Ekki tókum við hvíldardaginn heilagan um borð í Erlunni og var mannskapurinn byrjaður að brasa rétt upp úr átta í morgun.
Allt saltið var tekið af bryggjunni og úr lestinni og sett í stíu á millidekkinu, þetta voru ca 200x20kg pokar svo að það tók dágóða stund að bisa öllu saltinu á sinn stað.
Þegar því var lokið þá kláruðu þeir að saga niður plankana í flugbrautina og er það bara helvíti flott á eftir.
Ég setti í þvottavél í morgun og það hafðist af nokkuð vandræðalaust en þegar kom svo að því að setja tuskurnar í þurkarann vandaðist málið og á endanum fékk ég kokkinn til að koma honum af stað fyrir mig ;).
Ég fór svo með flaggaranum í að gera áhafnarlista það tók sinn tíma eins og allt annað.
Klukkan fjögur sveik ég svo lit og skrapp á Skódanum upp í Kringlu og keypti mér sokka og naglaklippur, fékk mér svo kaffi á einhverjum kaffibar og gluggaði í blöðin, þá hringdi Maggi og vildi fá mig í að flytja með sér vinkla rör og ýmislegt járnadót sem hentað gæti hérna um borð.
Þar með var friðurinn úti svo að ég spólaði um borð og skipti um föt og renndi svo eftir Magga.
Við fórum svo og lestuðum Skódan og er vægt til orða tekið að hann hafi verið á felgunum þegar við fórum fyrri ferðina, en við komum við á bensínsjoppu og pumpuðum í dekkin og þá var þetta algjört lunga, að vísu var eins og bíllinn væri á tréhjólum á eftir.
Ég var svo komin um borð aftur rúmlega sjö, rafvirkinn var með eldavélina í spaði á eldhúsgólfinu og var að gera við rofa í henni, ekki er nú hægt að segja að hann hafi verið flókin rafmagnsmælirinn sem karlræfilinn var með, en mælitækið var samsett úr tveim perum sem voru teipaðar voru saman, það löfðu svo tveir vírspottar niður úr teipklessunni, en með þessu fann hann það sem hann þurfti og kvartaði ekki.
Já þeir eru ekki alltaf kröfuharðir þessir karlar enda sjálfsagt ekki vanir miklu.
Jæja ætli þetta verði ekki lokaorðin í dag.
Vona að Guðs englar flögri yfir ykkur og vermdi ykkur frá öllu illu.
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi