..::Ferðalok farangursins::..
Farangurinn minn var mættur til Dalvíkur eldsnemma í morgun, þetta var náttúrulega snilld því að þar leyndust hlutir sem búið var að bíða eftir :).
Ég setti handhlífarnar á hjólið og mátaði nýju stígvélin, svo var sparkað í gang og farin smá prufutúr. Ekki líkaði mér vel við stígvélin en maður var eins og tréhestur í þeim og kom ég fljótlega heim til að skila þeim af mér, en kannski gerir maður aðra tilraun með þau seinna :). Ég brunaði svo sem leið lá út í Múla en þar sem vegurinn er í sundur þá fór ég göngin út í Ólafsfjörð, þar fyllti ég upp af eldsneyti og setti svo stefnuna á Lágheiðina með smá útúrdúrum hingað og þangað. Á Lágheiðinni voru miklar vegaframkvæmdir, ég skil það nú ekki alveg hvað er verið að punga peningum í Lágheiðina!, á ekki að fara að eyða 7miljörðum í Héðinsfjarðargöng ? Göng sem gera þennan Láheiðarforarslóða nánast óþarfan. En hvað sem því máli líður þá hossaðist ég yfir heiðina og yfir í Fljótin niður að stíflu en þar snéri ég við, á bakaleiðinni tók ég svo smá útúrdúra og kíkti á nokkra vegslóða sem ég hafði ekki farið áður. Þegar heim kom eftir ágætis hjólatúr áttaði ég mig á því að skráningarnúmerið sem ég skrúfaði á í gær var horfið, huh! frekar ergilegt en ég nennti engan vegin að fara þetta allt aftur til að leita að númerinu sem óvíst væri að ég fyndi, það verður bara að panta sér nýtt númer. Númerasmíðin ætti að skapa einhverja vinnu fyrir vesalings ógæfumennina á Hrauninu, mér skilst að þeir útbúi þetta á Hrauninu hahumm.
Fleira var það ekki í bili ;);).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi