31 október.
Komum í land klukkan 04:00 í nótt og bundum framan við Faxa, byrjuðum að landa klukkan tíu í morgun og var því lokið klukkan tvö.
Gunni kom og sótti soðningu en Haddó var eitthvað busy og sá ég hana ekkert :(.
Flaug norður í klukkan 14:30. Guðný sótti mig á völlinn og brunuðum við heim.
Þetta verður samt stutt stopp því á morgun fer ég aftur af stað.

30 október.
Sama sagan í sladdanum í nótt, lítið og lélegt, kipptum austar í morgun. Tókum stutt tog en svo var kippt sunnar. Nudd í Ýsu í dag og klukkan 22:30 var búið að fá í allar dollurnar svo að sett var á fulla ferð inn til R.Víkur.

29 október.
Rólegt í sladdanum í nótt svo að við kipptum til baka í morgun og vorum að ráfa um norðan í Jökuldýpinu í dag, kipptum svo í sladdann í kvöld.

28 október.
Verið á sama í nótt, smá rjátl en samt vantar neistann í þetta. Einn guttinn klemmdi sig illa í morgun og þorði ég ekki annað en að hringja í gæslulækninn til að fá upplýsingar um hvernig ég ætti að bera mið að skoðun á handleggnum til að ganga úr skugga að hann væri ekki brotin. Ekki var guttinn brotinn og var hann býsna fljótur að koma til enda hraustur strákur. Gáfumst upp á drullumallinu og kipptum og köstuðum bobbingunum seinnipartinn. Kipptum svo vestur á Jökultungu í nótt til að huga að Steinbítnum

27 október.
Vorum að lulla á drullunni með fótreipið í dag, það má segja að það hafi reddast fyrir horn en við hittum í smá þorskvott tvö hol, annars var rólegt yfir þessu. Tókum bobbingatrollið og sönsuðum það aðeins til mældum og breyttum, vonandi til batnaðar.

26 október.
Byrjuðum við Malarrifið, rifið basl og bras á okkur í allan dag og enginn afli. Kipptum suður í Jökuldýpi þar sem draga á fótreipistrollið meðan við sleikjum sárin og komum bobbingatrollinu í eitthvað stand.

25 október.
Bundið fyrir framan Faxamarkað klukkan 01 í nótt og þar með lokaðist fyrsti túrinn :). Byrjuðum svo að landa eftir hádegi og klukkan 18 var búið að landa kara og ísa. Gaf strákunum frí til 21 en þá hefst næsti túr. Haddó og Gunni kíktu á mig og keyrðu mig út í Euro prís þar sem ég keipti mér kuldagalla og húfu. Allir mættir klukkan níu svo að við slepptum og fórum.

24 október.
Kastað í Jökuldýpinu upp úr miðnætti, það var ekki annað að sjá en að það virkaði fínt þó að það framleiddi ekki fisk ;). Við skönnuðum samt svæðið lauslega en höfðum lítið upp úr krafsinu, þó nudduðust nokkrar skepnur upp. Um kvöldmatarleitið settum við á ferð til lands, kokkurinn var með Humarveislu í kvöld umm ummm :).

23 október.
Verið á sama, blíðuveður en lítið fiskirí. Setti á fulla ferð suður í Jökuldýpi seinnipartinn, strákarnir fóru yfir trollið en ég skúraði brúna og lagaði þrýstinemann í höfuðlínubombunni. Gerðum svo fótreipistrollið klárt.

22 október.
Verið á svipuðu í dag, norðan kaldafíla og rólegt yfir veiðinni. Þetta er að smáslípast saman hjá okkur og gengur orðið þokkalega að afgreiða trollið inn og út.

21 október.
Keyrðum norður á grunnslóð í nótt, á bleyðu sem kölluð er Herðatré, trollið var í rifið eftir fyrsta holið og vorum við að bæta til fjögur í dag. Það er blíðuveður hérna og bara einn annar trollbátur hérna í augnablikinu, á honum er skólabróður minn og félagi úr stýrimannaskólanum.

20 október.
Drullubræla í nótt en báturinn fór vel með sig og hreyfðist lítið, veltitankurinn á honum virkar vel og er þetta kríli miklu betra í sjó en mörg stærri skip sem ég hef velkst á. Köstuðum við Malarrif og var aflinn rýr, en við erum bara að læra á þetta og hef ég trú á að þetta komi allt :).

19 október.
Enn skítaveður. Snérum bátnum og tókum trollin og hlerana um borð í morgun, færði svo yfir að fiskmarkaði Hafnarfjarðar þar sem við tókum kör og ís. Gaf svo frí til 22 i kvöld en þá á að fara. Fór til Haddó og Gunna í mat í kvöld og notaði tækifærið og skellti mér í heitt bað og rakaði mig, baðið er miklu betra en sturtan sem við höfum um borð í þessum skipum. Allir komnir um borð kl 22 svo það var sleppt og farið.

18 október.
Unnið við troll hlera og fl í dag, sótti Gumma út á völl í morgun. Það smá fjölgar í áhöfninni og er þetta að lokast :). Í kvöld skruppum við Gummi um borð í Kolbeinsey og kíktum á Gunna og Hjalta. Hjalti hefur stækkað síðan ég sá hann síðast, en heimurinn breytist og mennirnir með :). Drullu veður um allt land...............

17 október.
Svaf fram að hádegi í dag, en svo tókum við daginn í þrif og annað tilfallandi, frekar rólegur dagur. Leit til Haddó og Gunna, fórum við á Ruby Tuesdays og gúffuðum í okkur borgurum í kvöld.

16 október.
Unnið í að standsetja millidekkið fyrir fiskitrollið og svo var bobbingatrollið sett á lengjuna. Renndi yfir í Garð til mömmu og pabba í kvöld, á bakaleiðinni kíkti ég aðeins við í Keflavík hjá Jóni vélstjóra.

15 október.
Byrjuðum að hífa upp úr bátnum veiðarfæri og búnað, og fór allur dagurinn í það. Skrapp til Telmu systur í kvöld, horfði á Idolið og fékk þennan fína kvöldmat :).

14 október.
Allt fullt af svíum niðri í morgunmatnum, þeir voru víst að bösta Íslendinga í einhverju tuðrusparki og ljómaði öll gulbláa línan í hamingju. Fengum lyklana af bátnum fyrir hádegi og komumst um borð. Mér líst vel á bátinn og er hann miklu betri en ég átti von á, vel græjaður og í fínu standi, ekki spillir fyrir að hann ber þess merki að hafa verið vel um gengin og hirtur í gegn um tíðina. Settum í gang og sigldum honum yfir í Hafnarfjörð í dag, vorum búnir að binda þar kl 1800.

13 október. Jamm þá er komið að því. Flaug suður í morgun til að taka við bátnum, í gærkvöldi áttaði ég mig á því að réttindaskírteinið mitt var útrunnið svo að fyrsta mál á dagskrá var að uppfæra það. Snæbjörn pikkaði mig upp á vellinum og fórum við aðeins um borð í bátinn, einhver smá pappírsvinna er eftir svo að afhending dregst eitthvað fram eftir degi. Skírteinið varð samt að fá, fór í einhvern passamyndasjálfsala og myndaði mig svo var farið á heilsugæslu Kópavogs þar sem ég fékk vottorð, allt var klárt fyrir tollstjóraembættið og þar var öllum upplýsingum ásamt gamla skírteininum mokað inn og skilið eftir, má sækja það á morgun. Enn voru smá tafir svo að ég fór á hótel og kom mér fyrir.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi