..::Útilega::..
Á föstudaginn var kúrsinn settur á Vaglaskóg þar sem við vorum búin að koma okkur fyrir um 4leitið í þvílíku blíðunni, sólin glennti sig á alla kanta og þetta gat ekki verið betra. Veðrið hélst svipað þangað til við fórum að huga að kvöldmatnum, en á meðan við grilluðum pylsurnar þá vindaði aðeins, það gekk þó stórslysalaust og það var komið koppalogn fljótlega aftur, það var fámennt en góðmennt í skóginum og frekar rólegt yfir þessu, við húktum á löppum fram undir ½ tvö en þá var skriðið í pokana, við vorum varla komin inn í tjald þegar byrjaði að hellirigna, og það buldi á tjaldinu fram til 4um nóttina en þá stytti upp.

Á laugardagsmorgun var svo ágætisveður þótt sú gula næði ekki í gegn um skýjaþykknið, ég fór í smá æfingarakstur með Hjördísi en svo var stefnan sett á Húsavík, þegar þangað kom var sú gula búin að troða sér í gegn og veðrið yndislegt, við ákváðum að kíkja á Hvalasafnið sem var alveg frábært, kannski hefði mátt gefa sér aðeins betri tíma því þarna voru kvikmyndasýningar sem við gáfum okkur ekki tíma til að sitja yfir, en safnið er frábært og það er ótrúlega gaman að skoða hval-beinagrindurnar sem þeir eru búnir að setja upp í fullri stærð.
Þegar við vorum búin að skanna Hvalasafnið söddum við hungrið í sjoppunni áður en áfram var haldið í safnaskoðun, en svo vill til að hið merkilega safn Reðursafn Íslands er einmitt til húsa á Húsavík, það var náttúrulega ekki hægt að sleppa því fyrst hingað var komið. Ég veit eiginlega ekki hvaða væntingar ég gerði varðandi þetta safn og eða hverju ég bjóst við, en þetta var merkilegt engu að síður. Persónulega var þetta meira svona fræðilegs eðlis, hin og þessi tippi í glerílátum á kafi í formalíni, litlaus og oftar en ekki frekar drusluleg. En þarna var einnig eitthvað aðra safnmuni :), ásamt því að safnvörðurinn var uppfullur af fróðleik og vildi allt til þess gera að maður bætti sig einhverri vitneskju við um þessi líffæri. Ég verð nú að játa að ég fór fróðari út en inn svo ekki hefur maður vitað mikið hehe. En merkilegasti safngripurinn fannst mér vera hurðarhúnn sem safnvörðurinn hafði tálgað og komið fyrir á hliðarinngangi í safnið, ekki þarf að taka fram hverju þessi húrðarhúnn líktist.
Eftir þessa Museum veislu á Húsavík var brunað upp í Mývatn, á leiðinni þangað blöstu við heilu breiðurnar af Lúpínu sem búið er að sá í Hólsandinn, þetta var alveg ótrúlega flott og vonandi að það hafist að græða þetta upp á endanum.
Við skelltum okkur svo í Jarðböðin og dömluðum þar góða stund, alveg frábært að svamla þar þótt mér fyndist verðið vera í hærri kantinum.
Þegar við vorum búin að marinera okkur í jarðböðunum var svo damlað af stað í skóginn aftur, en nú voru englar himins farnir að tálfella og þegar við komum í skóginn helliringdi. Það sem reddaði okkur frá druknun var að kunningjafólk okkar var nýbúið að fá bústað steinsnar frá og bauð okkur að koma þangað og gista, draslið var rifið upp í einum hvelli, hundblautt og ógeðslegt og brunað í bústaðinn það sem við gistum í góðu yfirlæti.

Sunnudagsmorgun, gott að vakna í þurrum og hlýjum bústaðnum. Það blasti við dumbungur inni í skógi og ég er ekki frá því að einhver hafi tárfellt yfir þá sem þar gistu.
Við skruppum svo aðeins í heimsókn til frændfólks Guðnýjar sem býr í sveitinni rétt hjá Vaglaskógi áður en við brunuðum heim. Það rigndi á Dalvík þegar heim var komið svo að við urðum að hengja tjöld og annan viðlegubúnað til þerris inni eftir velheppnaða útilegu helgarinnar :):).
Í kvöld skrapp ég svo í Ólafsfjörð og heilsaði upp á Þorbjörn vin minn, það var svartaþoka og rigningarsuddi á milli og maður prísaði sig sælan yfir því að þurfa ekki að liggja úti í tjaldi núna.

Þá verður þetta ekki lengra í bili.
Bið góðan Guð að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niðurkomin....:)

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi