..::Eins og það hafi gerst í gær::..
Nú er litli guttinn minn orðin 16 ára og daman 20 ára, mér finnst það svo stutt síðan þau fæddust. Mér finnst líka stutt síðan ég var að spá í hvar ég yrði að gera árið 2000, og stutt síðan ég fermdist hehe.
Já það er ótrúlegt hvað tíminn æðir áfram og minningarnar halda áfram að hlaðast inn á harða diskinn, sumt fennir fljótt og örugglega yfir á meðan annað stendur upp úr skaflinum, oftast eru það skemmtileg og skondin atvik sem lifa í minningunni á meðan það leiðinlega hverfur á vit gleymskunnar.

Það væri örugglega þess virði að setjast niður einhvertímann og skrifa eitthvað af þessum minningum niður, en sumt þolir illa dagsins ljós og fær því að hvíla um sinn í sínu dái, annað þolir betur opinberun ;).

Þegar ég var unglingur var ekki svo mikið verið að hugsa um að hafa ofan af fyrir krökkunum, það var engin félagsmiðstöð og lítið sem ekkert gert að hálfu bæjar eða skólayfirvalda.
En við urðum að hafa eitthvað fyrir stafni því engar voru tölvurnar og ekki nema ein sjónvarpsrás.
Við héngum í sjoppunum þangað til okkur var hent út fyrir læti og þá var litið um húsaskjól fyrir krakkaskrílinn.
Það var þó í bænum skólabygging sem hafði verið ótal ár í byggingu og virtist ekkert á leiðinni að klárast, hálfgert steinsteypu musteri engum til gagns en nýttist ágætlega sem afdrep þegar okkur var úthýst úr sjoppunum. Þarna réðum við okkur sjálf og engin að skipta sér af því þótt við værum að flækjast þarna. Ekki man ég eftir því að það hafi verið nein stór vandræði þótt við hefðum nýtt þetta húsnæði sem leiksvæði, svona fyrir utan einn og einn hengilás sem óvart datt í sundur og mynd af brjóstgóðri konu sem ég sprautaði óvart á vegg með tectil brúsa sem einhverra hluta vegna var við höndina. Kiddi smíðakennari dró mig löngu seinna á eyranu inn að málverkinu og benti mér á að nú væri búið að mála vegginn fimm sinnum og sú brjóstgóða birtist alltaf aftur, það var til einskins að þræta, framlag mitt í myndlist til skólans opinberaðist aftur og aftur og Kiddi kunni greinilega ekki að meta þessa síendurteknu list ;).

Ég held að það sé gróflega vanmetið hversu mikils virði það er að hlúa að börnum og unglingum og útbúa einhverja aðstöðu og afdrep þar sem þau geta rasað út, það eru ekki allir krakkar sem hafa gaman af fótbolta eða skíðum, en myndu fegin vilja gera eitthvað annað.
Það er ótrúlega mikið af alls kyns jaðarsporti sem víðast hvar fær engan hljómgrunn nema fyrir bæjarstjórnarkosningar, þá vantar ekki kjaftavaðalinn og stóryrðin en svo gerist bara ekki neitt.
Svo er fólk steinhissa á að það brotni ein og ein rúða, það bölsóttast yfir ólátagemlingunum og er löngu búið að gleyma því að það sjálft hafi einu sinni verið barn sem kannski braut eina rúðu bara af því að það hafði ekkert fyrir stafni ;).

Og þá er komið að nútíðinni.
Við lukum við löndun 21 og fórum í framhaldinu í umbúða og vistatöku.
Reyna beið okkar á legunni og eftir múringu við hana var hafist handa við að hífa góssið yfir, því var ekki lokið fyrr en 0045 utc en þá dugguðum við af stað til veiða, klukkan þrjú var trollinu rúllað út og leit út fyrir að allt yrði í lukkunnar velstandi, en trolldræsan var varla komin út þegar höfuðmótorinn neitaði að taka þátt í að draga ferlíkið á eftir sér og upphófst þá löng og ströng þrautaganga í að mæða trolldræsuna um borð aftur, það hafðist klukkan 0600.
Höfuðmótorinn var settur í læsta hliðarlegu næstu tvær stundir á meðan sérfræðingar héðan og þaðan úr veröldinni reyndu að finna út hvað olli vandræðunum. Í ljós kom að það var farið prentbretti/kort í stjórnbúnaði aðalvélarinnar sem olli því að hún hélt að hún væri að ofgera sér og þyrfti nauðsynlega að taka því rólega um sinn. Vélagengið krukkaði eitthvað í þetta dót og svo var reynt aftur, nú gekk örlítið betur þótt ekki væri um full afköst að ræða.
Við náðum að dröslast með þetta svona eitt hol, Það var því ekkert að vanbúnaði að reyna aftur.
Nú var líka orðið ljóst að hvergi var hægt að fá þetta kort í nágrenninu, kortið er bara til í Norge og gæti verið komið til Íslands/Palmas á næsta mánudag.
Eftir 3 tíma tog ákvað vélin að nú væri komin tími á smá pásu og skellti sér samstundis í hvíldarstöðu, sló skrúfuskurðinn niður í 20% áfram sem dugði okkur til að halda 1sml toghraða.
Þetta var greinilega ekki að ganga upp svo það var ekki annað í stöðunni en kúpla neyðarkeyrslunni inn, en þá er fína Wartsilla kortakerfið óvirkt og framdrifi skipsins stjórnað með tveim tökkum. Þannig verður þetta keyrt þangað til Gyðingar norðursins verða búnir að senda okkur annað kort.

Læt þetta bull nægja í bili.
Vona að heillardísirnar verði með okkur öllum í baslinu....

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi