..::Nú fann ég að það kom!::..
Það er allsvakaleg rigning búin að vera hjá okkur síðan í gær, það hefur hreinlega gusast úr loftinu eins og í sturtu, ekki er þetta alveg lóðrétt ofankoma frekar en fyrridaginn og sér næðingurinn um að halda þessu sulli nánast láréttu :(.
Þetta hefur haft í för með sér alls kyns hamfarir, t.d lokaðist vegurinn milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur í morgun vegna aurskriða, sjá frétt í mbl.is.
Fyrir vestan töluðu þeir um að fjöllin væru að skríða fram undan vatnselgnum :(, ljótt ef vestfjarðaraðstoðin er öll að renna á haf út, hvað gera Vestfirðingar þá? En kannski er þetta bara Verst-fyrst :):).

Ég hef lítið farið út í dag, bara setið inni og gónt út um gluggann á ógeðslega blauta haustdrulluna sem flæðir yfir okkur, þegar maður horfir út um eldhúsgluggann í átt að Framnesi blasir við kolldrullubrúnn sjórinn, allar lækjarsprænur hafa breyst í myndarlegar ár og velta kakóbrúnar niður fjallshlíðarnar og út í sjó , þetta hefur þær afleiðingar að sjórinn verður eins og kakó.
Ég marði mig þó niður í bæ og sótti nýjan LAN kapal fyrir Ninnu og kom honum fyrir aftan í tölvunni hennar og setti svo upp póstforritið, nú er allt klárt þar til rafrænna bréfendinga á þeim bæ :).

Svala vinkona klippti mig og frúna í dag, ég fékk mér Prins Valíant klippingu en Guðný fékk sér sítt að aftan og perm í toppinn, nú erum við langflottust á Norðurlandi.

Það var góðmennt og fjölmennt hjá okkur í kvöldmat, mest af fjölskyldunni samankomin í hakk og spaghetti ala Guðný.
Þegar liðið var búið að gúffa í sig snérist talið vestur í Borgarfjörð.
Mamma er ættuð vestan úr Borgarfirði og uppalin hjá afa sínum og ömmu í Grafarkoti í Mýrasýslu. Allt í einu snérist orðið allt um staðsetningu Grafarkots, vildi megnið af fjölskyldunni færa kotið upp að Grábrók. Ekki var ég nú parhrifin af þeirri staðsetningu og var eiginlega ögn sár yfir því að þau teldu að ég vissi ekki hvar móðir mín ólst upp.
Grafarkot stendur rétt norðan við orlofsbústaði BSRB í Munaðarnesi, pínulítið hús neðan við vegin. Þetta fannst samt öllum voða fyndið að ég skyldi ekki bara segja já og amen og samþykkja að Grafarkot væri komið upp að Grábrók :):), og enn fyndnara fannst þeim að ég skyldi fara að reina að færa sönnur á að það væri ekki við Grábrók.
Kannski var þetta bara fyndið hahaha :) en ég gat ekki gefið þetta eftir og nálgaðist þær sannanir sem þurfti á veraldarvefnum, þá loks fékk ég uppreisn æru ;).
Annars ætti maður ekki að hætta sér út á hálan ís landafræðinnar, þar verður mörgum fótaskortur á tungunni og sitt sýnist hverjum. En ef þú hefur rétt fyrir þér þá er engin ástæða að láta valta yfir þig :);).

That´s it for to day............................



Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi