..::Ætli þetta sé hálfnað????::..
Jæja þá er víst komið að því, X ár síðan ég kom organdi í heiminn.
Eftir minni bestu vitneskju þá fæddist ég í Sjóborg á Eskifirði 14mai 1967 og vó 18merkur.
Meira veit ég ekki um þennan merkisatburð, en ég geri fastlega ráð fyrir að það verði flaggað um allt land í tilefni dagsins.

Og svo við snúum okkur að því sem máli skiptir, við erum staddir suður í rassgati ásamt bróður Janusi, bróður Geysir var hérna líka fram á miðjan dag í dag en þá yfirgaf hann okkur blindfullur og stefndi fullum seglum í norður til Nouakchott í löndun.

Við komum hingað suður í gær og afrekaði ég það að splúndra tveim veiðarfærum þannig að Guðmundur trollgúrú skríkti eins og kát heimasæta eftir velheppnaðar mjaltir, förum ekki nánar út í mjaltirnar.
Ég taldi vissara að vera ekkert að nálgast netaspekúlantinn meðan mestu fagnaðarlætin yfir afrekum mínum gengu yfir.
Seint í gærkvöldi múruðum við svo saman við Geysi og hífðum nokkur bretti af umbúðum yfir til þeirra svo þeir gætu stappað í holuna sem þeir áttu eftir, Haddi er búin að vera í stuði undanfarið, skipið hjá honum var á nösunum eins og þefdýr í leit að æti.

Í morgun þegar ég svo drattaðist á fætur var hafflöturinn eins og heiðatjörn á góðum sumardegi, alveg ljómandi eins og Albert myndi orða það.

Þessi góðviðrisblíða hélst svo í allan dag og fjölmenntu Janusarmenn til okkar á tuðrunni í góðviðrinu, fyrst héldum við að þetta væri Senegalskur flóttamannaprammi sem væri að koma að síðunni, en svo þekktum við Svan og áttuðum okkur á því hverjir voru þarna á ferð, Steini var með þessi líka fínu sólgleraugun sem huldu að mestu á honum andlitið, ógerlegt var að átta sig á því hvað maðurinn var gamall ,) þetta var meira eins og að horfa framan á rútu með dökklitaðri framrúðu.
Arnar var eins og landkönnuður úr miðjum Amason frumskóginum, með þvílíku sveðjuna í beltisstað tilbúin að höggva sér leið.
Þeir stoppuðu hjá okkur nokkra stund en drifu sig svo yfir í Janus rétt fyrir kvöldmat, það er víst sjálftökuborð þar á sunnudögum sem ekki má missa af.
Ykkur til fróðleiks þá er hlaðborð “Sjálftökuborð” á Færeysku, mér finnst það eiginlega miklu flottara en okkar orð yfir þetta.

Í kvöld logaði svo hafflöturinn í grænu maurildi svo að öldurnar sem skipið myndaði, liðuðust lýsandi út frá skipinu í myrkrinu, þetta er ekki ósvipað glitrandi flaueli sem bylgjast út frá skipinu og ótrúlega flott að fylgjast með þessu í myrkri.

Jú og meðan ég man, hvað finnst ykkur um að Árni Jónsen sé komin inn á þing?
Ég segi nú bara eins og Reykhásinn ma ma ma ma bara skilur þetta ekki, ég er kjaftstopp yfir þessari vitleysu.

Mynd dagsins er af syni Ísmansins og Hafsteini skipstjóra á Geysi, svo eru nokkrar fleiri myndir á myndasíðunni.

Þá er þetta komið í bili.

Bið svo Guð og gæfuna að fylgjast með ykkur fyrir mig.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Já elskan mín það var flaggað um allt land þegar þú fæddist,(það var hvítasunnudagur) Í dag er líka flaggað um allt land (jafnaldri minn Ólafur forseti á afmæli) en náttúrlega lít ég svo á að flöggin seu þér til heiðurs,til hamingju með daginn elsku strákurinn,stórt knús úr Kríulandi.
Vonandi baka þeir handa þér fína köku :-)
Nafnlaus sagði…
Til hamingju með daginn ekm.(elsku kallinn minn)
Það er þá hér með staðfest að ég verð alltaf í kjölfarinu hjá þér hvað varðar árin.En það er bara eins og þeir segja í hjóla og sleðasportinu, fullt rör um ókomin ár.
Kv.
Mr.Steini
Nafnlaus sagði…
Til hamingju með daginn
Brynja og Bjarki Fannar
Nafnlaus sagði…
Til hamingju með daginn Hörður.
Vonandi útbýr Gummi sinn heimsfræga
Argentínu karamellu desert.Þer til
heiðurs i til efni dagsins.
kv pall k
Nafnlaus sagði…
Takk fyrir hamingjuóskirnar, ég trúi því nú varla sjálfur að ég sé komin á fimmtugsaldurinn en þetta er víst óumflýjanlegt.
Kv Hörður

Vinsælar færslur af þessu bloggi