..::Frestað vegna veðurs::..
Þær léku við mig heilladísirnar í dag þegar kapteinninn á snuddupungnum hringdi og sagðist ætla að fresta um sólarhring vegna veðurs.
En það var ekkert að veðrinu hérna á víkinni og nánast vor í lofti þótt það sé byrjun jan, ég labbaði eina ferð á sandinn í góða veðrinu í morgun til hressingar og mörbræðslu.
Eftir hádegið fór ég svo á hjólið en ég var búin að lofa svila mínum prufutúr og þótti ekkert leiðinlegt að þurfa að standa við það. Ég byrjaði á að fara á ísinn á Hrísatjörninni þar sem ég tók smáskrens, Gummi var mættur þangað á grænu þrumunni og fór á kostum á ísnum, ég tók þetta fína vídeoclip þar sem þruman snérist eins og skapparakringla á ísnum.
Eftir smá iceracing var svo farið á sandinn þar sem Gummi fékk smá útrás og jú litli frændi líka. Eftir sandspyrnuna reyndi ég aðeins við hjarnið en það hafði greinilega ekki þolað góða veðrið og var full meyrt fyrir okkar smekk.

Ég setti inn nokkrar myndir af atburðum dagsins ;);).

Já þetta er meira og minna það sem ég náði að afreka í dag, á morgun er svo gert ráð fyrir annarri tilraun í að sækja þennan snuddubát.

Bið alla Guðs engla að vera ykkur innan handar í því sem þið takið ykkur fyrir hendur.

Ummæli

Vinsælar færslur af þessu bloggi