..::Nouadhibou Bouy 10::..
Samkvæmt gömlu Íslensku spakmæli þá er betra seint en aldrei :) svo nú hripa ég niður nokkrar línur.
Seinnipart 22 Júní vorum við búnir að mæða í dallin fullan og ekkert annað í stöðunni en að hætta veiðum og halda til lands. Undanfarna daga var búið að vera skíta veður á miðunum og ekki hundi út sigandi, 18-22ms og þó nokkur hvika sem gerði okkur mjög erfitt fyrir að ná ásættanlegri ferð við veiðarnar, ég veit að þetta þykir sjálfsagt ekki mikið heima á Íslandi en hér við vesturströnd Afríku er þetta brara bræla.
Við erum ekki vanir svona vinndperring hérna og því búnir að sníða okkur stakk eftir því veðurfari sem hér oftast ræður ríkjum, litlum vindi og sléttum sjó.
8050 hestarnir okkar dugðu engan vegin til þegar kom að því að draga veiðarfærið á móti þessu og þurfti því að draga fram úr erminni aukahesta frá einum af ljósmótorunum, það gerði ásandið bærilegra en samt enganvegin nógur kraftur í því að draga á móti veðri og vindum af þessari stærðargráðu, þá var ekkert annað í stöðunni en að hajakka laus á móti og lensa svo með drusluna undan veðri og vindum.
En hvað um það þar sem allt var fullt héldum við inn á ytri leguna í Nouadhibou og slökuðum króknum út, svo var ekkert annað að gera en bíða og vona eftir því að eitthvað gerðist í fraktskipamálum.

Morguninn 23 kom Þórmndur skipper á Reinu duggandi sunnan frá Nouakchott, hann renndi upp að síðunni á okkur eins og að hann væri að keyra bíl og var snöggur að afgreiða múringuna, við settum ekki einu sinni í gang, biðum bara þægir og góðir á meðan karlinn renndi snarvendri drottningunni í stæðið.
Við byrjuðum fljótlega að hífa til okka ýmislegt góss sem Mundi kom með, umbúðir kost og fleira.
Þess má geta að séra Þórmundur átti afmæli og í tilefni þess gerði ég upp við hann kattasandsskuldina sem ég hafði trassað að borga síðan í fyrra, svo bauð ég karlinum í mat ;).
Um tíuleitið mætti OW Las Palmas olíudallurinn sem við skiptum við og vorum við snöggir að reima hann á síðuna, svo byrjuðum að totta úr honum svartagullið eins og heimalingur sem fær pelann sinn.
Ég notaði tækifærið og skrapp í heimsókn yfir í Reinu, þá ferð fór ég hokin af upplýsingum héðan og þaðan, en þeir félagar mínir á miðunum voru búnir að gefa drottningunni einkanir hver á sinn sérstaka hátt, það má því segja að ég hafi ekki farið óundirbúin.
Mundi tók vel á móti mér og malaði ofan í mig þetta dýrindiskaffi úr nýrri sjálfmalandi kaffivél sem honum hafði verið úthlutað í brúnna.
Svo hitti ég vélstjórann Frímann, fór hann með mig um skipið og sýndi mér það sem ég vildi sjá. Satt best að segja þá leist mér bara alls ekki illa á þetta skip en auðvitað bar það þess merki að hafa verið svelt af ýmsu nauðsynlegu viðhaldi hjá fyrri eigendum.
Ekki var annað að sjá en að það væri allt á fullu í að laga og betrumbæta, eftir þessa heimsókn hef ég fulla trú á því að þetta verði alveg dillandi fínt hjá þeim félögum þegar fram líða stundir og skipverjar í flotanum eigi eftir að þrá drottninguna, en allt gott gerist hægt og skemmst er að minnast að Róm var ekki byggð á einum degi ;).

Um miðjan dag var orðið morgunljóst að fraktdallurinn sem við eigum að landa í myndi ekki koma til okkar í bráð “ef fjallið kemur ekki til Muhamed þá verður Múhamed að fara til fjallsins!” svo það var farið í að breita leifum fyrir okkur svo við gætum silgt inn til Nouadhibou og landað þar.
Hér sunnan siðmenningar tekur allt sinn tíma og fór allur dagurinn í að vesenast í þessu.
Reina kláraði og fór en Ow Las Palmas hélt áfram að pumpa, til að toppa olíudælinguna þá stoppaði dælan hjá þeim félögum, það ferli lengist því um tvær klukkustundir, á endanum hafðist dælingin af og við vorum saddir, og nú var okkur ekkert að vanbúnaði að sigla inn á bauju 10.
Eða ég hélt það, en þá neitaði höfuðmótorinn í gang þeir sváfu örþreittu hestarnir og voru ekkert á því að fara að vinna, seint og um síðir höfðust þeir þó á lappir og höfuðmaskínan malaði sem aldrei fyrr.

Ekki get ég nú sagt að þetta hafi verið skemmtiferð hingað inn á 10 bauju í svartamyrkri og hvössum vindi, ég hafði aldrei siglt þetta áður og allar baujur í innsiglingunni ljóslausar.
En nóg var af pínulitlum bátum með blikkandi rauð ljós á svæðinu þar sem baujurnar voru, þessi bátskríli komu ekki fram á radar og maður sá ekki fyrr en við vorum að verða komnir yfir þá, en þetta hafðist allt á endanum og við reimuðum okkur utan á fraktskipið upp úr miðnætti í nótt.
Potaði inn nokkrum myndum

Þetta verður að duga ykkur í bili.
Bið Guð og gæfuna að fylgja ykkur um í ölduróti lífsins...........

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi