..::Næstum búið :) ::..
Jæja nú er þessari frægðarförinni að ljúka og aðeins dagurinn í dag eftir áður en við ryðjumst af stað til Newfie á flautandi túrbínunni :).

Maður er sjálfsagt orðin veðurskertur eftir öll þessi læti í veðrinu þennan mánuðinn :). Við vorum að toga með Salles í gærkvöldi og
vindlingurinn(vindhraðamælirinn) á Salles geystist upp í 30m/s í einhverjum vatnsveðurskilum sem gengu yfir okkur. Okkur á GúmmíÖndinni fannst alls ekki slæmt veður, þó vildi Bangsimon meina að það hafi aldrei farið undir 20m/s seinnipartinn og oftar hafi verið 25m/s. Seinna um kvöldið þegar mér þótti vera komin englablíða kallaði ég í Bangsimon og bað hann að lesa á vindlinginn því nú væri komið nánast logn ;) en niðurstaðan var 18m/s svo ég tel að annaðhvort sé ég orðin veðurskertur eða vindlingurinn í Salles á sunnudagsrúntinum.

Það er svo sem ekki mikið annað að segja, það var blíða fram yfir hádegi en þá fór að gusta úr austri, nú verður bara að liggja í austan þangað til við náum landi svo við fáum lens á landstíminu. En það er sjálfsagt til of mikils mælt að fara fram á lens á landleiðinni og líklegra þætti mér að við þyrftum að hjakka á móti fræsunni alla leið í land. Maður hrykki ekki langar leiðir ef það yrði niðurstaðan.

Þetta eru sunnudagsfréttirnar af GúmmíÖndinni.

Bið háæruverðugan himnaföðurinn og alla hans fiðruðu fylgisveina/dömur að vaka yfir ykkur. Ég bið hann að færa ykkur alla þá hamingju hlýju og kærleika sem þið getið tekið á móti. Nú er ekkert annað í stöðunni fyrir ykkur en að opna faðminn og taka á móti ljósinu bjarta :).

<º))))><.•´¯`•. Hörður .•´¯`•.><((((º>

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi