..::Ferðalag og fjölgun í ættinni::..
Jæja þá er maður komin aftur um borð og ferðin út var hin viðburðarríkasta.
Hjördís pikkaði mig upp á Reykjavíkurvelli og renndum við aðeins við á skrifstofunni í Hafnarfirði áður en við kíktum á Hönnu Dóru Gunna og Hauk en þau voru nýflutt yfir í Hafnarfjörð og voru að koma sér fyrir þar. Við borðuðum plokkfisk hjá þeim áður en við fórum yfir í Garð til mömmu og pabba.
Hanna Dóra hin sprækasta að sjá og ekkert virtist í spilunum að ég fengi að sjá litlu frænku áður en ég færi ;(. Við Hjördís rúlluðum svo yfir í Garð þar sem mamma og pabbi tóku á móti okkur, við áttum ágætt kvöld þar sem ýmislegt var spjallað, um tólfleitið fór ég svo að sofa enda átti að taka næsta dag snemma og vakna korter yfir sex.
En litla frænka ætlaði ekki að missa af því að heilsa upp á frænda áður en hann færi svo hún dreif sig í heiminn með trukki og dýfu, klukkan 01:20 hringdi Gunni og þá var daman mætt í heiminn :), við drifum okkur á fætur og brunuðum inní Hafnarfjörð til að sækja Hauk svo Gunni kæmist upp á sjúkrahús til þeirra mæðgna, ég fékk að fara með þangað og kíkja á litlu frænku.
Litla krílið var ótrúlega spræk og krúttleg og systir stóð sig eins og hetja ;).
Þegar heimsókninni lauk brunuðum við aftur yfir í Garð og nú var Haukur með en hann ætlaði að vera hjá Ömmu og Afa einn tvo daga.
Ég náði mér svo í smá kríu áður en ég þurfti að mæta á Keflavíkurvöll í flug til Gran Kanarí, það gekk allt eins og í sögu og vorum við lentir á Kanarí um hálffjögur að staðartíma sem er klukkutíma á undan Íslenskum tíma.
Nú var brunað með okkur á hótelið, þar sem við vorum þetta snemma á ferðinni þá náðum við að fara í smá bæjarrölt þar sem sumir keyptu sér myndavélar en aðrir síma ;) t.d ég en mér hefur haldist ótrúlega illa á símum undanfarið og þurf að endurnýja ansi oft ;).
Um kvöldið fórum við svo allir(flestir) saman út að borða og áttum ágætiskvöld á einhverjum steikarveitingarstað, steikin var fín en þjónusta og meðlæti var afar dapurt svo að ég geri ekki ráð fyrir að heimsækja þennan stað aftur hehe.
Klukkan var langt gengin í eitt þegar ég skreið í kojuna og var fljótur að sofna.
Korter yfir sex hringdi síminn en þá var komið ræs á okkur. Snögg sturta og svo beina leið í morgunmat og í framhaldi út á völl, við tróðum okkur svo í rörið(leiguvélina) og svifum á vit Afríku, en það tók þrjá tíma að pjakka niður til Nouakchott.
Í Noukchott gekk allt ágætlega fyrir sig og vorum við fljótlega komnir niður á höfn þar sem Sjóli beið okkar. Ég tók eftir mikilli breytingu í höfuðborginni, breytingu til batnaðar en þeir virðast vera í einhverju átaki í að taka til og bæta ásýnd því það var mikill munur á því sem verið hefur, kannski að ný stjórn hafi bætta og betri stefnu í umhverfismálum :P.
Við vorum komnir um borð upp úr tvö en skipið var að byrja löndun svo að við dokum sjálfsagt eitthvað hérna á legunni meðan aflinn verður kroppaður upp úr skipinu .
Mynd dagsins rændi ég úr fréttablaðinu en hún er af Hönnu Dóru nýfæddri frænku og Gunnari.
Læt þetta nægja í bili.
Bið Guð og gæfuna að fylgja ykkur hvar sem þið eruð niðurkomin.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Gott að heyra að ferðalagið gekk vel. Við vorum í fermingu Söndru í dag og það var ljómandi gott ekkert langdregið og nóg að borða í veislunni,Fermingarbarnið voða flott og fín,Haukur var sá eini af fólkinu í Lindarberginu sem kom í veisluna en hann var mjög kátur eins og alltaf og kunni vel að meta kræsingarnar.Páskakveðjur úr Kríulandi.
Nafnlaus sagði…
Gaman að heyra að það hafi verið gaman í veislunni og að litli frændi sé kátur og hress.
Ég hefði alveg verið til í að vera í veislunni með ykkur.
Páskakveðja
Hörður

Vinsælar færslur af þessu bloggi