..::Sandfréttir::..
3júlí um tvöleitið hættum við veiðum og dóluðum áleiðis inn á Nouadhibou leguna nánar tiltekið inn að bauju no2. Þar kláruðum við að frysta og byrjuðum svo að landa yfir í Omega Bay um fjögur leitið í gær.
Þær eru svipaðar þessar landanir, bara misjafnlega mikið vesen, en einhvern vegin siglir maður í gegn um þetta í lága drifinu.
Nú erum við að vinna með fraktskipi sem heitir Omega Bay og klárum hann sennilega ekki fyrr en í nótt, þá verður farið á annað skip og haldið áfram að landa þar, eftir það fáum við okkur einn sjortara á drottningunni Reinu ;) áður en haldið verður til veiða aftur.

Um miðjan dag í dag mætti lítill Rússatogari á hina síðuna á fraktskipinu til að landa, það er oft hundleiðinlegt að eiga við múringar hérna á legunni vegna straums og vinds og var það akkúrat þannig núna, við lágum þvert á vindinn og var straumurinn svo sterkur að litli Rússinn skrúfaðist upp að fraktaranum eins og hann væri með hliðarskrúfur að aftan og framan, það var ekkert hægt að gera og þegar þeir þrýstust saman þá spyrnti fríholtið á Rússanum lunningunni inn á fraktskipinu svo hún losnaði frá dekkinu og gekk inn á parti, ekki merkileg skemmd og þeir verða líklega fljótir að hífa þetta til og sjóða niður aftur.
Það er ekki óalgengt að þessir dasar nuddist eitthvað saman þegar verið er að reima þá saman við misjafnar aðstæður.
Þessi litli Rússatogari en eitt af mörgum systurskipa Odinkovu síðar Atlas, en það skip var eitt sinn í eigu Sæmundar Árilíusar og síðan vélsmiðjunnar Gjörfa í Reykjavík, þetta þótti ægilegur barkur í augum okkar Íslendinga, nú horfir maður yfir á þennan kopp og finnst hann óskaplega lítill og vesældarlegur.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér veiðar og annað við strendur vestur Afríku þá bendi ég á síðu sem ég rakst á í gærkvöldi http://www.industrialfishing.com/ þarna er margt fróðlegt um fiskveiðar í lögsögu Máritaníu.

Fyrri mynd dagsins fanst á netinu, ég gat ekki annað en skellt upp úr yfir bjartsýninni í Gíraffanum, hann fær fullt hús fyrir viðleitni ;);).
Seinni mynd dagsins er tekin þegar litli Rússinn þrýsti sér upp að Omegu Bay.

Læt þetta duga í dag.
Bið þann sem öllu ræður og stjórnar að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niðurkomin ;).

Ummæli

Nafnlaus sagði…
æ farðu nú að blogga,ég er orðin leið á þessari mynd,knús úr Kríulandi

Vinsælar færslur af þessu bloggi