en er samt staðreynd.
Jamm og jæ, þetta verður ekki lengra í dag.
Vona að þið farið varlega um helgina, og gerið ekkert sem ég myndi ekki gera :):):).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi