..::Guggnaði undan farginu::..
Þetta er náttúrulega ekki hægt, og ekki er hægt að segja að þetta sé hratt ;).
Dagurinn í dag var svo sem ágætur ég var að mestu leiti heimavið, en um miðjan daginn skrapp ég í smá heimsókn í Bjarmann, það var alveg frábært og var ég ekki svikinn af þeirri heimsókn, höfum ekki fleiri orð um það hérna, frekari upplýsingar fást í beinlínusambandi við mig sjálfan ;);).
Það var alveg rosalega fallegt veður í morgun og svignuðu trén undan snjónum sem sest hafði á þau í nótt og morgun, ég ætlaði nú að taka myndir af þessu en var ð of værukær því um hádegisbil hvessti og þá fauk þetta allt af.
Því miður var einhver þvottur á útisnúrunni, þvottur sem var sligaður undan snjófarginu. Vesalings útsölu Álsnúrurnar hölluðu undir flatt þegar það vindaði, þetta var náttúrulega bölvað drasl sem kostaði lítið, en ég var nú samt að vona að þetta dygði lengur.
Þessi niðurstaða var ekki til að auka álit mitt á þessum auma málmi sem kallast ÁL, en álið á að bjarga öllu á mínum uppeldisslóðum fyrir austan svo kannski er það ekki alslæmt þótt það sé frámunalega lélegt.
Það var ekkert annað að gera en að rykkja þessu niður og taka snúrurnar inn í bílskúr, þar fengu þær skoðun sem leiddi til þess að ég ákvað að reyna að tjasla í þær. Saga bora skrúfa og skera og ég hef trú á að þetta verði nothæft aftur, nú vantar bara fjórar skrúfur og þá get ég lokið við þetta snúrubasl ;).
Í kvöld fórum við til Ninnu og horfðum á Idolið, þar voru Brynja og Bjarki líka.
Það er alltaf meira fjör að horfa á eitthvað svona saman “gaman saman!!”.
Við vorum náttúrulega ekki sammála dómnefndinni í restina, okkur fannst að ein þeirra sem send var heim hefði átt að vera áfram, en þetta eru nú einu sinni sérfræðingar í faginu sem sitja í þessari dómnefnd og það verður að sætta sig við það :).
Læt þetta duga í dag.
Skríðið, gangið, hlaupið eða staulist á Guðsvegum, allt eftir því hvað ykkur hentar...................

Hvað þekkirðu mig vel??

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi