..::Kokkurinn og kálhausinn::..
Í gærkvöldi tókum við síðasta holi í túrnum og þá var antikið rifið, eins gott að þeir frétti það ekki hjá fornleifastofu að ég hafi skemmt antikið. En það er búið að loka einum túrnum enn á Dollunni og sullumst við á útopnu í átt til lands. Það er bölvaður skælingur í dag, hliðarskella og rúllar belgfull Dósin eins og korktappi á úfnum haffletinum. Já það má segja að Dósin sé nánast belgfull en það þurfti sannarlega að hafa fyrir því þennan túrinn, og eru áhafnarmeðlimir Dósarinnar búnir að fá sig fullsadda af velting þennan túrinn. En þeir verða nú samt að sætta sig við þetta einhverjar klukkustundir í viðbót.

Áðan þegar ég skreið niður til að ná mér í tesopa varð ég vitni að nýrri íþrótta. Kokkurinn var á hlaupum út um allt eldhús á eftir kálhöfði sem hafði fengið líf, á tímabili leit ekki út fyrir að kokkurinn ætlaði að hafa þetta en hann rétt marði fyrstu lotu. Þetta var svona eins og í Harry Potter nema í stað gullnu eldingarinnar var kálhöfuð sem þurfti að fanga á glerhálum flísunum í velting. Enginn Nimbus 2000 í leikvangi Dollunnar, og engin lið bara Kokkurinn og kálhöfuðið, en það er nú svo merkilegt að mér þótti samt ekkert tilkomuminna að horfa á þessa viðureign heldur en aðrar íþróttir. Það var ekki ólíkt því að þetta gæti verið að gerast í galdraskóla Potters, því þegar ísskápurinn var opnaður var eins og ísskápurinn hefði misskilið hlutverk sitt og haldið að hann væri orðin mixari, það var allt í stöppu inni í honum :(. Ég náði að fiska mjólkurfernu út úr stöppunni áður en ég tilkynni sveittum íþróttaálfinum um fund minn á nýjasta eldhúsáhaldinu. Ekki get ég nú sagt að hann hafi skríkt af hamingju þegar hann komst að því að ísskápurinn væri að svíkja lit. Ég veit ekki á hvað undrunarergelsissvipurinn á kokknum minnti mig, helst er að hann hafi minnt mig á morgunsvipinn á kokk sem ég þekki fyrir mörgum árum og gat orðið með eindæmum ergilegur og geðvondur. Þegar sá geðvonskupúki hætti til sjós sá útgerðarstjórinn sig tilknúin til að skrifa fögur eftirmæli eins og honum einum var lagið og sagði "hann var lengst af góður kokkur". Merkilegt hvað sumir eru alltaf orðheppnir :).

Þetta verður aðduga ykkur í dag....

Vona að allir hafi verið stilltir og þægir og munað eftir bænunum sínum. Bið Guð að passa ykkur.

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi