Stundum hef ég velt því fyrir mér af hverju ég hafi ekki farið í vélskólann frekar en í stýrimanninn, það lá einhvern vegin betur fyrir mér að vera grúska í þessu véladóti ;) kolsvartur í olíu og skít. En síðustu vikur þá hef ég þakkað Guði að svo fór ekki, það er alveg ótrúlegt basl að vera vélstjóri á dollu eins og þessari og reina að halda þessu öllu gangandi, já það er enginn öfundsverður af því starfi, ég gæti trúað að hálfur mánuður hér um borð væri á við margra ára reynslu annarstaðar svo að það ættu að vera meðmæli að hafa verið á svona dollu.
En allt siglir þetta nú í rétta átt hjá okkur og hafa verður í huga að Róm var ekki byggð á einni nóttu, þetta hefur mikið skánað þó að enn sé langt í land.
Þegar ég skrapp niður eftir tei (aumingjavatni eins og sumir vilja kalla það) áðan þá var kokkurinn að bisast fram með kassettutæki, ég spurði hvort hann ætlaði að vera með diskótek?, eftir mikið handapat og útskýringar þá ruddi hann apparatinu af stað þá var engin tónlist á teipinu, heldur bara malandi kellingar á Rússnesku, og eftir enn meira pat og blaður þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væru upptökur af fyrri konu kokksins og aldraðri móður hans, jeeeee það er ýmislegt sem menn nenna að hlusta á ;). En á meðan þetta malar áfram þá bisast kallinn í pottunum og pönnum aldrei ánægðari.
Á hattinum er blankalogn og blíða í dag, og ég vona að veiðin verði þokkaleg eða viðunandi fyrir okkur smælingjana á Dollunni, það er ekki að sjá annað en að nýja botnstykkið og nýja trollaugað virki eins og til er ætlast 7-9-13 knok knok.
Fyrsta holið var tekið suðvestan á hattinum á 120-109fm dýpi og vorum við samskipa með Eyborg og Arnarborgu sem eru á svipuðu róli, annars heyrist mér að það sé eitthvað rólegra yfir veiðinni í dag en undanfarna daga og skipin séu eitthvað að dreifa sér um hattinn og leita að rauðagullinu.
Þetta er það helsta úr framhaldsögu dollunnar.
Bið Himnaföðurinn og englahjörð hans að vaka yfir ykkur..............
<°((()>< Hörður ><()))°>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi