..::Þegar ég tók Svenna til altaris:::.
Þá styttist í enn eina löndunina í Nouakchott, en í dag er síðast veiðidagurinn í þessari ferð.
Svo kemur löndun með öllum sínum plúsum og mínusum, oftast eru plúsarnir fleiri en mínusarnir en svo snýst þetta stundum við og maður verður þáttakandi í einhverjum harmleik þar sem fáfræði græðgi og spilling ræður ferðinni.
En þetta er allt partur af programmet og ekkert við því að segja, annað en að reyna að brosa gegn um tárin og vona það besta.

Maður hugsar oft til þeirra dásemdaaga sem maður heyrir af þegar skipin lönduðu á miðunum, engin her og ekkert vesen, bara plug and play!
Var virkilega allt svona gott í gamla daga?
Nema kannski að þá var allt í svarthvítu :):).
Annars held ég að manshugurinn eigi sinn þátt í að fegra fortíðina full mikið, ég er t.d alltaf að heyra sögur af því hvernig þetta var hérna einu sinni, alltaf mok veiði og skipin í vandræðum vegna aflans, samt segja tölurnar að veiðin hafi stigmagnast og aldrei verið meiri en á síðasta ári.
Já fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.

En þá að máli málanna:
Árið 2010 verða liðin 30 ár frá því að ég og bekkjarsystkin mín fermdumst í Guðhúsinu á Eskifirði, Davíð prestur framkvæmdi þá aðgerð og held ég að það hafi tekist bærilega þrátt fyrir allt og allt.
Það er nú farið að fenna yfir flest sem þessu tengdist í mínum huga þótt enn sitji nokkur skondin atvik eftir.
T.d er mér það minnisstætt þegar fermingarfræðslan fór fram, við áttum að leika einhvern helgileik og flestir krakkarnir voru komnir í sín hlutverk, ég og Svenni Guggu vorum tilbúnir inni í skrúðhúsinu og áttum að mig minnir að leika einhverja hirðingja.
Eitthvað tafðist uppstillingin hjá Davíð svo ég fór að skoða hvað hans há-æruverðugheit geymdi annað í skrúðhúsinu en hempuna, jú viti menn þarna geymdi hann messuvín í kassavís sem var alls ekki svo slæmt á bragðið, þar sem biðin var lengri en þolinmæði mín þá notuðum við tímann og tókum hvorn annan til altaris nokkrum sinnum félagarnir, svo kom kallið og við settum tappann í og stauluðumst fram eins og nýhreinsaðir hundar belgfullir af blóði Krists ;).
Á fermingar ári mínu var það var í tísku að vera í Cowboy stígvélum og enginn maður með mönnum nema vera í þessháttar skófatnaði, mamma hafði pantað á mig fermingarfötin upp úr Quell og passaði þetta allt sæmilega nema stígvélin þau voru full þröng þótt ég hafi varla staðið fram úr hnefa á þessum árum, kannski hefur mælingin eitthvað mislukkast hjá múttu eða ég stækkað meira en ráð var gert fyrir, hvað sem því líður þá fermdist ég í stígvélunum þótt þau væru of lítil, ég held barasta að við höfum allir fermst á stígvélum strákarnir.
Einn okkar tók þó öðrum fram í glæsileik er hann stautaði upp að altarinu með aðra buxnaskálmina gyrta ofaní stígvélið og hina utanyfir.

Mér finnst einhvernvegin komin tími til að við komum saman bekkjarsystkinin úr árgang 1967 á Eskifirði og gerum okkur dagamun, rifjum upp gömul prakarastrik og tengjum löngu slitin bönd.

Læt þetta mas duga í bili.
Bið þann sem öllu ræður og stjórnar að vera okkur innanhandar í hringiðu lífsins.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Á fermingardaginn.
Í fermingjarveislunni eftir athöfnina spurði einn gestanna fermingarbarniðð hverni því hefði svo þótt athöfnin?
Ahh jú þetta var allt ágætt svaraði barnið, ja nema altaristöflurnar þær voru ógeðslega vondar :):)
Nafnlaus sagði…
Þú hefur aldrei sagt mér söguna um messuvínið,gaman að þessari frásögn,held það yrði glatt á hjalla ef þessi hópur hittist,...rámar eitthvað í að þið hafið einhverntíma mætt öll á skíðaklossum í fermingarfræðsluna,það fór víst ekki vel í Davíð.
Nafnlaus sagði…
Já ég er að heyra ýmislegt hér í fyrsta sinn..:-) og hafði gaman af eins gott að börnin þín eru komin til vits og ára svo að þau fara ekki að apa upp eftir þér því ég er ansi hrædd um að þetta sé ekki það eina !!!!! þetta goppast upp úr þér með árunum :-)hlakka til að heyra meira hehe... knús og koss Guðný

Vinsælar færslur af þessu bloggi