..::Enn ein löndunin í Nouakchott::..
Liggjum á ankeri á legunni í Nouakchott og löndum, við komum hingað seinnipartinn í gær og byrjuðum að kroppa upp úr dallinum fljótlega.
Við Gummi skutluðumst á tuðrunni í land með vegabréfin okkar en við vorum að fá nýjar vísa áritanir í þau ;), svo brunuðum við um borð í Geysi og pikkuðum upp þrjá hermenn sem ætla að hafa eftirlit með lönduninni, þetta þarf allt að vera undir control hehe.
Um hádegisbilið í dag mætti tankskip með svartolíu handa okkur, hann klárar væntanlega að pumpa sopanum yfir seint í kvöld.
Í framhaldinu mætir Sjóli og afgreiðir okkur með smá sopa af gasolíu. Þegar búið verður að afgreiða fraktdósina þá kemur Orion með pakkningar og vistir, vonandi náum við að klára hann seinnipartinn í nótt og þá verður okkur ekkert að vanbúnaði að halda til veiða.

Í dag notuðum við tækifærið og skruppum aðeins í heimsókn í Geysi og svo í Sjóla, við erum engu betri en flækingar fyrri tíma sem þvældust bæ af bæ, en það er nauðsynlegt að brjóta þetta aðeins upp og hitta félagana á hinum skipunum, maður sleppir því nú ekki að komast í kleinurnar í Sjóla ef þess er nokkur kostur;).

Vírus er ekkert hrifin af þessu löndunarstússi, hann kom ekki inn fyrr en hálf eitt í nótt og hefur nánast ekkert litið út í dag, honum líkar alls ekkert við allt þetta ískur og hávaða sem þessum löndunum fylgir, nú og svo allt þetta nýja fólk.
En ég held nú samt að loðdýrið okkar venjist þessu með tíð og tíma.

Mamma átti afmæli í dag og merkilegt nokk þá mundi ég eftir því og hringdi í hana seinnipartinn, það er ekki beint mitt besta að muna eftir afmælisdögum en í þetta skipti slapp ég frá gleymskupúkanum.

Mynd dagsins er af Hafsteini skipstjóra á Geysi, dillandi fínn náungi.
Nokkrar myndir úr hringiðu okkar hérna rötuðu inn í sjóalbúmið.

Læt þetta duga í bili.
Bið allar góðar vættir að vaka yfir ykkur......................

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Nú svo mamma þín á sama afmælisdag og ég.... gangi þér vel á hafinu.
kv Kári K
Nafnlaus sagði…
Kúrekinn og Indjáninn
Kúreki sem var búktalari kemur gangandi inn í smábæ og sér þar indíána sitjandi á bekk.
Kúreki: Hey, flottur hundur. Er þér sama þó ég tali við hann?
Indíáni: Hundur ekki tala.
Kúreki: Heyrðu hundur, hvernig hefurðu það?
Hundur: Ég hef það fínt !
Indíáni: [Undrunarsvipur]
Kúreki: Er þetta eigandi þinn? [Bendir á indíánann]
Hundur: Jamm.
Kúreki: Hvernig fer hann með þig?
Hundur: Mjög vel. Hann fer með mig út að ganga tvisvar á dag, gefur mér góðan mat og fer með mig niður að vatninu einu sinni í viku og leikur við mig.
Indíáni: [trúir ekki eigin eyrum]
Kúreki: Er þér sama þó ég tali við hestinn þinn?
Indíáni: Hestur ekki tala.
Kúreki: Heyrðu hestur, hvernig hefurðu það?
Hestur: Komdu sæll kúreki.
Indíáni: [Undrunarsvipur]
Kúreki: Er þetta eigandi þinn? [Bendir á indíánann]
Hestur: Jamm.
Kúreki: Hvernig fer hann með þig?
Hestur: Nokkuð vel, þakka þér fyrir. Hann fer reglulega í útreiðartúra, kembir mér oft og lætur mig inn í hlöðu í skjól fyrir náttúruöflunum.
Indíáni: [Gjörsamlega hissa]
Kúreki: Er þér sama þó ég tali við kindina þína.
Indíáni: Nei nei kind ljúga , kind ljúga !!!
Hörður Hólm sagði…
Sæll Kári, já það er greinilega mikið af gæðafólki sem á þennan fæðingardag ;).
Gaman að sjá þig kvitta félagi
Kveðja Hörður

Vinsælar færslur af þessu bloggi