..::Herpinót::..
Jæja þá er komið að því ;), við kláruðum að landa um kvöldmatarleitið 26jún og í framhaldinu var haldið áleiðis á veiðar.

Um það leiti sem við vorum að klára löndun renndi einn af þessum stóru tré Márabátum fram hjá okkur og kastaði nót “herpinót”. Mér fannst nú ekki vera neitt veður í þetta en þeir kalla ekki allt ömmu sína þessir jaxlar og þeir kláruðu hringinn sem mér fannst bara býsna langur, svo kom annar bátur og tók snurputógið og dróg það.
Tæknin er ekkert að flækjast fyrir þeim á þessum bátum og ég held að það sé ekkert spil í þeim, hvorki hand né vélknúið.
Allt dregið á höndum nema snurputógið sem hinn báturinn dró.
Það var ekki laust við að ég vorkenndi þeim þegar þeir voru að bisa nótinni um borð aftur, bátskriflið saup oft á og það var nóg að gera í austri hjá körlunum milli þess sem þeir drógu nótina hægt og bítandi.
Einhvernvegin hafðist þetta allt á endanum en árangurinn var ekki mikill í þetta skiptið, enda kannski ekki hægt að ætlast til þess þar sem einu fiskleitartækin voru augu og eyru skipverja, en það er ekki alltaf búmm hjá þessum köppum því oft hef ég séð þessa báta sökkhlaðna af fiski :) svo þeir hitta í fisk og þá er örugglega gaman hjá þeim.

Hvað okkur varðar þá hefur veðrið leikið við okkur síðan við komum út aftur og veiðin hefur verið ágæt hjá flotanum.

Annars er ekki mikið að frétta annað en að betri helmingurinn minn átti afmæli í dag og ég mundi eftir því ;);), manni er ekki alsvarnað.

Mynd dagsins er af hetjum hafsins við nótaveiðar í Máritaníu.

Læt þetta nægja í dag.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Til hamingju með frúna,nú þarftu að fara að leggja drög að því hvað hún fær á fertugsafmælinu,kannski einn mánuð um borð?????? knús úr kríulandi, hér blésu sterkir vindar í dag og feyktu skemmtidagskránni út í veður og vind,

Vinsælar færslur af þessu bloggi