..::Heitt!!::..
Héðan er ekki mikið að frétta, gærdagurinn slapp fyrir horn og endaði ágætlega þótt á tímum liti út fyrir að þetta yrði einhver harmleikur.

Það var dagur tvö í gær hjá drengjunum mínum í að koma nýjum netsonarkapli á kapalvinduna, það verk hefur tekið mun meiri tíma en okkur grunaði og því miður þá er því ekki lokið enn, en vonandi hefst það fyrir páska hehe.

Seinnipart gærdagsins ákvað lágtíðniasdikið að hætta útsendingu í lit, og fyrir valinu varð mjög mjög daufur grár litur, þótt við félagarnir beittum okkur öllum þeim viljastyrk sem við bjuggum yfir þá var ekki nokkur leið að lesa nokkuð út úr því sem á skjáinn kom.
Þetta var nú ekki það sem við þurftum, því var farið á fullt í að finna út hvað væri eiginlega að, ekki voru það afnotagjöldin því það var allt í lagi og reikningurinn löngu greiddur.
Þá var ekkert annað eftir nema tæknihliðin, við félagarnir byrjuðum á að útiloka það sem okkar kunnátta bauð upp á, það var ekki stórt og fólst aðallega í endursetningu á apperatinu, svo prufuðum við annan skjá og fórum yfir kapaltengingar en allt kom fyrir ekki.
Þarna vorum við komnir á endastöð og ekkert annað í stöðunni en að hringja í Steina tækjamann og grafa í viskubrunn hans um hvað væri nú til ráða.
Steini hafði ekki miklar áhyggjur af þessu og taldi að þarna væri mínimum vandamál á ferð, svo leiðbeindi hann mér í gegn um frumskóg sem mér hefði með öllu verið ófær án hans.
Með skrúfjárni og öðrum skjá sem tengdur var í iður tækisins tókst að koma þessu af stað aftur, nú gátum við félagarnir tekið gleði okkar á ný, blindir fengu sýn á ný og öll dýrin í skóginum voru glöð og kát.

Það hefur verið heitt hérna hjá okkur undanfarið, logn og hiti, sem betur fer þá burrar loftkælingin okkar sem aldrei fyrr því annars væri nánast ólíft hér fyrir hitasvækju.
Hitinn fór t.d í 49°C inni Nouakchott fyrir nokkrum dögum, en hitinn fer aldrei svo hátt hérna úti í sjó, samt getur orðið óbærilega heitt utandyra þegar logn er og sólin bakar niður.

Mynd dagsins er af loftkælibúnaði sem félagar okkar á næsta skipi gæfu mikið fyrir að hafa síðustu daga, hjá þeim stoppaði loftkælinginn fyrir langa löngu.
Ekki veit ég hvernig þeir félagar þrauka en það er ótrúlegt hvað mannskepnan er aðlaganleg að hinum ýmsu aðstæðum.

Læt þetta duga í bili.
Bið engla Guðs að blaka vængjum yfir okkur, fínt að fá kælinguna ;).

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi