..::Á ferð og flugi::..
Ferðalagið heim gekk vonum framar, við fórum systurskipi Síriusar upp til Dakhla, þar vorum við ferjaðir á gúmmíbát yfir í Oríon sem er lítið fraktskip í eigu fyrirtækisins.
Oríon er lítill og afllítill en hefur sinnt sínum verkefnum stórslysalaust.
Ég tel að litla greyið henti frekar til siglinga á litlum innhöfum eða á vötnum frekar en til úthafsflutninga í Norður Atlandshafi en greinilega voru fyrri eigendur fyrirtækisins ekki á sömu skoðun og ég. Orion skilaði okkur upp að bryggju í Dakhla athugasemdalaust og satt best að segja hreifst ég af aflinu í bógskrúfunni á honum þegar Eiríkur kapteinn var að möndla greyinu upp að.
Það gekk fljótt og vel að koma okkur í upp á flugvöll og þaðan flugum við í einum hlandspreng yfir til Cran Canary, í ferðinni með okkur yfir var fjölskylda frá Marocco, þrjár kerlingar og einn karl.
Segir nú ekki frekar af ferðum okkar fyrr en við komum í flugvallarrútuna, við vorum flestir komnir inn í rútuna þegar Marocco maðurinn mætti með sínar konur, hann var rétt búin að troða öllu kvonfanginu inn í rútuna þegar Eddi vélstjóri á Betunni mætti, það var eins og prinsinn á hvíta hestinum hefði mætt á svæðið og virkaði koma hans þannig á dömurnar að fæturnir undir þeirri elstu gáfu sig og lyppaðist hún í gólfið og lá þar fyrir hunda og manna fótum þangað til hún var reist við eftir bílferðina. Eddi lét þessa uppákomu ekki slá sig út af laginu enda sjálfsagt vanur þessum viðbrögðum hjá kvenfólki þegar hann birtist óvænt.

Á vellinum beið rúta eftir okkur sem skutlaði okkur upp á hótel og vorum við komnir þangað um 11 leitið, ég skutlaði draslinu upp á herbergi og fór svo niður í móttöku, þar hitti ég Valda AllaValda og fórum við félagarnir og fengum okkur sjávarrétta Paella, hef smakkað þær betri en þetta var ágætt.
Eftir matinn fórum sótti Egill Helgi okkur og fórum við með honum niður á skrifstofu og þaðan niður í slipp þar sem Reina (nýja fraktskipið) gengst undir miklar endurbætur, þar hittum við Þórmund kaptein og Frímann vélstjóra. Eftir skoðunarferð um skipið var komin tími á að skreppa upp á hótel og baða sig, skola af sé ferðarykið og drulluna, ég náði að sofna í baðinu og vaknaði við hroturnar í sjálfum mér, fín síesta þótt hún hafi verið full sein.

Um kvöldið fjölmenntum við félagarnir svo út að borða og var tekið vel á móti matnum, var ég nánast afvelta af ofáti þegar ég staulaðist upp á herbergi saddur og sæll.


Mætti í Móttökuna aftur um miðnætti og var lagt af stað út á völl um hálf eitt, flugið heim gekk fínt, þrjár vélar tvær Spænskar og ein Íslensk.

Íslenska vélin var langbest enda hafði ég þrjú sæti fyrir mig og gat lagst fyrir og dormað á leiðinni, missti meira að segja af matnum en flokka það samt ekki sem mikinn skaða.

Við vorum lentir í Kef klukkan 15:30 16okt, það beið eftir okkur bíll á vellinum sem ferjaði okkur á höfuðborgarsvæðið í Íslensku haust veðri.

Ég var svo ljónheppin þegar ég mætti á Reykjavíkurflugvöll að það var vél á vellinum sem var á leiðinni norður, það var laust með henni svo ég henti farangrinum á bandið og skottaðist út í vél, 35mín seinna lentum við á Akureyrarflugvelli.
Alltaf jafn gott að koma heim.................................

Læt þetta nægja núna.
Bið Guð og gæfuna að fylgja ykkur.............................

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hérna er svo einn kreppubrandari:

Gamla fólkið á elliheimili úti á landi var orðið afar þrúgað og meðtekið af efnahagsbölsýnissíbyljunni í fjölmiðlunum.
Forstöðukonan hafði miklar áhyggjur af þessu.

Í morgun var leikfimi á heimilinu. Forstöðukonan bað íþróttafræðinginn að vera nú heldur á léttu nótunum og fyrir alla muni ekki minnast á efnahagsmál eða þrengingar.

Þetta væri alveg að fara með gamla fólkið.

Íþróttafræðingurinn sagði það ekki nema sjálfsagt.

Svona hóf hann tímann:

"Kæru vinir! Í dag byrjum við á mjög léttri æfingu. Við réttum hendur út frá hliðunum, beygjum olnbogana og bönkum flötum lófum létt á bringuna, síðan réttum við úr höndunum og kreppum snöggt hnefana og endurtökum allt aftur og aftur," og svo hrópaði hann:

"Koma svo! Banka - kreppa, banka - kreppa, banka - kreppa......!"

Vinsælar færslur af þessu bloggi