..::Stutt gaman en skemmtilegt ;)::..
Það er löngu komin tími á að pikka einhverjar línur inn, en ég kom í frí 2apr og er því í fríi núna :).
Þegar ég kom upp á Kanarí var Guðný mætt á svæðið og eyddum við einni viku í vellystingum á Las Palmas, það var lítið annað gert annað en að rölta um í sólinni og hafa það notalegt. Einn dag skruppum við yfir á ensku og heimsóttum Gumma og foreldra hans, Gummi var svo höfðinglegur að sækja okkur á nýja Bensanum niður til Palmas :).
8apr flugum við svo heim, á vellinum hitti ég skóla og fermingarbróður frá Eskifirði sem ég hef ekki séð síðan ég veit ekki hvenær, allavega var svo langt síðan að við höfum sést að það hringdi engum bjöllum hjá honum þegar ég kynnti mig, en þetta rifjaðist allt upp og var mikið gaman hitta hann aftur. Umræddur fermingarbróðir minn heitir Ævar Freyr og var þarna nýgiftur og lukkulegur á heimleið úr brúðkaupsferðinni. Þarna áttaði ég mig á því hvað það er mikil skömm að við höfum ekki haldið neinu sambandi, krakkarnir sem ólumst nánast upp saman frá 6-15ára aldurs, svo bara púff og engin virðist vita hvað varð um liðið, það pukrast bara hver í sínu horni. En hvað sem því líður þá dreymir mig alltaf um að einn góðan veðurdag verði hægt að hóa þessum hóp saman og koma einhverri tengingu á.

Mamma og Pabbi biðu á vellinum þegar við komum til landsins og við skruppuð aðeins niður í Garð til þeirra, sóttum bílinn og fengum okkur kaffi, mútta var að vanda með dekkað borð svo ekki léttist maður í þessari heimsókn.
Næsti stoppstaður var í Lindarberginu hjá Hönnu Dóru Gunna og grislingunum, þar vorum við í kvöldmat, mikið gaman að hitta þau og sjá hvað litlu krílin dafna vel.
Svo var brunað heim á leið og var keyrt í einni lotu heim, við rétt stoppuðum til að bunkera olíu á Blönduósi annars var bara keyrt, klukkan var orðin rúmlega eitt um nótt þegar við loksins komumst heim, það var ekki laust við að við værum örlítið slæpt enda búin að vera á róli í rúma 19klst.

Vikan leið svo sinn vanagang, en á föstudagsmorgun fór ég inn á Akureyri og keypti gamlan snjósleða fyrir okkur feðga, en þar sem við vorum að fara í bústað með öllu vinafólkinu varð öll prufukeyrsla að bíða betri tíma.
Bústaðarferðin var alveg dillandi fín og ég held að allir hafi skemmt sér konunglega.
Upp úr hádegi á Sunnudag vorum við svo komin heim og þá var sleðinn tekin út og stefnt á fjöll, Rúnar vinur minn var með mér á sínum sleða og þeystum við um fjöll og firnindi allan daginn, Einar Már kom með okkur seinnipartinn og var ansi duglegur að keyra sleðann.
Í gær átti svo að endurtaka sleðagamanið enda veðrið með eindæmum gott, ég fór og fyllti af bensíni og brunaði svo til fjalls, en adam var ekki lengi í paradís því þegar toppurinn á fjallinu fór að nálgast þá slitnaði drifkeðjan í sleðanum og allt stopp.
Sem betur fer var ég í símasambandi og gat hringt í Rúnar sem kom og bjargaði mér, við drógum svo sleðann heim þar sem hann stendur nú bilaður og bíður eftir nýrri drifkeðju hvenær hún fæst veit engin en vonandi verður biðin ekki löng.

Mynd dagsins er af Rúnari í góðri sveiflu á sleðanum daginn sem allt virkaði hjá okkur feðgum ;), svo setti ég nokkrar nýlegar myndir inn á myndasíðuna.

Annað er ekki að frétta héðan.

Bið allar góðar vættir að vaka yfir ykkur hvar sem þið eruð niður komin á kúlunni, reynum að svo vera jákvæð og bjartsýn og sjá sniðugu hlutina í kring um okkur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi