Bolludagurinn, og ég slapp í gegn um hann óbollaður ;).
Var komin á lappir um átta og þá var þetta allt að síga af stað hérna í Erlunni, fékk mann frá fjarskiptaeftirlitinu til að fara yfir talstöðvadótið og í framahaldi af því kom DNV pappír upp á heilbrigði þess búnaðar.
Á vinnsludekkinu gekk bara nokkuð vel í dag og eru blikur á lofti um að það gæti orðið klárt á miðvikudag, eiginlega þarf það að verða orðið klárt þá því að heilbrigðiseftirlitið í Lettlandi ætlar að senda skoðunarmanneskju til að taka dolluna og vinnsludekkið út á miðvikudag, eins gott að maður verði búin að skrúbba klósettið í skipstjóraklefanum svo maður verði ekki tekin í Lettnenska landhelgi ;) fyrir sóða og subbuskap ;).
Veðrið í Reykjavík var alveg frábært í dag, logn og glampandi sól, það er frekar óvenjulegt ef maður miðar við undanfarnar vikur.
Siggi í Stálvídd mætti með rjómabollur á línuna í dag og var því vel fagnað, það má segja að ef hann hafi átt einhverjar syndir þá gleymdust þær allar á þeim tímapunkti þegar bollurnar birtust.
Á morgun stendur svo til að sækja dótið til T.Ben og hengja trollið á lengjuna.
Þetta mjakast allt í rétta átt og á endanum komumst við af stað.
Læt þetta duga í dag......................................
Guð veri með ykkur.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi