Föstudagur:
Föstudagurinn var ansi skemmtilegur, eftir hádegið komu Jakob Kristbjörg og Þórkatla í heimsókn en stoppuðu stutt, svona rétt til að koma magavöðvunum á stað.
Eitthvað er í burðarliðnum að þau flytjist hreppaflutningum austur í Bárðardal en einhver þoka liggur samt yfir því ennþá, það væri fínt að fá þau í nágrennið aftur ;).
Um kvöldmatarleitið duttu svo Mamma og Pabbi inn úr dyrunum og enn seinna komu svo Haddó og Gunni. Ferðalangarnir voru frekar þreyttir eftir ferðina og að allt var komið í ró á kristilegum tíma.
Laugardagur:
Vöknuðum um níu og var byrjað á að hlaða því í bílinn sem eftir var að ganga frá fyrir útileguna, Mamma og Pabbi fóru inn á Akureyri á undan okkur en við hossuðumst af stað upp úr ellefu, það þurfti að fylla á gaskútinn, fara í mjólkurbúðina, rúmfatalagerinn og eitthvað smálegt áður en haldið var í Vaglaskóg, þegar við svo komum þangar tók stutta stund að velja hentugt bæjarstæði, og hálftíma seinna voru tjaldbúðirnar komnar upp.
Þá tók við uppsetning á partítjaldinu sem Haddó og Gunni keyptu, var okkur feðgunum tilkynnt að Haddó ætlaði að setja þetta upp sjálf og þetta yrði ekki eins og þegar hún fékk Barbíbílinn um árið, en við frekjuðumst víst í að setja hann saman og hún fékk víst ekki einu sinni að setja límmiðana á, “Úbbs hólmarar” en fljótlega gleymdist þetta og voru allir sem vettlingi gátu valdið komnir í að setja saman og um síðir komst tjaldið upp. Partítjaldið var náttúrulega það sem reddaði kvöldinu ;).
Um kvöldið eftir gríðarlega grillveislu var farið í kvöldgöngu um skóginn, eftir það var setið í partítjaldinu og spallað fram yfir miðnætti en þá fóru allir í bólið.
Sunnudagur:
Vorum komin á fætur um níu og það var gjörsamlega steik, “sólin bakaði niur” við fórum í göngutúr yfir í þjónustumiðstöðina og fengum okkur ís.
Svo voru grillaðir hammarar og upp úr því fórum við að tína saman dótið í rólegheitunum, Mamma og Pabbi sigu af stað austur um þrjúleitið og við fórum um fjögur.
Varð Vaðlaheiðin fyrir valinu, vegur sem ég hafði ekki keyrt í sextán ár, en hann var í fínu lagi og fær hvaða bíl sem er, þetta er 20km styttra en Víkurskarðið og útsýnið yfir fjörðinn er alveg magnað.
Á Akureyri skyldum við svo við Haddó og Gunna og spóluðum heim á Dalvík endurnærð eftir helgina ;).
Eitthvað verður svo hægt að rifja upp frá þessari helgi því að það voru þrjár stafrænar myndavélar á lofti alla helgina og mér skilst að það hafi verið skotið eitthvað nálægt 500myndum.

En nóg um helgina, og hér er eitthvað fyrir magavöðvana ;):

Kennarinn var að setja fyrir skriflegt heimaverkefni. Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi verkefnisins og sagði nemendunum að engar afsakanir væru teknar gildar nema alvarlegir og hugsanlega banvænir sjúkdómar (staðfestir með læknisvottorði) og dauðsfall í fjölskyldunni (með sérstakri handskrifaðri tilkynningu frá þeim látna). Jónas, sem aldrei gat setið á sér í tímum gall þá við:
„En hvað með alvarlega kynferðislega ofþreytu?“
Bekkjarfélagar hans hlógu dátt að þessu gullkorni Jónasar og þegar um hægðist svaraði kennarinn „Þá verður þú, Jónas minn, að læra að skrifa með hinni hendinni.“

Og einn svona í restina ;):

Yfirstjórn fyrirtækisins var óð. Þeir höfðu komist að því að starfsmennirnir voru farnir að misnota veikindaleyfin harkalega. Allir starfsmenn voru kallaðir á fund með stjórmninni og þar var þeim lesinn pistillinn.
Starfsmennirnir vildu alls ekki kannast við það að þeir væru að misnota veikindaleyfin, þó að sumir hverjir væru örlítið niðurdregnir, sérstaklega stúlkurnar á skrifstofunni. Til að sanna sitt mál dró forstjórinn upp Moggann frá því daginn áður og þar á íþróttasíðunum var stór mynd af Jónasi þar sem hann hafði unnið golfmót með ótrúlega lágu skori.
„Þessi maður,“ þrumaði forstjórinn, „ hringdi í fyrradag og sagðist vera veikur!“
Þögnin í salnum var þrúgandi þar til Guðmundur sagði stundarhátt „Vá maður, hvaða skor ætli hann hefði geta fengið ef hann hefði ekki verið veikur?“

Látum þetta duga í dag.
Bið himnaföðurinn að líta til með ykkur.
><((Hörður))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi