..::Einhvernvegin svona var þetta::..
Það er þokkalegt hvað aldurinn hefur hitt mig í hausinn því eftir að ég komst á fimmtugs aldurinn hef ég ekki komið frá mér einum bókstaf hehe, en ég held samt að þetta komi aldrinum ekkert við, auðvitað er þetta bara leti.
Annars er búið að vera nóg að gera hjá mér undanfarið, við Rúnar erum búnir að hjóla þó nokkuð, t.d fórum við á Siglufjörð eitt kvöldið og vorum að renna í bæinn um áttaleitið, auðvitað átti að snara sér í sjoppuna og gamsa í sig eina pulsu en sjoppumenning Siglufjarðar var nú ekki merkilegri en það að það var búið að loka sjoppunni klukkan átta, Rúnar var með Prins Pólo í vasanum svo þetta reddaðist.
Á bakaleiðinni stoppuðum við í Ketilás og hittum þar tvo mótorhjólakappa frá Siglufirði, það var upplivelsi að hitta þessa kappa og veit ég að þessi litla uppákoma bjargaði hreinlega deginum fyrir Rúnari, förum ekki nánar út í það.
En annað merkilegt við stoppið í Ketilás var verðið á Bensíni og Dieselolíu, það er greinilegt að Ketilás er ekki með á nótunum þegar heimsmarkaðsverð á þessum okurvökvum eru uppfærð, þarna var þetta á gamla verðinu, bensín á 150kr og Diesel á 160kr sem var á þessum tímapunkti tæpum 15kr ódýrara en það sem ég hafði séð annarstaðar á landinu.

En þá á heimavöllinn!
Ég ákvað að smíða einn aukavegg á pallinn til að loka fyrir útsýni gesta og gangandi í götunni inn á pallinn hjá okkur, það tók einn dag að rusla þessu upp en mesta brasið var samt með festingarnar í stéttina, ég boraði 35mm göt í stéttina og ætlaði svo að steypa undirstöðuna fyrir staurinn fasta með hraðsteypu sem ég átti í skúrnum, eitthvað gekk það brösuglega því morguninn eftir var steypudrullan jafn blaut og þegar ég setti hana í deginum áður, og mátti ég skola allt burt og finna aðra leið til að festa þetta.
Þeir í Húsasmiðjunni bentu mér á eitthvað hraðþornandi boltalím sem var akkúrat það sem mig vantaði, þetta var þriggja þátta lím sem ég hrærði saman og smellti í holurnar og svo var bara að bíða, restin sem var í dollunni sjóðhitnaði eftir forskriftinni og varð eins og gler á klukkutíma en í stéttinni gerðist ekkert, þar var þetta jafn drullulint og þegar það fór í.
Ég fór að lesa betur utan á dósina sem bauð upp á upplýsingar á 5 tungumálum, flestu nema Ensku og Íslensku. Á endanum náði ég að klóra mig út úr þessu og sá að hitastigið sem þurfti til að þetta fína lím stirðnaði var 10-20°C, ég held að það hafi vantað eitthvað upp á það hitastig í stéttinni.
Nú voru góð ráð af skornum skammti því mér bráðlá á að þetta harðnaði, fyrst reyndi ég að velgja þetta með hárþurrku, það var dauðadæmt og þegar frúin sá hárþurrkuna sína í þessu verkefni var mér bent góðfúslega á það að ég væri í djúpum skít ef ég eyðilegði þennan fína hitablásara, gott að frúin veit ekki að þetta úrvalsapperat var notað til að þurrka raka úr mótornum á hjólinu forðum eftir að það sökk í ána.
Á þessum tímapunkti var ekkert annað í stöðunni en að fá lánað kósangasið hjá Rúnari, með gasinu var fljótlegt að velgja stéttina og þá harðnaði boltalímið á eðlilegum tíma.
Þegar undirstöðurnar voru í lagi var ekki nema dagsstund að koma veggnum upp.

Á föstudeginum var svo farið í hjólatúr í góða veðrinu, alltaf gott veður hjá okkur ;).
Við fórum inn allan Eyjafjörð og fram í Leynishóla með stoppi á tveimur sveitabæjum, helvíti góður túr og lágu 200km í valnum eftir daginn.

Laugardagur, rosalega gott veður, fór smá rúnt á hjólinu seinnipartinn ca 50km annars fór dagurinn að mestu í að chilla í sólinni og hafa það gott, setti upp einhver blóm á pallinn fyrir frúna og færði sjónvarpið fyrir komandi kvöldhátíð.
Um kvöldið var komið að Eurovision, en við ætluðum að vera með smá partý fyrir fjölskylduna og vinina, byrjuðum á því að grilla ofan í liðið en svo var horft á Eurovision, ekkert að því að koma saman og hafa gaman.
Auðvitað fór þetta öðruvísi en við vorum að vona, þetta var samt skemmtilegt kvöld og ég held að allir hafi skemmt sér vel.

Í dag sunnudag var enn og aftur brakandi blíða á Dalvík, grilluðum pulsur í hadeginu og svo dró ég Rúnar með mér út að hjóla eftir hádegið, við hjóluðum fram Svarfaðardal eins langt og við komumst, við vorum komnir upp fyrstu brekkurnar í Heljardalsheiði þegar snjórinn stoppaði okkur, það er enn mikill snjór á þessu svæði en hann hverfur fljótt þessa dagana enda 20°C hiti dag eftir dag, við hjóluðum svo yfir í Skíðadal og þar fram dalinn fram í Stekkjarhús, þar sáum við í gestabókinni að síðustu gestir þar höfðu komið í Apríl á snjósleðum, ég geri því ráð fyrir að við höfum verið þeir fyrstu sem keyrt hafa þarna fram eftir í vor, þ.e.a.s á hjólum.
Það lágu rúmir 80km í dag og ég keyri sennilega ekki meira á hjólinu þetta fríið því það er aðeins einn dagur eftir af fríinu mínu :(.

Mynd dagsins er tekin í Eurovision partýinu, við Rúnar í góðum gír á pallinum.

Setti svo inn einhverjar myndir á myndasíðuna.

Læt þetta nægja í bili.

Bið himnaföðurinn og alla hans fiðruðu fylgisengla að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niður komin.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Haehae, aetladi bara skilja eftir spor, eg fylgist med... (K) Elska thig og sakna thin...

Hafdu thad gott a sjonum (K)

kvedja snullulingur

Vinsælar færslur af þessu bloggi