..::Haustið kemur::..
Dagurinn í dag gekk spakliga fyrir sig, buðum Ingunni og Kalla í læri í hádeginu, en svo var bara legið á meltunni og lífið tekið með stóískri ró.
Það er að koma haust á Dalvik og englar himinsins hafa grátið í allan dag, gróðurinn smá gulnar og visnar og haustbúningurinn færist yfir hægt og bítandi.
Það er ágætt að sitja inni í hlýjunni og horfa á regnið skvettast niður úr háloftunum, þetta er einn af þessum blautu köldu haustdögum sem maður þekkir svo vel.
Keyrði Hjördísi og Óla inn á vist seinnipartinn, kíkti aðeins inn og skipti um kló á ísskápnum hjá þeim áður en ég hélt til baka.
Í fréttunum á leiðinni heim gekk allt út á yfirvogandi kennaraverkfall grunnskólakennara, mætti segja mer að margir grislingarnir liggi á bæn og biðji almættið um verkfall, ég skil ágætlega þessa grislinga og hefði líklega sjálfur fagnað kennaraverkfalli á árum áður.
Það hefði mátt flokka það undir nútíma hvalreka á fjörur lærdómsuppgefinna ungmenna.
En ég sé nú ekki neina ástæðu til að vera með eitthvert svartsýnisraus og langtímaspár um verkfall, í mínum huga er þetta ákaflega einfalt. Ef þeir verða ekki búnir að leysa þessi ágreiningsmál eftir þrjár vikur á bara að setja á þetta lög, ég sé ekki neitt athugavert við það.
Lagaógn hafa sjómenn þurft að búa við alla tíð og hversvegna ættu ekki aðrar atvinnustéttir að fá að sitja við sama borð?.
En ég ætla ekki að fara nánar út í þetta kennaraverkfall, eina sem hægt er um það að segja að á endanum tapa allir á verkfalli, því miður er það bara staðreynd.
Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri................................

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi