..::Skruppum á ströndina::..
Þá erum við enn og aftur komnir á leguna í Nouakchott að landa, komum hingað inn um tvöleitið síðastliðna nótt. Um sexleitið í gærmorgun byrjuðum við að vinna með Oríon og vorum að vinna við hann megnið af deginum.
Fraktarinn sem átti að vera mættur hingað í gærmorgun sveik okkur og mætti ekki fyrr en sjö í morgun svo við héngum og biðum eftir honum í fjórtán tíma, en það er nokkuð algengt hérna að klukkan gangi örlítið hægar en annarstaðar í veröldinni.

Í morgun var austan gola og sandmistur yfir svo skyggni var afar takmarkað, þessum sandmekki fylgdi óþægilega mikill hiti.
Það er ríkjandi norðanátt hérna og mjög sjalgæft að það séu aðrar áttir, austanátt er eiginlega sú sísta því þá kemur sanddrullan og hitinn beint ú Sahara.

Í dag var svo kompanískipið Heineste mættur og múraði á hina hliðina á fraktaranum svo nú erum við með fraktdósina á milli okkar.

Seinnipartinn í dag skruppum við Gummi svo á léttbátnum til hafnar að sækja pappíra og senda einn márann til læknis, eftir að því erindi var lokið renndum við norður með ströndinni og skoðuðum mannlífið á sandinum, þarna virtist vera mikið af fólki og ekki óalgengt að það væri að synda í sjónum.
Það er þó nokkuð af litlum bátum hérna og við hittum á það svæði þar sem þeir leggja upp, það var gaman að fylgjast með þeim þegar þeir voru að brimlenda þessum kænum enda kunnu þeir greinilega vel til verka.

Ég gleymdi myndavélinni í dag en ég geri ráð fyrir að fara aftur á morgun og þá tek ég myndavélina með.

Þegar þessar línur eru hripaðar er klukkan að verða níu að kvöldi og komið svartamyrkur, samt er hitinn enn 37°C og mikill sandur í lofti.

Mynd dagsins er af einum af þessum Márabátum, þetta eru fleyturnar sem þeir eru að róa á hérna, svo setti ég nokkrar myndir inn á myndasíðuna.

Þetta verður að duga ykkur núna ;).......................................

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þrír verkfræðinemar sátu saman og voru að rökræða það hver hefði getað hannað
mannslíkamann.


Sá fyrsti sagði, "Það hlýtur að hafa verið vélaverkfræðingur. Mannslíkaminn er
með allar þessar vogastangir, ása og hluti-vélaverkfræðingur hlýtur að hafa
hannað það allt".


Sá næsti sagði, "Nei það hlýtur að hafa verið rafmagnsverkfræðingur. Taugar og
vefir eru víraðir upp á flókinn hátt í heilann svo það hlýtur að hafa verið
rafmagnsverkfræðingur.


Nei sagði sá þriðji,"Þetta var byggingarverkfræðingur. Aðeins
byggingaverkfræðingur myndi leggja skólplagnir í gegnum leiksvæði".

Vinsælar færslur af þessu bloggi