..::Kóngur vill sigla en byr mun ráða::..
Ekki sigldum við í dag en það er nokkuð mikil bjartsýni í okkur að það gæti gerst á morgun, nú er bara að krossa alla útlimi og vona það besta :).

Það hefur verið ágætisveður hjá okkur í dag svo að mínir menn hafa verið á fullu í málningarvinnu og annarri útivinnu, alltaf af nógu af taka og nóg að gera, þetta er bara eins og með húskofana viðhald og betrumbætur eru “endless story”.

Ég er búin að fara tvær ferðir með afganga handa bestu vinum mínum á bryggjunni, þeir eru alltaf jafn ánægðir að sjá mig og það vantar lítið upp á að þeir hristi af sér skottið þegar ég kem, það er svo gaman hjá tíkinni þegar ég kem að hún ræður sér ekki fyrir kæti og hoppar í hringi af fögnuði.
Manni líður eins og frelsaranum sjálfum þegar hann mettaði allan lýðinn, ég veit svo sem ekki hvernig honum leið en geri mér í hugarlund að það hafi verið eitthvað svipuð tilfinning og þegar ég fer að gefa hundunum.
Mikið langar mér til að taka hvolpinn um borð, en ég held samt að það verði ekkert nema vesen svo að það er bara betra að sleppa því, samt er erfitt að þurfa að skilja litla greyið eftir en lífið er ekki alltaf eins og maður vildi hafa það, ég held að það verði betra fyrir hann að vera áfram í landi.

Það er búin að vera mikið um veikindi hérna um borð hjá okkur og flensufjandinn hefur lagst á áhöfnina eins og Spænska veikin lagðist yfir klakann um árið.
Ég er samt að vonast til að versta hrinan sé að ganga yfir því þetta er orðið ágætt í bili.
Ég mæli samt með að allir sem einhverja vitglóru hafa í kollinum láti sig hafa það að fara í flensusprautu þegar það er í boði, það er ekkert að því að setja öryggið á oddinn í þeim efnum.

Í nótt verður gatinu lokað sem Rafalinn var tekin niður um, þetta er heljarinnar gat og reiknar Spanjóla gengið með því að það taki fimm tíma að steikja lokið fast í gatið, en það er búið að sjóða alla bita neðan í plötunni svo að það má segja að lokið sé orðið forsteikt.
Í fyrramálið verður svo vonandi hægt að klára afréttingu og prufa dótið.

Í kvöld fóru strákarnir mínir upp ásamt Geysismönnum, ég nennti ekki að labba upp í bæ með þeim svo að ég hangi bara um borð eins og steingelt gamalmenni hehe, maður horfir kannski á eina mynd á eftir, en Matti vinur minn lánaði mér teiknimyndina með Ástrík og Steinrík, ég held að hún sé alveg frábær, ég hef voðalega gaman af því að horfa á góðar teiknimyndir, bæði eru teiknimyndir í dag virkilega vel gerðar og oft á tíðum hrein listaverk. Það er oft ákaflega fallegur boðskapur í þessum teiknimyndum, boðskapur sem ekki á síður erindi til fullorðinna en barna.
Sum okkar eiga kannski bágt með að viðurkenna að þeim þyki gaman af teiknimyndum. Það hefur fylgt mannkyninu lengi að reyna að slá ryki í augu annarra og sýnast vera eitthvað annað en þeir eru. Að mínu viti á maður bara að vera maður sjálfur og vera ekkert að pæla í því hvað öðrum finnst :).

Mynd dagsins er af Spænskum viðgerðarmönnum sem komu til að kíkja á bremsuna á einu bómuspilinu, ég held að ég geti sagt með öllum kjaftinum að Speedy Gonsales heitinn hafi ekki verið skyldur þessum mönnum á nokkurn hátt.

Þá er þetta eintal mitt að lokum komið.
Ég ætla að biðja Guðs engla að vaka yfir ykkur fyrir mig og vona heitt og innilega að þið hafið það öll sem best.........

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Knús.

Vinsælar færslur af þessu bloggi