..::Komin með ælu fyrir brælu::..
Við komum á miðin í morgun en veðrið passaði ekki við útbúnað og afl dollunnar svo við sáum sæng okkar útbreidda, snérum nefinu upp í vindinn og dokum við. Eitthvað eru þeir að hjakka í þessu á stærri skipunum með lökum eða engum árangri en við höfum kosið að bíða og verð ég að standa og falla með þeirri ákvörðun :(. Á meðan læt ég drengina mína stoppa í antikið splæsa grandara og annað sem þarf að gera á svona dós. Það hefur aðeins bæst við í skipaflotan á Flemmish Lómurinn og Artic Swan bættust við á meðan við vorum í landi en Ontica er að fara heim í slipp á morgun, þetta svona kemur og fer :). Nú liggja þeir á bæn í Onticu um að það geri stund milli veðurstríða, svo þeir nái kostinum sem flaggarinn pantaði í óþökk allra á milli skipanna á morgun áður en þeir fara á stað heim. Það er mikil bjartsýni í því að láta senda vörum í þessu magni út með öðru skipi á þessum árstíma, maður skilur ekki alveg hvað er í gangi en vissulega getur þurft að koma einhverjum stykkjum út. Á þessum árstíma er það undir hælinn lagt að koma dóti á milli skipa, ég tala nú ekki um þegar magnið er í brettavís, en bjartsýni í ómældu magni virðist vera viðvarandi öllum þáttum sem tengjast Flæmska þessa dagana. Kannski er það bara af hinu góða að hafa svolítið af bjartsýni, ég held samt að það verði að fylgja pakkanum örlítil skynsemi og raunsæi til þess að bragðið af uppskriftinni verði rétt.

Djöfull er þetta samt pirrandi þessi læti alltaf í veðrinu, svo ég tali nú ekki um þegar þetta hangir rétt í mörkunum hvort hægt sé að vera að veiðum eða ekki. Og ekki hjálpar það manni að taka ákvörðun um hvort druslan eigi að vera inni þegar stóru skipin eru að berjast í þessu (að vísu með einu trolli) en samt finnst manni að við ættum að geta verið að líka þótt skynsemin segi manni annað :). En það verður bara að reina að láta skynsemina ráða eins og meðlimirnir í klúbbi Trabanteigenda gerðu heimsfrægt með límmiðum um árið. Þetta hlýtur að lægja fyrir rest og þá er betra að hafa drusluna í lagi en allt slitið og tætt inni á dekki.

En af brælum er ég búin að fá nóg af fyrir næsta árið, maður er alveg að gliðna á þessu volki núna og lifir bara á því að ég fer heim í frí eftir túrinn :). En janúar er að hverfa og hver veit nema þetta lagist eitthvað í feb, hver veit hver veit!.

Þetta verður að nægja ykkur í dag.

Bið Guð að geima ykkur fyrir mig.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi