..::Skötuveisla::..
Það má segja að dagurinn hjá mér hafi byrjað á skötuveislu, eða það var ekki langt frá því. Við vorum öll mætt niður til Gunna og Dísu í Þorláksmessuskötuna í hádeginu, ekki klikkuðu þau skötuhjú á skötunni þetta árið frekar en áður, en hún var með sterkara móti núna og ekki hollt að vera mikið á innsoginu yfir skötufatinu.
Eftir matarboðið fórum við heim og þá tók Jólaundirbúningurinn við, Guðný var náttúrulega að þrífa og þvo þvott og eitthvað fleira sem fylgir þessu jóla jóla ;).

Um sexleitið skutlaði ég svo Óla inn á Akureyri og sótti Árna Finns í leiðinni, við kíktum aðeins í Glerártorg og svo aðeins í göngugötuna en það var frekar kalt og fátt fólk á ferli, allavega miðað við dagsetninguna...............
Svo var brunað út á Dalvík, það var hált en ekkert til að væla yfir og geystist súbbinn þetta eins og ekkert væri. Maður tók varla eftir því að það væri hált fyrr en þeir komu með einhverjar aðvaranir í útvarpinu en þá var ég komin heim.
Það mætti mér þessi ilmandi hangikjötslykt í forstofunni þegar ég kom heim, Guðný var búin að nota tíman vel á meðan ég var í burtu, sjóða hangikjöt skipta á rúmunum skúra og bóna, ásamt því að hún hafði gert kartöflusalat og eitthvað fleira.

Það var bara ekkert eftir nema að skreyta jólatréð svo krakkarnir voru drifin í það, þau voru fljót að skreyta. Þegar því var lokið var ég minntur á að nú ættu pakkarnir að fara undir tréð eins og alltaf á Þorláksmessukvöld, já það eru fastar hefðir fyrir öllu og grislingarnir eru með þær allar á hreinu.



Mig langar svo að biðja Guð almáttugan um að passa ykkur öll fyrir mig, og ekki megum við gleyma að biðja fyrir þeim sem eiga bágt og minna mega sín, það eru víða erfiðir tímar núna og ekki eru allir sem geta haldið pakkajól.
En Jólin koma engu að síður og hamingjan er ekki fólgin í magninu eða verðmætunum, heldur er það hugurinn sem er að baki gjöfinni.
Mig langar til að benda ykkur á litla fallega Jólasögu á vefnum hans Júlla sem mér finnst svo falleg, okkur er öllum holt að lesa þessa litlu sögu.


<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi