..::Úti að hjóla::..
Sparkaði hjólinu í gang eftir hádegið og renndi inn á Akureyri, þar fyllti ég af eldsneyti og brunaði svo yfir Vaðlaheiðina, yfir gömlu brúna í Vaglaskógi og inn allan Fnjóskadal.
Frá Sörlastöðum liggur vegslóði(línuvegur) yfir í Barðárdal, þennan slóða fór ég  í fyrra svo að ég þekkti leiðina ágætlega og renndi beint upp á heiðina, á heiðinni fór ég fram úr einum jeppa og keyrði svo fram á  göngufólk sem var að lötra yfir.
Þegar ég átti stutt eftir niður af heiðinni hitti ég annan mótorhjólamann sem var að prufa þessa leið í fyrsta skipti, við stoppuðum stutta stund og spjölluðum en ég hélt svo áfram niður og endaði á Sandhaugum hjá Tóta og Ólu, þau voru að brasa í girðingum þegar ég kom, eða réttara sagt að klippa gaddavír úr jarðvegstætaranum, þegar það var búið var boðið upp á kaffi.
Óla galdraði fram ótrúlegt magn af bakkelsi á augabragði, ég tróð mig út af bakkelsi og þambaði kaffi með. Eftir kaffið fór ég að huga að heimferðinni, hirti upp flíspeisuna sem Guðný gleymdi um helgina, kvaddi heimilisfólk og brunaði sömu leið til baka.
Ég hitti akkúrat á rétta komutímann heim því Guðný var að leggja lokahönd á kvöldmatinn þegar ég mætti.
Eftir matinn þvoði ég hjólið og sló svo megnið af lóðinni.
Gleðifrétt dagsins er svo að Bangsi(kisinn) er fundinn en það var komið með hann til Ninnu og Gumma í dag :):).
Og ekki fór vélin í Otto í gang í dag en það á víst að gerast á morgun ;), ég ætla að bíða með að panta mér flug þangað til ég heyri aftur í þeim á morgun, en líklegast fer ég suður einhvertímann á morgun, þ.e.a.s ef allt gengur eftir með vélina.        

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi