Þriðjudagur 15 Júní
..::Birting án samþykkis::..
Ekki var ég nú par hrifin yfir birtingu skip.is á blogginu mínu.
Upphaflega var þessi ritvöllur minn hugsaður fyrir fjölskylduna vini og kunningja og er það enn, en "shit happens!" eins og einhver orðaði það. Þessi birting var framkvæmd í óþökk minni á míns samþykkis, ég kæri mig ekki um að það sé verið að klippa og líma mínar persónulegu hugleiðingar hingað og þangað, og ég vona að þetta endurtaki sig ekki!...
En það þýðir víst ekkert að fjasa yfir því sem orðið er.

Þriðjudagur 15 Júní
..::Hitt og þetta::..
Í gærkvöldi hreiðruðum við Íslendingarnir um okkur í setustofunni, horfðum á vídeo borðuðum flögur, súkkulaði og drukkum epladjús, hvað er hægt að hafa það betra?.
Klukkan var langt gengin í fjögur þegar ég staulaðist upp í káetuna mína og skreið í kojuna, það tók mig djúga stund að komast í gleymskuástandið vegna braks og smella í innréttingunum. Stundum hef ég það á tilfinningunni að ég sé komin í gamla tréskútu, það brakar og brestur þvílíkt í öllum innréttingum í káetunni hjá mér, það venst sjálfsagt eins og annað. Í morgun klukkan níu runnum við svo inn í efnahagslögsögu Íslands, það var floti karfaskipa norðvestur úr okkur flestir að harka á línunni eða í nágrenni við hana, ekki var annað að heyra en það væri rólegt yfir veiðinni.

Dollan sem nú gegnir stöðu dráttarvélar rennur áfram áreynslu og stunulaust með okkur í eftirdragi og sækist greyinu ferðin ágætlega, Krummi var með væntingar um að við næðum inn til Hafnarfjarðar seinnipartin á morgun og vonandi verður hann sannspár í þeim efnum.

Í hádeginu voru fætur af skíthoppurum ala Ioli með hrísgrjónum og tómatsósu, hin besta tilbreyting frá svínakjötssniðselinu sem ég hef fengið í nánast hvert mál síðan ég kom hingað um borð, þessi sami kokkur var lengst af með mér á Dollunni og eldaði þá sama svínasniðsel réttin með steiktum kartöflum handa mér án nokkurra frávika í fjóra mánuði í hádegis og kvöldmat. Á endanum gafst ég upp og lét mér nægja að borða þetta einu sinni á dag í kvöldmat, Kiddi frændi var líka á sérmatseðli í dollunni og fékk lambakótilettur “fimm stykki” tvisvar á dag þangað til Ioli hætti. Við sáum enga ástæðu til að vera að kvarta neitt yfir þessu enda hélt Ioli kallinn að hann væri að gera okkur gott með þessum sérréttamatseðli, karlinn trúði því að þetta væru okkar dýpstu þrár og vonir hvað mat snerti :).
Það er stundum skondið hvernig þeir misskilja okkur þessir englar, t.d kom eitt sinn nýr kokkur á Andvara, gamli kokkurinn sagði þeim nýja að Íslendingarnir ætu ekkert nema lambakjöt, kokks ræfillinn vildi náttúrulega standa sig í stykkinu og eldaði handa Íslendingunum lambalæri í hádegis og kvöldmat sautján daga í röð áður en að skipstjórinn missti sig og hótaði að henda kokknum í sjóinn ef hann eldaði læri átjánda daginn í röð :).

Veðrið hefur leikið við hvern sinn fingur í dag og myndi þetta flokkast undir einmuna blíðu þótt sólin baki ekki niður þennan daginn, hitinn er 10°C og blankalogn.
Klukkan 18:30 erum við staddir á 62°09N 026°28W 155sml suðvestur úr Garðskaga.

Fleira er ekki í fréttum héðan í dag.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi