..::Það gefur auga leið!::..
Þegar ég staulaðist á stjórnpall í morgun benti stýrimaðurinn mér á að það væri eitthvað athugavert við annað augað í mér, þetta hafði alveg farið fram hjá mér þegar ég burstaði tennurnar í morgun, enda þarf ekki mikið að spegla sig við þá iðju.
En þar sem það var greinilega eitthvað athugavert við ásjónu mína þá var ekki undan því skorast að kíkja á hvað mönnum þætti svona merkilegt, þegar ég leit í spegilinn þá sá ég að það hafði sprungið æð í öðru auganu og var það aðeins rauðleitt, ekki merkilegur skaði að mínu mati og fannst ekki ástæða til að fjasa meira yfir þessu.

Vaktfélagi minn linnti samt ekki látum fyrr en hann hafði þvingað mig til heimsóknar til læknisins, þessi heimsókn var hvalreki á annars rekalitlar fjörur doksa, nú fann karl til sín og dró fram augndropa sem hann tjáði mér að ég yrði að pumpa í augað á klukkustundar fresti það sem eftir væri dags.

Ég þakkaði lækninum fyrir og kvaddi sæll og glaður með dropana fínu í vasanum.
Þegar ég mætti aftur á stjórnpall þá beið vaktfélaginn spenntur yfir niðurstöðu læknisheimsóknarinnar, ég sagði honum að læknirinn hefði mælt með að ég borðaði meira af ávöxtum.
Auðvitað sagði félaginn HA! við þessu læknisráði.
Ég útskýrði þá fyrir honum að læknirinn teldi að ávaxtaátið myndi minnka álagið á augun þegar ég riði um á postulínshestinum ;).

Annars hef ég ekki hugmynd um hvernig stóð á því að augað varð svona, það var bara svona þegar ég vaknaði í morgun. Úr draumaheimum man ég að ég var eitthvað að basla austur á Eskifirði síðustu nótt, þar var ég í slagtogi með Bubba Morthens en það fór allt friðsamlega fram og ekkert box í gangi.
Við vorum aftur á móti í bölvuðu basli með að finna skipið sem ég var á, ég ætlaði að sýna Bubba skipið en af því varð ekki því ég fann aldrei skipið :):).

Annars er ekki mikið að frétta af okkur hérna sunnan siðmenningar, þó erum við farnir að sjá fyrir enda á þessari veiðiferð, ef vel gengur þá ætti þetta að hafast af að mæða lestarnar fullar á næstu tveim þrem dögum.

Jamm og jæ þetta verður að duga í bili.

Vona heitt og innilega að heilladísirnar verði að stússast með ykkur í baslinu, ekki veitir af þessa síðustu og verstu tíma.......

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Já þetta er ljótt að sjá,en verður vonandi orðið gott þegar við hittumst næst.Ég vona að ferðin norður færi mér einhverja bót minna meina.Vona bara að flugið fari nú ekki að klikka á fimmtudaginn.knús úr Kríulandi
Ásdís sagði…
Heldurðu að Vírus sé nokkuð með "Bubbastæla" í svefni??? :)

Kveðja úr Garðabænum
Nafnlaus sagði…
Nei held ekki :):)

Vinsælar færslur af þessu bloggi